Kirkja og krísur – í fortíð, nútíð og framtíð

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Unnur Halldórsdóttir djákni og vígsluvottur og Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum. Myndin er fengin af heimasíðu þjóðkirkjunnar.

Þau tíðindi urðu fyrr á þessu ári að tvær konur voru kjörnar biskupar í íslensku þjóðkirkjunni með nokkurra mánaða millibili. Þetta voru þær sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup yfir Íslandi og sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum og eru þær fyrstu konurnar sem gegna biskupsembætti í hinni evangelísku lúthersku kirkju hér á landi. Auk þeirra tveggja er í íslensku þjóðkirkjunni þriðji biskupinn, sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholt. Það eru sannarlega nýmæli í kirkjustarfi, hvar sem svipast er um í heiminum, að konur séu þar í meirihluta, hvað þá í röðum biskupa. Hvernig má skýra svo mikla og skyndilega breytingu? Var tími kvenbiskupa einfaldlega runninn upp á Íslandi eða varð eitthvað sérstakt því valdandi að konur innan kirkjunnar hlutu slíkt brautargengi einmitt núna? Þessu er auðvitað vandsvarað. Þeir eru þó ófáir sem telja að hin sterka innkoma kvenna á svið stjórnunar- og valdastarfa í íslensku þjóðkirkjunni tengist þeim krísum sem hún hefur ratað í á undanförnum árum. Tími kvenna renni gjarnan upp eftir umbrotatíma, gjarnan þegar allt sé komið í þrot, og verkefni þeirra sé að gera hreint og lofta út. Þessi hugsun leiðir hugann að ljóði  eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur (1942):

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin og  metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
-kemur alltaf einhver kona
að taka að borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.
Það bregst ekki.

Hugsunina um ræstinga- og hreinsunarhlutverk kvenna, sem skynja má í ljóði Ingibjargar Haraldsdóttur hér að ofan, má tengja grein í Harvard Business Online frá  haustinu 2008[1] þar sem sú tilgáta er sett fram að þegar konur komist loks í áhrifa- og valdastöður innan stofnana og fyrirtækja þurfi þær að takast á við ákaflega áhættusöm verkefni. Staða þeirra sé líkust því að klífa glerklett og langlíklegast að þeim skriki fótur og verkefni þeirra mistakist.  Hvert er þá verkefnið nú um stundir í íslensku þjóðkirkjunni, hvað er það sem þarf að þrífa og laga? Hvaða krísur hafa skekið hana nýverið? Tvö dæmi um nýlegar krísur sem öll þjóðin þekkir má nefna. Hið fyrra er átökin um hjónaband samkynhneigðra sem leidd voru til lykta árið 2010 með breytingu á hjúskaparlögum á þá leið að tveir einstaklingar af sama kyn mega ganga í hjónaband. Hið síðara er rannsókn á vegum kirkjuþings 2010-2011 á viðbrögðum og starfsháttum vígðra þjóna og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar vegna ásakana á heldur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot, en niðurstaða rannsóknarnefndarinnar lá fyrir í júní 2011. Bæði þessi mál reyndu mjög á kirkjuna, orsökuðu óþol og reiði í garð hennar og leiddi til stórfelldra úrsagna. Krísur þessar og viðbrögðin við þeim eru þó ekkert séríslenskt fyrirbæri. Starfsmenn kirkjustofnana mismunandi kirkjudeilda víðs vegar um heiminn hafa einnig verið ásakaðir um kynferðisbrot og um að bregðast fórnarlömbum slíkra brota. Kaþólska kirkjan hefur ekki síst verið í brennidepli þessara mála og enginn vafi leikur á að trúðverðugleiki hennar hefur beðið mikinn hnekki. Svipað má segja um þá kreppu sem víða hefur orðið og tengist umræðunni um hjónaband samkynhneigðra, sú kreppa hefur einnig orsakað tortryggni og reiði. Tortryggni í garð kirkjustofnunarinnar hér á landi má vafalítið einnig tengja efnahagshruninu haustið 2008 þegar tiltrú fólks til flestra opinberra stofnana minnkaði mjög. Mælingar Þjóðarpúls  Gallup síðastliðið vor á trausti í garð íslensku þjóðkirkjunnar sýna að það er nú í sögulegu lágmarki. Einungis 28% þjóðarinnar bera mikið traust til þjóðkirkjunnar en voru fyrir átta árum 58%.

Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason
ritstjórar Ritsins:2/2012

Pistillinn er hluti af formála Ritsins:2/2012.


[1] Glerkletturinn (The Glass Cliff), sótt 25.6.2012 af  http://www.businessweek.com/managing/content/sep2008/ca2008095_095230.htm


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *