„Guðrún Erna Högnadóttir, þér eigið ekkert erindi hér. Þér ættuð að fara yfir í máladeildina. Þér getið svo alltaf farið í flugfreyjuna,“ sagði stærðfræðikennarinn minn stundum. Ég fylgdi nú ekki ráðum hans því ég hélt að allar dyr hlytu að standa mér opnar ef aðeins ég væri með próf úr náttúrufræðideild. Mér fannst það mun eftirsóknarverðara heldur en ef einungis einar dyr stæðu mér opnar. Flugfreyjan sem sé. Mér fannst líka fátt forvitnilegra en að læra um náttúruna þrátt fyrir bábiljuna um að stærðfræði kæmi að gagni við þá iðju. Slök kunnátta mín í hornaföllum, veldi og logrum, markgildi, diffrun, könnun falla, og tegurreikningi hefti mig ekki og getan í eðlisfræði, efnafræði, lífrænni efnafræði, jarðfræði, líffræði og náttúrufræði var í samræmi við áhugann, ágæt sem sé.

Ég sá heldur ekki að lærdómur í máladeild kæmi mér að nokkru gagni því ég var þá þegar vel að mér í ýmsum tungumálum. Niels afi minn var frá Suður-Jótlandi og Erna amma mín var frá Slésvík-Holtsetalandi. Auðvitað var lagst í siglingar að heimsækja ættingjana og þýskan varð mér jafn töm og íslenskan. Og ekki lá hún Híramía Guðrún, ammamínaðvestan, á liði sínu heldur keypti dönsku blöðin og ég drakk í mig teiknimyndasögurnar í þeim. Svo kom sjónvarp á heimilið og ég horfði á teiknimyndir, glæpamyndir og vestra, og lærði ensku rétt í tæka tíð áður en pólitíkusar, og aðrir kanaandstæðingar, ákváðu af ímyndaðri umhyggju að loka gátt spillingarinnar. Ég er þakklát fyrir þessa tilraun til að bjarga mér frá óæskilegum menningaráhrifum. Því kannski þurfti ég á björgun að halda, ég var nautnasál. Þegar vindurinn gnauðaði úti fyrir hafði ég enga löngun til að vaða hnéháa skafla svo ég kæmist í skólann. Ég vildi miklu heldur láta ömmu mína bera í mig mjólkurkaffi og franskbrauð með smjöri og rabarbarasultu á meðan ég teygði úr mér í náttfötum á sófanum og naut spillingarinnar. Aumingja börnin sem alast upp nútildags við talsett barnaefni.

Mig langaði að verða arkitekt eða auglýsingateiknari, læknir eða lögfræðingur, hótelstjóri eða bara eitthvað allt annað en eina námsráðgjöfin sem ég fékk var sem sagt hjá þessum ágæta stærðfræðikennara mínum. Með framtíðina í huga taldi ég skynsamlegast að halda öllum dyrum opnum. Ég leysti málið með því að skipta um lögheimili svo ég kæmist í annan skóla þar sem ég, með bjartsýni og trú að leiðarljósi, ásamt ótal aukatímum greiddum úr vasa karls föður míns, náði árangri í stærðfræði. Í nýja skólanum lærði ég líkindareikning af miklum áhuga.

Ég flandraði seinna á milli ýmissa skóla, lærði loks arkitektúr og var bara ánægð með tilveruna. Það vildi mér þó til mikils happs í lífinu að ein vinkona mín var ekkert að bisa við að halda mörgum dyrum opnum í einu. Hún fór í flugfreyjuna. Í fluginu kynntist hún annarri flugfreyju. Sú flugfreyja á mann. Sá maður á bróður. Þessi bróðir húkti einn á sínu heimili vestur í bæ. Ég húkti ein á mínu heimili, austar í bænum. Flugfreyjurnar tvær blésu til matarboðs þar sem þessi bróðir og ég vorum meðal gesta. Síðan eru liðin ár og dagar og flugfreyjan sem á mann sem á bróður á nú svilkonu, mig. Ekki veit ég hvort kunnátta mín í líkindareikningi hefði getað reiknað þetta út þegar ég var á leið í matarboðið. Hins vegar get ég ekki varist þeirri hugsun að meiri líkur en minni væru á því að hefði ég farið í máladeildina og síðan í flugfreyjuna þá hefði ég farið í þetta ágætis matarboð mörgum árum fyrr.

Guðrún Erna Högnadóttir,
meistaranemi í ritlist.


Comments

One response to “Af gæfu og gervileika”

  1. Ragnar Thorisson Avatar
    Ragnar Thorisson

    Flugfreyjurnar á myndinni skarta búningum Pacific Southwest Airlines og vélin er Lockheed Tristar. Myndin er tekin ca. 1975. Örlítill fróðleiksmoli, við skemmtilega grein.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *