Grimmt, óhugnanlegt og áþreifanlegt


Hálendið
eftir Steinar Braga fjallar um tvö pör, Hrafn og Vigdísi, Egil og Önnu, sem eru í jeppaferð um hálendið. Þau eru á söndunum norðan við Vatnajökul þegar þau villast af leið í þoku og keyra á hús sem stendur eitt í miðri auðninni. Ferðalangarnir fá gistingu hjá sérkennilegu og leyndardómsfullu fólki, Ásu og Kjartani, sem hafa greinilega sitthvað að fela. Húsið er símasambandslaust og einangrað, þangað koma vistir tvisvar á ári en annars er þar ekkert samband við umheiminn. Á næturnar rammlæsa karl og kerling húsinu og virðast óttast eitthvað úti í nóttinni. Allar tilraunir fjórmenninganna til að komast aftur til byggða misheppnast; fyrst bilar gamall Willy’s jeppi sem karl og kerling lána þeim og endurteknar tilraunir til að ganga í Öskju bera engann árangur. Fjórmenningarnir þurfa alltaf að hverfa aftur til hússins, karls og kerlingar, og lenda sífellt í dularfyllri og óhugnanlegri ævintýrum eftir því sem tilraunirnar til að komast á brott verða fleiri. Í þessum ferðum koma fjórmenningarnir einnig að risastórri stíflu og yfirgefnu þorpi, þar sem greinilega er ekki allt með felldu heldur. Þessi staður verður svo miðpunktur atburða í seinni hluta sögunnar.

Sagan er sögð frá sjónarhorni ferðalanganna fjögurra, en skipt er um sjónarhorn milli persóna á tveggja til þriggja kafla fresti. Smám saman verða því allar persónurnar heilsteyptari og lesendur öðlast innsýn í líf þeirra og persónugerð vegna upplýsinga sem koma fram um sögu þeirra og bakgrunn. Átakanlegir atburðir úr fortíðinni rifjast upp, s.s. atburðir sem tengjast kynferðislegu ofbeldi og hörmulegu dauðaslysi. Fljótlega verður líka augljóst að vinátta fjórmenninganna er brothætt, og því stafar ógnin sem að þeim steðjar ekki einungis af utanaðkomandi aðstæðum, heldur líka af átökum milli einstakra persóna innan hópsins.

Spennan magnast þegar líður á söguna og erfitt er að slíta sig frá henni. Lesandinn vill komast til botns í þeim leyndarmálum og óskilgreinanlega óhugnaði sem ríkir á þessu hálendi, og heldur því áfram að lesa. Síðustu kaflar bókarinnar markast af lýsingum og atburðarás sem eru fantasíukenndar og allt að því súrrealískar. Hér á lesandinn því erfitt með að átta sig á því hvað er raunverulega að gerast og hvernig má túlka atburði, með þeim afleiðingum að bókin verður langt frá því auðskiljanleg eða auðtúlkanleg. Lesandinn situr eftir í lausu lofti, áttavilltur, fylltur óhug og og undarlegri spennu, með ósvaraðar spurningar í kollinum, spurningar sem erfitt er að finna fullnægjandi svör við. Fyrir sumum lesendum er þetta kannski helsti galli bókarinnar, en þetta er líka að mínu mati einn af mörgum kostum hennar. Ekki er hægt að setja söguna í nein afgerandi hólf, og hún er afar tvíræðin, svo ekki sé meira sagt. Atburðarásin gæti allt eins verið byggð á hugarórum einnar manneskju, eða jafnvel átt uppruna sinn í hugum fólks sem er á milli heims og helju eftir alvarlegt bílslys.

Á kápu bókarinnar er Hálendinu lýst sem bæði sálfræðilegri hrollvekju og þjóðsögu ,,um fólk sem sér sjálft sig í öllu en finnur í engu.“ Þetta er afar viðeigandi lýsing, en einnig er hægt að lýsa skáldsögu Steinars Braga sem nokkurskonar uppgjöri við hrunið. Aðalpersónurnar eru greinilega afsprengi góðærisins: Hrafn var alinn upp af peningum, tók við rekstri útgerðarinnar af pabba sínum og hagnaðist á fjárfestingum og millifærslu peninga úr einum stað í annan; Egill vann hjá Landsbankanum og stóð á bak við söluherferðina með DeCode hlutabréfin. Báðir menn hafa misst peninga í hruninu, og báðir virðast hafa  óhreint mjöl í pokahorninu hvað varðar viðskiptahætti sína fyrir hrun. Tónn bókarinnar er greinilega gagnrýninn á útrásarvíkinga og viðskiptajöfra, og raunverulegar persónur úr viðskiptalífinu og stjórnmálunum fá sína sneið af gagnrýninni. Sjálfir hafa þeir Hrafn og Egill lifað innihaldslausu lífi þrátt fyrir peningana, orðið háðir dópi, áfengi og jafnvel klámi. Konurnar þeirra, þær Vigdís og Anna, eru viðkunnanlegri persónur. Sálfræðingurinn Vigdís reynir að tala um fyrir körlunum þegar spennan og óvildin á milli þeirra magnast, og blaðakonan Anna reynir að komast til botns í því hvað karl og kerling eru að fela.

Aðalpersóna Hálendisins er þó án efa íslensk náttúra. Andspænis henni eru borgarbörnin og neysluhyggjufólkið algjörlega vanmáttug. Náttúran er grimm og óvægin; hún er óbeislanleg og í leit að hefnd fyrir tilraunir mannsins til að sýna fram á hið gagnstæða. Virkjunin, stíflan og þorpið yfirgefna eru martraðarkennd útgáfa af Kárahnjúkavirkjun, og það er hér sem fjórmenningarnir mæta því sem er hvað grimmast, óhugnanlegast, áþreifanlegast en um leið óraunverulegast af öllu.

Hálendið eftir Steinar Braga er áhrifamikil og sérstök saga. Hún ýtir við lesandanum og truflar hann. Hún skilur margt eftir til að íhuga og velta vöngum yfir og gleymist því ekki fljótt. Einnig virkar hún afar vel sem hrollvekja. Að loknum lestri seint um kvöld er ónotakenndin allsráðandi og svefninn lengi að síga á brá.

Ingibjörg Ágústsdóttir,
lektor í breskum bókmenntum


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *