Ég mætti í vörutalningu í Eymundsson á Skólavörðustíg einn kuldalegan janúarmorgun. Starfsfólki var úthlutað talningasvæðum og ég hefði getað fengið það verkefni að telja smádót eins og lyklakippur, ísskápasegla, frumskóg af pennum og blýöntum eða þá telja óteljandi og lítt spennandi túristavörur. En svo heppilega vildi til að ég fékk að telja bækur.
Fyrsti hillurekkinn var sneisafullur af erlendum metsölureyfurum. Í hálfgerðu móki taldi ég hvern bókartitilinn á fætur öðrum, en morgundoði og kaffileysi í bland við óspennandi bókaflokk voru líklegar ástæður fyrir áhugaleysinu. Ég skellti í mig kaffibolla og með koffín í æðum hófst ég handa við næsta rekka sem var stútfullur af ferðahandbókum. Amsterdam stóð á einni kápunni og ósjálfrátt dró hugurinn mig aftur í tímann. Minningar af konum eins og útstilltar gínur í búðargluggum að bíða eftir næsta kúnna; þær fáklæddar og baðaðar rauðu ljósi, þeir með fiðring í klofinu og pening í vasanum. Ég fann hasslyktina af kaffihúsunum og sá söfnin fyrir mér sem varðveittu listamenningu liðins tíma. Og allar mjóu og hávöxnu byggingarnar og síkin sem hlutuðu borgina sundur. Amsterdam: borg lista, menningar, vændis og fíkniefna. Ég sá fyrir mér gotneska hverfið í Barcelona og hið alræmda Raval hverfi. Fleiri borgir sem ég hafði heimsótt rifjuðust upp meðan borgarheitin runnu upp af kjölum bókanna. Ég taldi aragrúa af ferðahandbókum um staði sem ég hef aldrei heimsótt en mun vonandi gera í framtíðinni. Í koffínblandinni ævintýraþrá reikaði hugurinn á milli heimsálfa. Frá Tókýó og Shanghai til New York og San Francisco og þaðan yfir á meginland Evrópu: Búdapest, Brussel, Prag og Vín. Tónlistarbækur tóku við af ferðahandbókunum. Ævisögur tónlistarmanna á borð við B.B King, Bob Dylan, Elvis, Freddie Mercury og Nina Simone. Textabrot og lagabútar skutu ósjálfrátt upp kollinum á meðan ég skannaði strikamerki bókanna og stimplaði fjöldann í tölvuskannann. Inn á milli slæddust gítar- og trommukennslubækur sem minntu mig á árin þegar ég reyndi með lítilli þolinmæði að læra á gítar og taktleysi hindraði trommuferilinn.
Sjálfshjálparbækurnar voru í næsta rekka og ekki vantaði skemmtilega bókatitla í þann flokk. The Ethical Slut og How to Stay Sane voru þar á meðal. Þessi bókaflokkur vakti með mér þrúgandi tilfinningar. Allt í einu fannst mér erfitt að vera ég sjálfur. Ég fékk sterka löngun til að andvarpa og fann fyrir andlegri þreytu. Á eftir sjálfshjálpinni voru nokkrar skákbækur og svo tóku við bækur um þunglyndi. Eiga skákiðkendur svona bágt? Fastir í skrúfstykki sjálfshjálpar og þunglyndis. Í þunglyndisbókunum rakst ég á undarlega titla á borð við Everyone Loves You When You´re Dead. Er þetta ekki hættulegur titill fyrir þunglyndissjúklinga í sjálfsvígshugleiðingum?
Eftir að hafa böðlast í gegnum svipu sjálfshjálparbóka og svartnætti þunglyndisbóka sá ég gullpottinn við enda regnbogans: Erlend klassík. Klassíkin þarf að lúta lögmálum stafrófsins og fékk Jane Austen að leiða þann flokk. Ég hef aldrei lesið bækur eftir hana en ætti kannski að byrja á þeirri síðustu í röðinni: Jane Austen for Beginners. Klassíkin var af ýmsum toga; allt frá Shakespeare yfir í Bukowski. Að sjá titla á bókum sem ég hafði lesið var eins og að ferðast aftur í tímann. Bækurnar rifjuðust upp fyrir mér og hvað gekk á í lífi mínu þegar ég las þær; við hvað ég vann, hvað var ofarlega í huga mínum, hvernig mér leið og hvernig ég las þær; í einum rykk eða á löngum tíma og var það fyrir svefninn, á ferðalagi eða sem hluti af námi. Alls konar hugrenningar fóru af stað, svipað því sem gerist við að skoða gömul myndaalbúm.
Kannski ég rækti bókablæti mitt enn frekar og láti rithöfundadrauminn rætast og gerist latte-lepjandi 101 menningarviti sem sýgur listamannalaun úr spena ríkisins. Það er svo miklu skemmtilegra en að fá sér „alvöru“ vinnu.
Janus Christiansen,
meistaranemi í ritlist
Leave a Reply