Málþing um bókmenntir frá Rómönsku Ameríku var nýverið haldið á vegum spænskunnar við Háskóla Íslands og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Þingið bar titilinn: Töfraraunsæið í Rómönsku Ameríku: Klassík eða klisja? Erindin voru hljóðrituð og nú hefur köflum úr þeim verið útvarpað í þættinum Í heyranda hljóði á Rás 1. Fyrstu þrjú erindin voru flutt í þættinum 27. mars sl. og seinni þrjú í þættinum 3. apríl sl.
Þau sem fluttu erindi voru:
- Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt H.Í.: „Frá Macondo til McOndo. Sögulegt yfirlit”
- Sigrún Á . Eiríksdóttir, þýðandi: „Skáldskapur og raunveruleiki í verkum Vargas Llosa”
- Einar Már Guðmundsson, rithöfundur: „Vesalings veruleikinn!”
- Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor H.Í.: „Löskuð ímynd karlhetjunnar og óbeislað hugarflug gaf konum byr í seglin”
- Eiríkur Guðmudsson, útvarpsmaður og rithöfundur: „Roberto Bolaño og kapphlaupið við dauðann”
- Hermann Stefánsson, rithöfundur og þýðandi: „Castellanos Moya: Skáldsagan Fásinna og sóknin gegn töfraraunsæinu”
Bókmenntaverk frá Rómönsku Ameríku vöktu mikla athygli um skeið hér á landi, einkum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Bókmenntir þaðan höfðu geysileg áhrif víða um heim, að Íslandi meðtöldu. Þessi miklu áhrif urðu til þess að menn gerðu sér einfaldari og einhæfari hugmynd um bókmenntir þessa heimshluta en raun ber vitni. Þannig hafa til dæmis mörg bókmenntaverk verið flokkuð undir töfraraunsæi sem eiga ekkert skylt við það. Þetta málþing var haldið til að vekja máls á fjölbreytni bókmennta frá löndum Rómönsku Ameríku og hvetja til umræðna um þær. Málþingið var mjög vel sótt og góður rómur gerður að erindum fyrirlesara.
Útdrættir úr erindum málþingsins hafa verið birtir á vefnum og einnig má skoða myndir frá málþinginu hér á vefnum.
Leave a Reply