Í apríl mánuði fór fram stærsta yfirlitssýning á íslenskum kvikmyndum frá upphafi þar sem á níu dögum voru sýndar nítján kvikmyndir sem spanna tímabilið 1948-2011. Staðsetningin var ekki síður markverð: helsta menningarmiðstöð New York búa Lincoln Center. Þar hafa löngum verið á dagskrá sýningarraðir á verkum merkra leikstjóra og kvikmyndaþjóða og því er varla ofsögum sagt að yfirlitssýningin hafi verið ákveðin staðfesting á stöðu og sýnileika íslenskra kvikmynda á alþjóðavettvangi.
Í stuttu greinarkorni sem ég setti saman fyrir dagskrárbækling hátíðarinnar velti ég því einmitt fyrir mér hvort að íslensk kvikmyndagerð hefði að einhverju leyti tekið við kefli bókmenntanna sem helsti menningarsendiherra þjóðarinnar. Ég varð því heldur betur hissa þegar ég mætti í forsal kvikmyndahússins en þar blöstu við stórar myndir af íslenskum rithöfundum— ekki Snorra og Halldóri Kiljan heldur samtímaskáldum. Bandarískur kvikmyndarýnir spurði mig forviða hvaða fólk þetta eiginlega væri; af hverju væru ekki myndir þarna af Baltasari og Friðriki Þór. Ég gat litlu svarað en hugsaði þó með mér að kannski hefði ég verið full fljótur á mér að rétta keflið yfir til kvikmyndanna.
Valið á kvikmyndunum var sömuleiðis eftirtektarvert, en dagskrárstjórinn Richard Peña virðist hafa forðast að velja þekktustu íslensku kvikmyndirnar eins og Börn náttúrunnar og 101 Reykjavík. Enn fremur valdi hann myndir sem gerðar voru fyrir 1980 og ég efast um að hafi verið sýndar vestra áður: Milli fjalls og fjöru, Síðasti bærinn í dalnum og 79 af stöðinni. Sjálfur sagðist hann hafa verið mjög hissa þegar hann frétti af tilvist þessara kvikmynda því hann hefði einfaldlega „keypt“ þá söguskoðun að íslensk kvikmyndagerð hefði hafist með tilkomu kvikmyndasjóðs árið 1978. Er það ágæt áminning til áhugafólks um íslenskar kvikmyndir.
Peña var reyndar sérstaklega áhugasamur um Síðasta bæinn í dalnum sem hann taldi vera einhvers konar „folk cinema“ sem mætti kannski þýða sem átthagabíó. Og það var óneitanlega sérstök tilfinnig að horfa á þessa kvikmynd Óskars Gíslasonar sem hann gerði árið 1949 með íslensk börn í huga í einhverju helsta menningarsetri Bandaríkjanna. Það hefur eflaust aldrei hvarflað að Óskari að myndin hans yrði sýnd erlendis enda var hún gerð á tímum þegar þjóðarbíó áttu sér sjálfstæða tilvist og tengdust ekki hvert öðru líkt og tilfellið er í dag. Nú á dögum getur aftur á móti hver einasti íslenski kvikmyndagerðarmaður átt von á því að mynd hans verði sýnd víða um heim—ef hún er ekki beinlínis gerð með það að leiðarljósi. Sýningarröðin í Lincoln Center er enn ein staðfestingin á því hvernig íslensk kvikmyndagerð er bundin alþjóðlegu samhengi heimsbíósins—meira að segja Síðasti bærinn í dalnum hefur nú sogast inn í hringiðu þess.
Björn Norðfjörð,
lektor í kvikmyndafræði
Pistilhöfundur tók þótt í pallborðsumræðum um íslenska kvikmyndagerð á hátíðinni ásamt dagskárstjóranum Richard Peña og leikstjórunum Ásdísi Thoroddsen, Baltasari Kormáki og Hafsteini Gunnari Sigurðssyni.
Leave a Reply