Ímyndið ykkur að sjá aldrei sólina. Að fæðast, lifa (stutt) og deyja án þess að sjá nokkurn tímann himininn. Ímyndið ykkur að deyja án þess að anda að ykkur fersku lofti, nema kannski á leiðinni á aftökustað ef þið eruð heppin. Ímyndið ykkur að einhver neyði ykkur til þess að eignast börn og börnin séu síðan tekin frá ykkur við fæðingu. Ímyndið ykkur ef þið hefðuð verið tekin frá mæðrum ykkar við fæðingu og svo geld nokkurra daga gömul án deyfingar. Ímyndið ykkur að vaða eigin skít upp að hnjám á hverjum einasta degi. Að liggja í eigin skít, að sofa í eigin skít. Ímyndið ykkur að skíturinn brenni húðina á fótunum hreinlega af. Ímyndið ykkur svo að þurfa að berjast í gegnum þvögu af samföngum ykkar, á brenndu fótunum, til þess að fá að borða.
Það er ástæða fyrir því að kjúklingur og svínakjöt er ódýr matur. Grísir fá bara að sjúga spena mæðra sinna í gegnum rimla. Ef þeir eru geltir áður en þeir verða sjö daga gamlir þarf ekki að deyfa þá, heldur fá þeir bara verkjastillandi lyf. Í ályktun frá Dýralæknafélagi Íslands segir: „Það er eins og að gefa eingöngu panodil áður en farið er undir hnífinn“. Það er ekkert sem bendir til þess að nýfæddir grísir finni síður til sársauka en eldri. Þegar grísirnir eru teknir frá gyltum eru þær sæddar aftur. Og aftur og aftur. Svo er þeim slátrað þegar þær eru orðnar útjaskaðar. Þriggja ára gamlar.
Í skýrslum Matvælastofnunnar kemur fram að eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum hafi ítrekað tilkynnt misdjúp sár vegna dritbruna á fótum kjúklinga, ár eftir ár. Í skýrslunni frá 2011 gerðu dýralæknar athugasemdir við að kjúklingar í einum sláturhópi voru mjög marðir. Ástæðan var talin of mikill „þéttleiki“ í eldishúsinu. Í skýrslunni frá 2010 kemur fram að fætur og vængir brotni „aftur og aftur“ á leið til slátrunar. Í skýrslunni frá 2009 er talað um „opin beinbrot“. Árið 2010 þurfti að aflífa 32 alifuglahópa vegna salmonellusmits. Skýrslan kallar aðferðina sem beitt var „gösun“ og tekur fram að hún krefjist „reynslu og vandaðra vinnubragða“. Einnig sé hægt að snúa fuglana úr hálslið, en sú aðferð sé „mann- og tímafrek“.
Í íslenskum stórmörkuðum er eingöngu hægt að kaupa verksmiðjuframleitt svína- og kjúklingakjöt. Næst þegar þið fáið ykkur hunangslegnar grísalundir eða hvítlauksmarineraðar kjúklingabringur skuluð þið þakka þeim sem lifðu, þjáðust og dóu til þess að þið gætuð borðað ódýrari mat. Þeirra vegna hafið þið jafnvel ráð á því að skola honum niður með glasi af góðu hvítvíni.
Það hentar víst einstaklega vel með ljósu kjöti.
Hildur Knútsdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði
Leave a Reply