Ég missti náinn vin í vikunni sem leið. Útförin fór fram eins og vera ber og sama dag birtust minningargreinar sem voru allt í senn skemmtilegar, fróðlegar og tilfinningaþrungnar. Engin þeirra var eftir mig, kannski vegna þess að allt gerist svo hratt þegar einhver er svo skyndilega burtkvaddur. Fyrst er að fá fréttirnar, bregðast við þeim og hafa samband við einn og annan sem málið varðar. Jarðarförin kemur fast á hæla fréttanna og svo erfidrykkjan en allt þarf þetta að undirbúa fumlaust og örugglega, því geimið verður ekki endurtekið. Og ekki nóg með að allt gerist hratt heldur virðist tíminn spretta úr spori líka, því allt stórt og smátt sem venjulega fyllir upp í dagana og vikurnar er enn til staðar, vinnan, börnin og heimilið eða hvað það nú er sem fólk fæst við. En sumir gefa sér þó tíma til að setjast niður og skrifa um aðalpersónuna í þessari fléttu allri, fá það birt í Morgunblaðinu svo aðrir geti lesið um hinn látna. Og það er mjög fallegt.

Nú er mesta fjaðrafokið um garð gengið. Og nú er tími og nú er lag. Nú er komið að mér að tileinka vini mínum nokkur orð og votta honum og aðstandendum hans virðingu.

Við kynntumst fyrst fyrir fjórum eða fimm árum þegar hann kom eins og stormsveipur inn í líf mitt á dimmum og köldum vetri. En eftir fyrstu kynni breyttist einhvernveginn allt. Hann varð strax stór hluti af lífi okkar hjónanna og reyndar alls vinahópsins. Svo stór í sniðum, margbrotinn og flókinn, alltaf boðinn og búinn í hvers kyns samkvæmi. Fyrstu misserin var ekki haldið matarboð öðruvísi en hann væri potturinn og pannan í öllu heila gríninu frá upphafi til enda. Nærvera hans var með ólíkindum. Sterk og lífleg þótt hún reyndi stundum á þolrifin. Þegar árin liðu varð hún svo bókstaflega þrúgandi. Ef einhverjum finnst þetta síðasta ekki viðeigandi vil ég minna þann hinn sama á að aðalsmerki góðra minningargreina er einlægni og þessi verður með því sniði: Ég þoldi hann ekki. Ég vildi ekki hafa hann í lífi mínu, ég vildi ekki hafa hann í matarboðum með vinum mínum og ég vildi ekki hafa hann á heimili mínu. Satt best að segja rak ég hann að lokum út fyrir nokkrum misserum. Maðurinn minn vildi halda tryggð við hann og bauð honum nokkrum sinnum heim eftir hið dramatíska uppgjör. En að lokum gafst hann líka upp enda var fálæti mitt gagnvart gestinum algert og engum greiði gerður með slíkum heimsóknum. Þetta kann að virðast nokkuð harðbrjósta. Sérstaklega í ljósi þess hve napurleg öll hans tilvist var. Hann var olnbogabarn sem enginn vildi sjá og enginn vildi uppfóstra, á slíku flandri milli landa að hann vissi varla sjálfur hvers lenskur hann var. Örlög hans voru að vera allsstaðar vísað á dyr.

Kannski var best að svona fór. Helst hefði ég þó viljað að hann hefði verið sendur til föðurhúsanna, til skapara sinna. En úr því varð ekki. Enda voru þeir fyrstir til að afneita honum. Ég vona að Bretar og Hollendingar sem þó trúðu á hann í upphafi sitji ekki of sárir eftir. Ég mun ekki sakna þín Icesave, en engu að síður: Blessuð sé minning þín.

Hildigunnur Þráinsdóttir,
meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu


Comments

One response to “Bless”

  1. Snilld lengi vel hélt ég að væri verið að ræða um kött þar til honum var vísað út með hörku — svoleiðis fer enginn með kött — en ICESAVE hlaust sömu örlög hjá mér. Takk fyrir skemmtileg skrif 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *