Starf þýðandans í nútímanum

Um höfundinn

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir er þýðandi og umhverfisfræðingur. Hún er í doktorsnámi í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Sjá nánar

Hugmynd fólks um hinn dæmigerða þýðanda er smámunasamur og vandvirkur maður með gleraugu sem situr í rykugu skrifstofuherbergi  við tölvu eða jafnvel ritvél og vélritar upp úr gulnuðum plöggum.  Það kemur því flestum á óvart þegar ég segi að nútímaþýðandinn sé kona sem situr við tölvuskjá með háþróaðan hugbúnað sér til aðstoðar, og þýðir heimasíður, og forrit fyrir Microsoft, Google og Hewlett Packard. Starf þýðandans í nútímanum er nefnilega alþjóðlegt í eðli sínu. Sem þýðandi á hinum alþjóðlega markaði sit ég við tölvuna mína á Selfossi og tek á móti verkefnum frá Honolulu, Lundúnum, New York eða Suður-Kóreu og er í samskiptum við fólk af ýmsum þjóðernum, trúarbrögðum, og frá ólíkum menningarsvæðum. Mér finnst stundum eins og tölvan mín sé eins og risastór járnbrautarstöð þar sem ein þýðing er á leiðinni til Kína meðan önnur þýðing fer til lagadeildarinnar í Lundúnum.  Heimurinn sefur aldrei, og verkefni berast til mín á öllum stundum sólarhringsins. Sumir þýðendur hafa tilhneigingu til að snúa sólarhringnum við, vinna á næturnar og sofa á daginn, en ég er morgunmanneskja og tek því við verkefnum seinnipartinn en reyni að skila þeim á morgnana eða í hádeginu.

Mikilvægi þýðandans í nútímanum er óumdeilanlegt. Í veröld alþjóðavæðingar og sívaxandi samskipta þjóða á milli erum við miðlendur upplýsinga sem streyma endalaust fram og aftur um jarðarkringluna. Við erum ómissandi hlekkir í upplýsingakeðjunni.

En hvernig verður maður þýðandi? Það má í raun og veru hver sem er reyna að þýða bæði innanlands og á hinum alþjóðlega markaði (nema um löggilt skjöl sé að ræða en til þess að þýða þau þarf löggilta skjalaþýðendur), en ég verð að vara ykkur við. Þeir sem ekki eru nógu góðir detta fljótt út af markaðnum. Til að halda sér inni í hringiðunni þarf þýðandinn að vera bæði fljótur að bregðast við og mjög fær á sínu sviði.  Ég mæli sérstaklega  með því að allir þeir sem vilja starfa við þýðingar fari og stundi nám í þýðingafræði. Bæði eykur námið í þýðingafræðinni skilning og ánægju í starfi, auk þess sem námið er algjörlega nauðsynlegur grunnur til þess að þýðandinn nái flugi á starfsferlinum.  Að öðrum kosti er hætt við því að það fari fyrir hinum nýja þýðanda eins og fór fyrir Íkarusi, – Hann nálgast sól velgengninnar en brennir sig og hrapar niður til sjávar.  Enda er það sagt að þýðendur séu bestir eftir fertugt. Það tekur bæði svo langan tíma að öðlast færni í tungumálum, og síðan þarf þýðandinn að ná vissum þroska til að ná að höndla hin ólíkustu verkefni.  Námið í þýðingafræðinni reyndist mér samt ómetanlegt, og ég mæli sterklega með því fyrir alla sem vilja leggja stund á þýðingar og ná fullum þroska. Mér finnst reyndar öll hugvísindi vel til þess fallin að þroska einstaklinginn, og mæli með námi í hugvísindum yfirleitt.

En semsagt, starf þýðandans í nútímanum er í senn alþjóðlegt, fjölbreytt og spennandi.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *