,,Góðir Íslendingar”

Hrun leiðir af sér hugmyndafræðilegt rof. Rof sem hér á Íslandi kom af stað óeirðum og átökum. Kom Jóni Gnarr, grínara mm. í borgarstjórastólinn, rúði stjórnmálamenn trausti og aðrar valdastofnanir þjóðfélagsins. Og þó að næstum fjögur ár séu liðin má enn segja að trúnaðarbrestur ríki milli ríkisins og fólksins. Fólksflutningar til annara landa aukast enn og almenns vonleysis gætir á mörgum sviðum, eins og hver einasti fjölmiðill og fréttaveita þreytist ekki á að útmála.

Sérhvert þjóðskipulag er reist á tilteknum ráðandi framleiðslutækjum, segir Louis Althusser í grein sinni Hugmyndafræði og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins. Framleiðslutækin og framleiðsluferlið nýta sér fyrirliggjandi framleiðsluöfl og framleiðslutengsl og þannig þarf hver þjóðfélagsgerð samhliða framleiðslunni að endurframleiða eigin framleiðsluskilyrði; endurframleiða bæði framleiðsluöflin og þau framleiðslutengsl sem fyrir eru. (Althusser: 1971)

Þessi einfalda og skýra lýsing sýnir okkur glögga mynd af kapítalískri uppbyggingu vestrænna þjóðfélaga. Grunnur þjóðskipulagsins byggist á framboði og eftirspurn; viðhaldi og tengslum á þeim þáttum sem skapa fjármagnsveltu og stöðugleika í samfélaginu.

Tæp fjögur ár eru liðin frá því að íslenskt samfélag horfðist í augu við það að þessu jafnvægi; kapítalískri uppbyggingu framleiðslu, endurframleiðslu sem og framleiðsluskilyrðunum var kollsteypt. Alþingi Íslendinga skipaði rannsóknardómstól til að varpa ljósi á atburði málsins. Fyrrverandi forsætisráðherra Íslendinga var ákærður frammi fyrir Landsdómi og hann sakaður um að hafa af ásetningi sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi og alvarlega vanrækslu í starfi. Hvað var það sem gerðist?

Vísindalegt sjónarhorn hinnar marxísku greiningar sem Althusser byggir hugmyndafræði sína á getur fleytt okkur áfram í því að tengja efnahagslegt skipbrot Íslands við reiði og vonleysi. Hjálpað okkur að skilja hvernig vísindin (kerfið) tengist hugmyndafræðinni (stjórnmálunum) og þeim glundroða sem enn ríkir í íslensku samfélagi.

6. október 2008 Kerfið – hugmyndafræðin

Samkvæmt greiningu Althusser sem minnst var á áðan erum þegnar þjóðfélagsins mótaðir af samfélagskerfinu. Um það er ekki deilt. Við búum við vestræna lýðræðis- og stjórnsýsluhefð og þrátt fyrir að lýðveldið Ísland hafi einungis verið stofnað fyrir rúmum sjötíu árum þá búum við við eitt elsta þingræðiskerfi heims. Partur af hinni Íslensku sjálfsmynd er stolt af sérstöðu sinni, sáttfýsi, skilningi, réttlæti og trú á skynsemi og mátt lýðræðislega kjörinna stjórnvalda.

Við lærum til verka og viðhalds þessa ágæta kerfis okkar og þjóðfélags og með og vinnuframlagi okkar og verkum eflum við atvinnulíf, menntakerfi, samgöngur, landbúnað og heilbrigðiskerfi; þeirra þátta sem sjálfsagðir þykja í vestrænum menningarríkjum. Við erum partur af alþjóðlegu samhengi og lítum á okkur sem forystuþjóð í baráttunni fyrir þjóðfrelsi og sjálfstæði einstakra þjóða. Við höfum viðhaldið sambandi ríkis og kirkju og lagt á það áherslu að ríkisvaldið geti mótað hugmyndafræðilega endurnýjun kirkjunnar (sbr. málefni samkynhneigðra) en gætt þess að kirkjan hafi ekki særandi áhrif á skoðanir annara trúarhópa og virði rétt þeirra sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni (sbr. reglur um samskipti skóla og trúfélaga). Þetta er hin tveggja þrepa formgerð samfélagsins sem Marx og Althusser fjalla um. Laga- og stjórnmálalega dómstigið (rétturinn og ríkið) mynda undirbygginguna og hugmyndafræði kerfisins er stjórnað ma. af trúarlegum, siðferðilegum, réttarfarslegum, stjórnmálafræðilegum hugmyndum. (Althusser 1971: 181)

Hvað er átt við þegar talað er um hrun? Eitthvað hrynur. Eitthvað sem búið var að byggja upp. Það sem var uppbyggt, fellur saman, brotnar sundur – legst í eyði. Hús geta hrunið til grunna. Góð og glaðvær stemming getur hrunið við óskemmtilega uppákomu. Áhorfstölur geta hrapað niður úr öllu valdi, líka fylgi stjórmálaflokka, hrunadansinn er dans þeirra sem síðan sökkva í jörð til helvítisvistar skv. þjóðsögunni. Hrun er ekki afturtekið, lagað eða bætt. Byggja verður frá grunni nýtt hús, nýja stemmingu, nýja sýn – nýja stjórnmálaflokka eins og hér er gert.

Hrunið sem varð á Íslandi getum við tímasett kl 16:00 þann 6. október 2008 þegar þáverandi forsætisráðherra og æðsti maður íslenska stjórnkerfisins Geir H. Haarde flutti útvarpsávarp vegna „sérstakra aðstæðna á fjármálamaraði” sem hófst á þessum orðum:

Góðir landsmenn.

Ríkisstjórn Íslands, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa síðustu daga og vikur unnið baki brotnu að lausn á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem steðja að íslensku bönkunum í góðu samstarfi við þá sjálfa. Að þeirri vinnu hafa ýmsir aðilar komið, til að mynda lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins.

Forsætisráðherran ávarpaði þjóðina og nefnir helstu grundvallar endurframleiðsluaðila og framleiðslutengingar sem byggja samfélagsgrunninn; Seðlabankann, ríkisvaldið, opinberar eftirlitstofnanir og framtíðarsjóð launamanna og samtök vinnuaflsins, markaðarins. Tiltekur að þessir ábyrgu aðilar hafi gert og séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur. Til að forðast hið óumflýjanlega. Til að bjarga því sem bjargað varð. Til að minnka skaðann – sem skeði. Bjarga kerfinu sem brást. Hrinda hruninu hrynjandi. Það tókst ekki.

Aðstæður til björgunar, segir Geir í ávarpi sínu „varða stöðu íslensku þjóðarinnar í heild sinni til langrar framtíðar”. Í hans augum var ljóst það sem meginþorri almennings komst einungis síðar að raunum um var að um var að ræða algert efnahagslegt hrun Íslands – tæknilegt gjaldþrot – katastrófa sem snerti hvert mannsbarn á þessari friðsömu sögueyju, svo vitnað sé í sjálfsímynd okkar.

Góðir Íslendingar.

Mér er ljóst að þetta ástand er mörgum mikið áfall sem veldur okkur öllum bæði ótta og angist. Undir þeim kringumstæðum er afar brýnt að stjórnvöld, fyrirtæki, félagasamtök, foreldrar og aðrir sem geta látið gott af sér leiða, leiti allra leiða til að daglegt líf fari ekki úr skorðum.

Heldur Geir áfram í ræðunni. Þegar þjóðfélagsbyggingin er hrunin, þegar löggjafa- og stjórnvaldinu hefur ekki tekist að afstýra efnahagslegu skipbroti reiðir á að kalla til krafta yfirbyggingarinnar. Kalla samfélagslegar stofnanir til ábyrgðar og félagslegrar meðvitundar – til þess að koma í veg fyrir upplausnarástand og treysta samfélagið eins og Geir segir sjálfur:

Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að íslenska þjóðin stæði saman og sýndi æðruleysi andspænis erfiðleikum – þá er sú stund runnin upp. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem mestu máli skiptir í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú geisar. Ég hvet fjölskyldur til að ræða saman og láta ekki örvæntingu ná yfirhöndinni þótt útlitið sé svart hjá mörgum. Við þurfum að útskýra fyrir börnunum okkar að heimurinn sé ekki á heljarþröm og við þurfum sjálf, hvert og eitt, að finna kjark innra með okkur til að horfa fram á veginn.

Þetta var þann 6. október árið 2008.

Trúin – traustið – tilgangurinn. Einstaklingurinn og raunveruleikinn.

Virknivísar eða ákvörðunarvísar eru skv. hinni Marxísku hefð áhrifa- og eðlissamhengið sem hin efnahagslega „bygging” þrífst á. Virknivísarnir eru það úrskurðarvald sem efnahagsgrunnurinn hefur (Althusser 1971: 181-182). Hrun byggingarinnar ógnar valdajafnvægi samfélagsins. Vægi virknivísanna verður óljóst og stefnir almennum stöðugleika í hættu eins og sást með beinum hætti í þeim óeirðum og látum sem urðu á götum Reykjavíkur dagana og vikurnar „eftir hrun”.

Það er ekki undarlegt að í kjölfar hrunsins hafi fylgt bylting, í okkar tilviki hin svokallaða Búsáhaldabylting. Þegar byggt er nýtt þjóðfélag á grunni rústa er það kallað bylting. Um það hefur öreiga allra landa dreymt um – að byggja réttlátt þjóðfélag, þó að framtíð sé falin og grípa kúgaður geirinn í hönd. En eins og Althusser bendir á, étur byltingin börnin sín jafnt hér sem annars staðar. Hún gerði það í Frakklandi hún gerði það í Rússlandi og gerði það einnig á Íslandi í kjölfar endurreisnar stjórnvaldskerfisins sem heldur áfram að vera til staðar án þess að svigna eða taka breytingum vegna þess að þeir sem eru handhafar ríkisins (samtök fólksins, hverju nafni sem þau nefnast) nota stjórntæki ríkisins til þess ná fram stéttarmarkmiðum sínum og þannig vinnur kapítalíska kerfið sem slíkt alltaf sigur að lokum, vegna veruleika hins hugmyndafræðilega stjórntækis ríkisins (HSR) (Althusser 1971: 187-188).

Athyglisvert er í okkar íslenska samhengi að skoða hversu fljótt tókst í raun og veru að koma að nýju á „röð og reglu”, nýrri ríkisstjórn, nýjum seðlabankastjóra os.frv. Það má auðvitað þakka eða kenna um, smæð samfélagsins. En það má einnig líta á málið frá öðrum sjónarhóli. Flestar þær stofnanir sem fara með eða stjórna HSR falla undir svið einkareksturs ss. kirkjan, stjórmálaflokkar, fjölmiðlar, menningarstarfsemi, fjölskyldur osfrv. Þessar stofnanir beita ekki ofbeldi til þess að hafa áhrif líkt og ríkisvaldið eins og Geir benti einnig á í ávarpi sínu:

Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki. Til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt.

Það tókst fljótt að hafa hemil á óeirðarseggjum með því að höfða til skynsemi almennings og friðsamlegra mótmæla aðgerða. En hvað gerðist svo?

Engin trú – ekkert traust – enginn tilgangur. Það sem brast.

Tilgangur þessara skrifa var að velta fyrir sér áhugaleysi og pótítískum trúnaðarbresti sem ríkir í íslensku samfélagi í dag. Hversvegna stöndum við ekki einhuga að baki nýjum ráðamönnum? Nýjum ráðamönnum? Hversvegna sitja enn nánast sömu ráðamennirnir við stjórnvölinn nú og „fyrir hrun”? Hefur eitthvað breyst? Hefur einhver axlað ábyrgð? Er öllum alveg sama? Heldur meginþorri almennings áfram að kjósa til ábyrgðar þá stjórnmálamenn og þá flokka sem sigldu þjóðarskútunni í strand? Hvað með nýju flokkana? Nýju flokkana? Sama fólkið en ný föt – nýju fötin keisarans.

Þjóðin var í losti. Þjóðin er enn í losti. En hvað var það sem gerðist? Gerðist í raun og veru. Við getum ekki horft í spegil án þess að átta okkur á því. Staðreyndin blasir við okkur, jafn sönn og óþægileg sem mest getur orðið. Þetta var okkur sjálfum að kenna. HSR, hið einkarekna stjórntæki dansaði hrunadansinn. Það var ekki ríkisvaldið, framleiðslutækin eða fiskurinn í sjónum sem kom okkur á kné. Það var hlutfallsvandinn eins og sérstakur ríkissaksóknari benti á fyrir landsdómi þann 16. mars sl. Þjónustufyrirtæki með undirliggjandi eignir þe. bankarnir voru orðnir of stórir í samanburði við íslenska framleiðsluhagkerfið. Að mati sérstaks saksóknara eru slík þjónustufyrirtæki ekki sambærileg við framleiðslufyrirtæki (S.J.F. Landsdómur 2012). Einkafyrirtæki, einkaframtak, einkaneysla, einstaklingsfrelsi, markaðsaðilar, það voru þeir, þau, þessir allir, sem lifðu um efni fram.

Þannig stendur stjórntæki ríkisins, sem fer með kúgunarvaldið eftir laskað en í raun sá eini aðili sem er með „hreinan skjöld”. Hrunið var ekki Ríkinu að kenna! Geir Haarde las uppúr kafla um Stefnumótahóp um stöðugleika í fjármálakerfinu og ítrekaði mikilvægi þessarar málsgreinar sem afstöðu íslenska ríkisins: „viðbrögð við slíkum vanda áfalls í fjármálafyrirtæki eða á markaði eru háðar aðstæðum hverju sinni en grundvallaratriði er að stjórnendur fjármálafyrirtækja og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir”. (G.H.H. Landsdómur 2012). Ríkisvaldinu er ekki fært að skipta sér af annara manna eignum með lagasetningum á Alþingi eða íþyngjandi reglugerðum vegna hinnar svokölluðu lögmætisreglu , „jafnvel þó að hægt sé að færa rök fyrir almannahagsmunum” sagði Geir einnig fyrir landsdómi. sem svar við fyrirspurn saksóknara um hvort ekki hefði verið ráð að grípa til einhverra ráða til að stöðva útþenslu bankanna.

Hugmyndafræði HSR er þannig æðri hinu kúgandi stjórntæki ríkisins, í okkar vetræna lýðræðisstjórnkerfi. Nema þegar þegnarnir brjóta refsiramma laganna. Í vel ígrunduðu máli fer Althusser yfir skilgreiningu sína á eðli hugmyndafræðinnar og kemst að þeirri niðurstöðu að hún eigi sér enga sögu og virki þannig að hún myndi „alsögulegan, veruleika”, að hugmyndafræðin séu hin ímynduðu tengsl einstaklingsins við raunveruleikann og leggur sama skilning í hina almennu hugmyndafræði og Fraud gerði í kenningu sinni um dulvitundina almennt:

„Hugmyndafræðin er mynd af ímynduðum tengslum einstaklinga við raunveruleg tilvistarskilyrði þeirra” (Althusser 1971: 204-206).

Það sem raunverulega hrynur í Hruninu er sú hugmyndafræði sem HSR gekk útá á síðasta áratug tuttugustu aldar og fram til 2008. Þessi hugmyndafræði sem við getum kallað óteljandi nöfnum ss. einstaklingsfrelsi, neyslumenningu, útrásargræðgi, heilbrigða skynsemi eða hvað eina annað sem við tengjum við strauma og stefnur síðastliðinna ára. Þessi hugmyndafræði bíður skipbrot og í einu vetvangi myndast rof í þau tengsl sem einstaklingurinn hafði gert sér, rof í tengslin við raunveruleikann. Okkur er tilkynnt (formlega) að raunveruleiki okkar sé allt annar en við héldum eins og forsætisráðherra sá sig knúinn til að tilkynna þjóðinni í útvarpsávarpi sínu 6. október 2008.

Á hinum pólitíska vettvangi, jafnt sem annars staðar, er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður. Miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð.

Leitin að sannleikanum. Merkingarinnar leitað innan kerfisins.

Raunveruleikinn skellur á okkur af alvöru og þunga. Húsnæðislánin hækka upp úr öllu valdi. Margir missa atvinnu. Fyrirtæki verða gjaldþrota. Allt félagslegt kerfi er skorið í sparnaðarskyni. Eignir verða að engu, yfir nótt. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn yfirtekur fjármálastjórn lýðveldisins. Skattar og áögur hækka umtalsvert. Góðir landsmenn, sem Geir ávarpaði eru vaktir til vitundar og við þeim öllum blasir allt annar veruleiki en sá sem þeir héldu að væri sinn.

Orsökin er eins og fyrr segir ekki Ríkinu að kenna heldur hugsunarhætti og hugmyndarfræði samfélagsgerðarinnar. Þeim ímyndunarbrengluðu tenglslum sem Athusser útskýrir á sinn marxíska hátt: “sérhver hugmyndafræði sýnir, með nauðsynlegri ímyndunarbrenglun sinni, ekki framleiðslutengslin sjálf eins og þau eru (og önnur tengsl sem leiða af þeim), heldur umfram allt (ímynduð) tengsl einstaklinga við framleiðslutengslin og tengslin sem af þeim leiða” (Althusser 1971: 208). Þetta er frá sjónarhóli sérstaks saksóknara Alþingis ma. partur af þeim „hlutfallsvanda” sem áður var minnst á. Althusser bendir á að ef spurt sé; hver eigi sök á ímyndunarbrengluninni beinist sjónir óhjákvæmilega að einhverjum litlum hópi einstaklinga sem væru upphafsmenn hinnar miklu hugmyndafræðilegu blekkingar sem og firringu hins raunverulega heims.

Sá sem er svikinn leitar réttar síns og spyr spurningarinnar hverjum þetta sé að kenna. Raungerfing hugmyndafræðinnar sem Althusser talar um varð á öllum sviðum þjóðfélagsins – í kirkjunni, í viðskiptum, í lagaumhverfi og stjórnmálalegu umhverfi og einnig í menningu og listum. Hverjum er það að kenna? Geir hafði engin svör og bað Guð að blessa landið og berskjaldaða þegna þess:

Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur.

Guð blessi Ísland.

Glæpur og refsing. Hvernig verður ný merking/tilgangur til innan kerfisins?

Það skyldi í raun og veru engan undra að ekki ríki trúnaður, virðing og traust almennings á stjórnmálamönnum og stjórnvöldum almennt á Íslandi í dag. Ríkið stendur í raun og veru uppi sem sigurvegarinn og sá sem hefur hæstu spilin á hendi sér í byggingu nýrrar hugmyndafræði, mótun nýrra ímyndartengsla einstaklingsins og raunveruleikans. Ríkið ætlar sér að taka í gildi nýja stjórnarskrá. Ríkið ætlar að setja reglur sem koma í veg fyrir „hlutfallsvandann” ofvöxt einkageirans yfir höfuð ríkisins. Ríkið sem nú ræður yfir öllum framleiðslutækjunum og meginþorra íslenskra fyrirtækja. Ríkið ætlar meira segja í krafti breyttra aðstæðna að taka til baka þær aflaheimildir sem afhentar voru útgerðarfyrirtækjum í einkaeigu með nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun. Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar segir um þá ráðstöfun:

„Við verðum að leita aftur til einokunarverslunar Dana til að finna þann hugsunarhátt sem nú ríkir til okkar á landsbyggðinni. Okkur er með þessu gert að standa undir úrsérgengnu gljálífi sem greitt er af opinberu fé. Þetta minnir óneitanlega á að arður danska ríkisins af einokunarverluninni var notaður til að greiða kostnaðinn af grímuballi danakonungs við hirðina í Köben. Ég bara trúi því ekki að þetta verði að veruleika,“ (eyjafréttir.is 27.03.12)

Glæpurinn svíður enn og setur mark sitt á alla pólitíska umræðu. En í veikri von um nýjan trúverðugleika og aukið traust almennings á stjórnvaldstækinu, lögsótti Alþingi fyrrum forsætisráðherra Íslands Geir Haarde fyrir sérstökum Landsdómi. Þar eru þráspurt um hina sérstöku virknivísa og ákvörðunarvísa sem tengja samfélagsgrunninn, Ríkið og hlutverk þess sem handhafa kúgunarvaldsins annarsvegar og yfirbyggingarinnar hinsvegar þe. hinu hugmyndafræðilega stjórntæki ríkisins.

Að lokum.

Í raun ríkir hugmyndafræðilegt tómarúm á Íslandi í dag. Í anda Althusser getum við sagt að í kjölfar hrunsins sem snerti raunverulega efnislega tilveru hvers einstaklings á Íslandi hafi orðið rof í hugmyndafræðina – þar sem raunveruleikinn reyndist allt annar en okkur hafði verið talið trú um af hugmyndafræði HSR. Einstaklingurinn, sjálfsveran með litlu essi í skilningi Althussers, ávarpaður sem hinn Góði landsmaður í október 2008, upplifði það að Sjálfsveran altæka, með stóru essi, hvort sem er í stjórmálalegu, siðferðilegu, efnahagslegu, menningarlegu tilliti hefði brugðist skyldu sinni. Gagnvirknin milli einsaklingsins annarsvegar og hinnar ávörpuðu sjálfsveru, mótun hennar og daglegt líf er enn í uppnámi. Stjórnvöld reyndust gagnlaus í hlutverki sínu að standa vörð um almannaheill og sigldu þjóðarskútunni í strand eins og Geir lýsti í ávarpi sínu. Kirkjan reyndist einnig gagnslaus í því að byggja upp siðferði sjálfsverunnar sem dansaði hrunadansinn uns yfir lauk. Leiðtogar kirkjunnar, fulltrúar Sjálfsverunnar, hins miðjaða sannleika, reyndust jafnvel vera sjálfir sekir um skelfilega glæpi gegn ómálga einstaklingum – börnum; ómótuðum sjálfsverum sem ekki gátu borið hönd fyrir höfuð sér, bæði hin lúterska og kaþólska kirkjudeild. Áður hafði einnig komið í ljós að í skjóli Ríkisins höfðu samskonar glæpir verið framdir afskektum „uppeldisstofnunum” Ríkisins og betrunarheimilum ss. Í Breiðuvík og í Heyrnleysingjaskólanum þar sem börnin sökum fátæktar, fjarlægðar eða fötlunar gátu enga björg sér veitt.

Það er auðvitað í gangi stórkostleg leit að nýjum gildum innan kerfisins. Kannski ekki endilega nýjum er reynt er eftir besta máta að fægja þau algildu Ríkis- kirkju-, menntunar-, menningar- og manngildi sem ávarpað gætu sjálfsveruna íslensku og komið á miðjuðum stöðugleika og sæmillegri sátt í þjóðfélaginu. Komandi alþingiskosningar eru gott dæmi þar sem tekist verður á um virkni og ákvörðunarvísana og mar lagt á þá stefnu sem Samfylking og Vinstri Grænir hafa fylgt í eflingu Ríkisins með þjóðnýtingu, auðlinda, ríkisstyrktri framleiðslu, stórauknum skáttaálögum og erlendri forsjá í fjármálum. Það verður einnig fróðlegt í þessu samhengi að fylgjast með orðræðunni sem mun skapars í kringum aðildarviðræðurna við ESB. Þar togast á tvenns konar hugmyndafræði; um sjálfstæði þjóðarinnar, frelsi til ákvörðunartöku og forræði auðlindanna annars vegar og hinsvegar hugmyndin um nútíma stjórnarhætti samvinnu og sameiginlega stjórn ríkja sem eiga sameiginlegra heildarhagsmuna að gæta öllum sjálfsverum ríkjanna til aukinna hagsbóta. Fyrst og fremst er eins og Athusser bendir á er veruleikinn í þessu gangvirki öllu í reynd sá þegar allt kemur til alls: „ekki annað en endurframleiðsla á framleiðslutengslunum og öðrum tengslum sem af þeim leiða” (Althusser 1971: 226).

P.S.

Hvernig verður „ný” hugmyndafræði til? í eftirmála sínum reifar Althusser augljósa einföldun þess að hugmyndafræði HSR spretti af baráttu stéttanna. En það má einnig benda á að ný hugmyndafræði mun ekki „raungerast” eins og hann talar um fyrr en stéttir HSR hafa fundið sér nýja rödd, nýja miðju nýjan grundvöll til að vinna út frá.

Dæmi um slíkt er sú ímyndunarvinna sem á sér stað allstaðar í þjóðfélaginu og leit stofnana HSR að nýjum grundvelli. að treysta á forræði kvenna er til dæmis ein af þeim leiðum sem virðast hafa mikla almenna og virknisvísun. Það gæti allt eins farið svo að innan nokkurra mánaða verði Forsætisráðherra, allir handhafar forsetavaldsins, forsetinn sjálfur og biskupinn með hákólarektor sér við hlið, konur. Alþingi mun einnig á komandi mánuðum samþykkja lög um lögbundið hlutfall kvenna í stjórnum og ráðum fyrirtækja. Ég tók eftir því aðalfundur Samtaka atvinnulífsins (SA) ber yfirskriftina „Uppfærum Ísland” það er átt við nýja sýn á framleiðsluhætti, atvinnuvegi og framtíð Íslands. Þar eru formælendurnir íslensku: þrjár konur og karlmaður úr menningargeiranum. SA hefur einnig gefið út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja þar sem gagnsæi í stjórnun og ákvarðanatöku er undirstrikað, sem og valdheimildir æðstu stjórnenda séu ræddar, að fjölskyldutengsl og innvensl séu í sífelldri skoðun, að áhættuþættir séu skilgreindir af stjórnum fyrirtækja. (Fréttir: sa.is ).

Ingibjörg Sólrún sem var forsætisráðherra og utanríkisráðherra í stjórn Geirs Haarde er farin til Afganistan að vinna fyrir kvennasamtök Sameinuðu-þjóðanna. Henni var ekki stefnt fyrir landsdóm af samstarfsmönnum sínum á Alþingi. Þannig vinnur hún í kristilegum hugmyndafræðilegum anda; yfirbót, í sjálfskipaðri útlegð sinni á „versta stað jarðar”.

Framtíðar-ákallið byggir upp nýja sýn og betri heim í framtíðinni, ögrar öllu því sem við göngum að sem gefnu, þekkingarlega séð. Við verðum að læra að hlusta á grasrótina, raddirnar sem hingað til hefur ekki verið hlustað á. Vesturlönd verða í öll að hlusta á þriðja og fjórða heiminn og Kína og virkilega að einbeita sér að því. Í því felst framtíð okkar hér á jörð; að svara því kalli að nauðsynlegt sé að „endurhanna” stjórnkerfið svo neysluhyggja, efnishyggja og valdagræðgi einstaklinga verði ekki almannahagsmunum yfirsterkari. Að dreifð lýðræðisábyrgð vinni gegn menningarlegum árekstrum, kynáttahatri og fordómum almennt í samfélaginu. Þannig skulum við ávarpa einstaklingana sem sjálfsábyrgar og meðvitaðar sjálfsverur um umhverfi sitt menningu og lífsstíl.

Á páskum 2012.

Ásdís Þórhallsdóttir,
leikstjóri og meistaranemi í þýðingafræði

 

Heimildir:

Louis Althusser. (1971). Hugmyndafræði og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins. Af marxisma. Ritstj. Magnús Þór snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson. Þýðandi Egill Arnarsson. Nýhil, Reykjavík 2009.

Alþingi. Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr 19 12 febrúar 1940. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.althingi.is/altext/stjt/1998.082.html

BSRB.IS. Lögmætisreglan. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.bsrb.is/vinnurettur/upphaf-starfs/val-a-umsaekjendum/logmaetisreglan/

Eyjafréttir. Frumvarp sjávarútvegsráðherra er til marks um nýlendu hugsun gagnvart landsbyggðinni. Skóðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.eyjafrettir.is/frettir/2012/03/27/frumvarp_sjavarutvegsradherra_er_til_marks_um_nylendu_hugsun_gagnvart_landsbyggdinni

Forsætisráðuneytið. Ávarp forsætisráðherra vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.forsaetisraduneyti.is/radherra/raedurGHH/nr/3034

Landsdómur. Geir Hilmar Haarde, fv. forsætisráðherra. Skýrslutaka þriðjudaginn 5. mars kl 09:00. Hljóðupptaka á slóðinni: http://www.landsdómur.is/adalmedferd/nr/9

Netútgáfan. Dansinn í Hruna. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.snerpa.is/net/thjod/hruna.htm

Samtök atvinnulífsins. Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5465/

Samtök atvinnulífsins Opin dagskrá aðalfundar SA 18. apríl 2012 – skráning í fullum gangi. Skoðað 07.04.12 á slóðinni: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5487/

Youtube. Gayatri Spivak: The Trajectory of the Subaltern in My Work. http://www.youtube.com/watch?v=2ZHH4ALRFHw

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *