„Habemus papam“. Persóna páfans og siðferðileg álitamál

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Biskup Íslands frú Agnes Sigurðardóttir fagnaði kjöri nýs páfa og sendi út þessa tilkynningu „Biðjum fyrir páfanum Frans I og gerum bæn nafna hans frá Assisi að okkar: Megi hann vera verkfæri friðar og boðberi vonar í heiminum.

Ég tók undir þetta heils hugar á facbókarsíðu minni og bætti við: „Nýi páfinn er einn látlausasti og ljúfasti maður sem ég hef hitt og ég trúi því að heilagur andi hafi haft áhrif á þetta val.“

Í framhaldinu hafa svo sprottið áhugaverðar og hreinskilnislegar umræður um siðferðieg álitamál sem nýr páfi hlýtur að taka afstöðu til. Til máls hafa tekið Melkorka Kristindóttir sem lagt hefur stund á guðfræði og heimspeki, sr.  Sigríður Guðmarsdóttir og Ólafur Gíslason listfræðingur sem vel þekkir til á Ítalíu og hefur fylgist vel með Rómversk-kaþólsku kirkjunni. Hann skrifar:  ,,Þeir sóttu mig á heimsenda“, sagði heilagur Frans, sem fær það erfiða hlutverk að réttlæta bann klerkavaldsins á getnaðarvörnum á tímum eyðninnar. Það er lýsandi dæmi tvískinnungsins í þessu leikhúsi kirkjunnar að einungis 8% kaþólskra kvenna virðir þetta bann samkvæmt könnun tölfræðinganna. Engu að síður hljómar söngurinn fallega: „Habemus papam!“

Þessi færsla Ólafs varð tilefni að eftirfarandi pistli mínum:

Aðeins til nánari útskýringar Ólafur þá byggi ég þetta álit mitt á því að hafa umgengist manninn daglega í tvær vikur í prestahúsinu við Piazza Navona þar sem margir klerkar háir sem lágir búa, sumir að staðaldri og sumir hátt settir í Vatikaninu – aðrir á leið upp valdastigann eins og gerist. Maður sér þá nokkuð fljótt út og ég kann dulítið fyrir mér í félagssálfræði og hafði tíma til að horfa í kringum mig því þarna var margt nýstárlegt og lærdómsrík. Það vakti strax athygli mína að þessi biskup frá Argentínu var gjörsamlega ónæmur á alla yfirborðsmennskuna og sýndarmennskuna í leikhúsi kirkjunnar – ég þekki slíkt allvel alveg frá barnæsku og er ofurnæmur orðinn á allt slíkt hvort sem það er bak við tjöldin eða á sviðinu sjálfu. Ég fullyrði að þessi maður veit ekki hvað hroki er en augnaráð hans er rannsakandi og greindarlegt og hann veit alveg hvað er að gerast í kringum hann. Þegar hann horfir á mann þá nær hann strax persónulegu sambandi og verður eftirminnilegur. Framapotararnir litu ekki við honum og verða sjálfsagt undrandi í fyrramálið þegar hann er orðinn æðsti yfirmaður þeirra, því enginn nefndi hann meðal líklegra kandidata og var þetta þó mikið rætt undir borðum eins og nærri má geta. Aðrir erkibiskupar voru þarna með fylgdarlið sem sló um sig og lét vita af dýrð og valdi.

Jorge Mario Bergoglio var eini maðurinn sem settist við morgunverðarborðið hjá mér trúvillingnum, ekki af neinni yfirborðslegri kurteisi – hann sagði ekki neitt og ég varð að hefja samræðurnar sem voru svo sem ekki miklar því hann talaði lélega ensku. Hann var eins og dálíð utan við sig og ekki laus við feimni en þó góðlátlega kankvís – ekki ósvipað séra Pétri heitnum Ingjaldssyni sem ég líkti honum við í bloggfærslu daginn sem við hittumst fyrst sem var 1. mars sl. Ég hugsaði einmitt með mér: svona menn komast ekki langt í valdakerfinu, en ég hafði aldeilis ekki rétt fyrir mér. Það er þess vegna sem ég hef trú á þessum manni og tel að hann eigi eftir að koma mörgum á óvart. Sem sagt, maðurinn er óháður goggunarröðinni í Vatikaninu, auðmjúkur og velviljaður og þess vegna næmur á þá sem eru fátækir í andanum og það er að slíku fólki sem heilagur andi virðist eiga greiða leið. Mundu að Jóhannes 23 kom mörgum á óvart, reyndist byltingamaður undir meinlausu og góðlegu yfirbragði. Annað eins hefur nú gerst í sögu Rómversk-kaþólsku kirkjunnar og að breytt hafi veriðið um stefnu í málum á borð við getnaðarvarnir.

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *