Ritið: 3/2012 tileinkað hugrænum fræðum


Ritið
, Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, 3. hefti 2012 er komið út. Gestaritstjórar eru þau Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Þórhallur Eyþórsson en þema  heftisins  „Hugræn fræði“. Allar greinarnar tengjast að þessu sinni þemanu eða falla undir það. Auk inngangs ritstjóra eru þær sjö að tölu, á sviði bókmenntafræði, málvísinda, sálfræði, málaralistar og heimspeki.

Árni Kristjánsson sálfræðingur, fjallar um þekkingarfræði Kants í samtímakenningum um sjónskynjun; Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, íslenskufræðingur,  stiklar á hugmyndum um líkamsmótun vitsmunanna og segir frá hugrænni bókmenntafræði; Bergsveinn Birgisson, miðaldafræðingur, leiðir lesendur inn í heim líkingafræða  og fjallar um eina vísu Egils Skalla-Grímssonar í ljósi lífssögu hans en Bjarni Sigurbjörnsson listmálari nýtir sér kenningar Merleau-Pontys um  skynjun og líkamnaða vitund til að greina ákveðnar umbreytingar í myndlist 20. aldar. Bjarni er líka listamaður heftisins; fjögur verka hans fylgja grein hans og hið fimmta prýðir forsíðu Ritsins.

Jörgen L. Pind, sálfræðingur skrifar hins vegar ítarlegan söguþátt um Edgar Rubin, menningarumhverfið sem hann spratt úr og skynheildastefnuna; málfræðingurinn Matthew Whelpton vekur í grein sinni – sem Þórhallur Eyþórsson þýðir – athygli á  svokölluðum útkomusetningum (e. resultatives) og forvitnilegum einkennum þeirra sem menn hafa lítt sinnt og Sif Ríkharðsdóttir, bókmenntafræðingur, lýsir jafnt hugmyndum miðalda sem seinni alda um tilfinningar og tekur dæmi af Niflungaljóði til að sýna hvað hafa beri í huga þegar könnuð eru skáldverk frá fyrri tímaskeiðum. Rúsínan í pylsuendanum er þýðing Jóhanns Axels  Andersen og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur á grein eftir sálfræðinginn og rithöfundinn Keith Oatley  „Að skrifaoglesa: Framtíð hugrænna fræða“ en Oatley vakti hrifningu margra fyrr í haust með fyrirlestrum sínum við Háskóla Íslands.