Ákall til mannkyns

[container]


Ég er dofin. Finn ekki frið. Vil ekki berjast. Er örg. Pirruð. Hætt að vera brjáluð.

Kárahnjúkaógeð kom mér úr stuði. Og hvað þá? Ferst þá heimurinn?

Er í lagi að gefast upp? Ég nenni ekki að svara bjánum. Vitlausu og óupplýstu fólki sem er latt. Svo ég ætla líka að vera löt. Verð ég þá eins og þau sem nenna ekki að hugsa heildrænt um jörðina? Ég þrái að fólk bjargi mér og jörðinni. Og okkur öllum. Getið þið ekki gert þetta smáræði fyrir mig? Þú flotta fyrirmynd mín, Vandana Shiva! Getur þú ekki sagt þeim hvernig er best að gera þetta? Gerðu það? Þú hefur reynsluna og þolinmæðina. Mín er á þrotum.

Andri Snær Magnason. Vigdís Finnbogadóttir. Ómar Ragnarsson. Birgitta Jónsdóttir. Viljið þið vera svo væn að vera enn duglegri við að útskýra fyrir  hinum hvernig á að njóta náttúrunnar án þess að eiga hana.

Og öll þið hin líka. Eruð þið til í að deila skoðun minni fyrir mig. Ég er sammála ykkur en ég þarf að hvíla mig. Hvíla reiðina. Það gekk ekki upp að mótmæla.  Lagarfljótið er dautt. Haldið áfram að láta jörðina okkar skipta máli. Fyrir mig. Og alla hina. Ég er nefnilega svo uppgefin. Langar bara að finna frið og sofa og að allt verði gott þegar ég vakna. Allir verða samstíga um að gera betri heim.  Líka fyrir þá sem skilja ekki hvað það gæti verið gott hjá okkur. Kjánana.

Bara ef þið gætuð hætt að taka. Gefið frekar smá. Hætt að græða. Gefið aðeins meira. Þetta eru hvort sem er bara hlutir sem þið þurfið ekki. Steindautt dót. Þetta er ekki flókið. Við þurfum ekki svona mikið. Við komum allsber og allslaus og förum þannig líka. Til baka. Hvurslags hálfvitagangur er þetta eiginlega? Það þarf ekki stjarneðlisfræðing til að skilja þetta. Ég er alveg að detta út. Mývatn.

Arndís Pétursdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði

[/container]


Comments

One response to “Ákall til mannkyns”

  1. Nákvæmlega. Mjög góð grein sem lýsir vel tilfinningu sem ég hef líka fundið fyrir, blanda af sektarkennd og að verða einhvers meðvitaður, í þessu tilfelli að náttúran sé á leið í heimsendi. Var annars að lesa góða grein sem heitir “The art of nothing” og má lesa að http://www.primitivism.com/nothing.htm . Ef fleiri fylgdu þeirri heimspeki sem þar er lýst væri allt í góðu, stytt og endursagt:

    Indíánum var fyrst lýst af landnemum sem afskaplega iðjulausum. Virtust bara vera að slæpast allann daginn í augum evrópubúanna sem voru vanir því að setja börn fyrir börur um leið og þau voru nógu gömul til þess.

    Mannfræðingar mældu seinna að hið svokallaða frumstæða fólk notar bara 2-3 tíma á dag til að afla sér viðuræris, húsaskjóls og annrs sem krefst þess sem við í þessu samfélagi köllum vinna.

    Þegar vesturlandabúi reynir að lifa eins og frumstæður maður hellir hann sér yfirleitt í að byggja skjól, afla eldiviðar, veiða, grafa upp rætur, búa til leirker o.s.frv. og þyrfti í raun fleiri tíma í sólarhringinn til að gera allt sem vestrænt uppeldi segir að þurfi til að lifa af.

    Hin sem kunna á þetta byrja fyrst á að líta til veðurs, þurfa þau skjól akkúrat núna? Ef svo er þá er oft betra að byrja á því að leita að skjóli. Líkur eru til að það sem hægt er að finna á tveimur tímum sé betra en hægt er að byggja á fjórum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *