[container] Í febrúar 2010 birti Hagstofa Íslands skýrslu sem ber yfirskriftina Launamunur kynjanna. Skýrslan var byggð á gögnum Hagstofunnar úr rannsókn sem unnin var í samstarfi við og að beiðni aðila vinnmarkaðarins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Breyturnar sem tillit var tekið til voru starfsstétt, menntun, starfsaldur, aldur, fjöldi yfirvinnutíma, inntak starfs og fjöldi sem vinnur í sama herbergi. Í niðurstöðum kom fram að konur eru með 11% lægri dagvinnulaun og aukagreiðslur á klukkstund en karlar. Þetta er það sem í daglegu tali er kallað kynbundinn launamunur.
Ekkert kemur á óvart í skýrslu Hagstofunnar. Stóru stéttarfélögin VR og SFR hafa um nokkurt skeið staðið fyrir launakönnunum innan sinna raða og út frá þeim hefur kynbundinn launamunur félaganna verið reiknaður. Þess ber að geta að breyturnar eru ekki alveg þær sömu og í þessari stóru rannsókn Hagstofunnar og í stéttarfélagskönnununum er breytunum smám saman að fjölga. Hjá VR var þessi munur 14% árið 2004 en á síðastliðnu ári var hann 9,4%. Þetta rokkar upp og niður hjá SFR, 2012 var munurinn 12%, árið á undan 13% og árið 2010 var hann 10%. Þrátt fyrir að aðferðafræðin við að reikna kynbundinn launamun sé ekki nákvæmlega sú sama í öllum þessum rannsóknum segja niðurstöðutölurnar allt sem segja þarf. Þær eru mjög svipaðar, allar um og yfir 10% enda skekkjumörk talin 1-2%.
Kynbundinn launamunur er bara þarna. Hann glottir framan í okkur á hverjum degi. Hann er sem lögmál. Hann er mjög athyglisverður því annan maí árið 1961 tóku gildi hér á landi lög sem hið háa Alþingi hafði samþykkt. Samkvæmt lögunum voru atvinnurekendur skyldaðir til að greiða konum sömu laun og körlum fyrir sömu störf en höfðu til þess aðlögunartíma til ársins 1967. Heil sex ár. Samkvæmt niðurstöðunum hér að ofan er þessi aðlögunartími ekki liðinn enn þá. Það var samt ekki eins og flanað hefði verið að þessari lagasetningu. Árið 1958 var komið á fót svokallaðri jafnlaunanefnd til að vinna að undirbúningi og því var búið að japla um þetta allt saman í þrjú ár. Hvað skyldi vera langt þangað til árið 1967 rennur upp?
– Ég er nú bara eins og hvert annað vinnuhjú, segir fólk stundum og gefur þar með til kynna að það ráði engu á sínum vinnustað. Vinnuhjú, hvað er það? Samkvæmt fyrstu skýringu Íslenskrar orðabókar er það hjú, vinnufólk, starfsfólk í ársvist (í sveit). Með öðrum orðum allir launþegar sem ekki starfa að eigin atvinnurekstri, karlar og konur. Orðið er lítið notað í daglegu tali nútímans og þá helst í niðrandi merkingu eða svipuðum dúr og hér að ofan. Hugtakið launþegi, sem leysti vinnuhjúið af hólmi, er líka fínt orð og alveg gegnsætt.
Mig langar að staldra aðeins við fyrstu skýringu orðabókarinnar, þessa með sviganum. Þá verður að fara aðeins aftur í tímann, jafnvel nokkur hundruð ár. Þá voru vinnuhjú í sveitum, karlar og konur í ársvist. Hvað skyldi þetta fólk hafa haft upp úr krafsinu á þeim tíma? Jú, vinnumenn höfðu þegar best lét hálft til eitt kúgildi í laun á ári. Eitt kúgildi var jafnt og sex ær, loðnar og lembdar. Auk þess áttu húsbændur að skaffa frítt fæði og klæði handa hjúum sínum af báðum kynjum. En vinnukonudruslan, hvað fékk hún? Svarið má finna á heimastjórn.is: „Laun vinnukvenna voru að jafnaði 1/3 af kaupi karla, í besta falli helmingur en stundum minna og matarskammtur kvenna var minni en karla. Þær gengu hins vegar oft í sömu störf og þeir, einkum ef vinnumenn fóru í verið, og voru því mun ódýrara vinnuafl en karlarnir.“
Inni á heimastjórnarvefnum rakst ég á annað sem vakti athygli mína. Árið 1720 var kveðið svo á um í Alþingissamþykkt að „ef konur ynnu karlmannsverk fengju þær karlmannslaun en eftir því mun ekki hafa verið farið þrátt fyrir að bændur teldu konur drýgra vinnuafl en karla.“ Ergo: Við erum í sömu sporum og við vorum árið 1720.
Ásdís Þórsdóttir,
meistaranemi í ritlist
[/container]
Leave a Reply