Opnunin
Hefðbundin opnun bókastefnunnar með hátíðarræðum var að mörgu leyti athyglisverðari en margar slíkar formlegar samkomur. Ræður héldu íslensku höfundarnir Arnaldur Indriðason og Guðrún Eva Mínervudóttir, Gottfried Honnefelder, stjórnarformaður bókastefnunnar og Jürgen Boos, framkvæmdastjóri, auk Petru Roth, borgarstjóra Frankfurt, Jörgs Uwe Hahn, varaforsætisráðherra Hessen-fylkis, og síðast en ekki síst Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þjóðverja og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ræður fulltrúa bókastefnunnar voru kannski áhugaverðastar að því leyti að þær snerust um mál málanna að þeirra dómi, en það eru rafbækurnar og höfundarétturinn. Vissulega hafa menn hugleitt áhrif rafbóka á höfundarréttinn áður, en ótti þeirra stafaði beinlínis af nýlegri þróun stjórnmála í Berlín þar sem Sjóræningjaflokkurinn svokallaði hafði náð umtalsverðum árangri í borgarstjórnarkosningum í Berlín og hann hafði víst á stefnuskrá sinni að leggja niður hugverkarétt og má nærri geta að svo róttæk stefna hugnast ekki helstu fulltrúum bókaútgefenda og rithöfunda ekki heldur.
Höfundarnir íslensku komust vel frá sínu en kannski kom Íslendingum ekki margt á óvart í ræðum þeirra. Þýski utanríkisráðherrann kom hins vegar skemmtilega á óvart því í miðri opnunarræðu var eins og hann söðlaði um og hann hóf upp mikinn lofsöng fyrir Evrópusambandið sem hann benti á að væri fjölmenningarlegt samfélag um 500 milljóna manna af margvíslegu þjóðerni þar sem þeir búa saman í sátt og samlyndi við velsæld sem ekki á sinn líka í veraldarsögunni og það þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar. Ræðan var flutt af hita og þrótti þess sem á trúir og hann ávarpaði forsetann nokkrum sinnum á meðan á henni stóð. Forsetanum virtist þó ekki vera eins skemmt og á skjánum mátti sjá að hann tók ekki alltaf undir dynjandi lófatakið í salnum, en þýskir gárungar sögðu á eftir að þetta hefði verið í fyrsta sinn í heilt ár sem klappað hefði verið fyrir ráðherranum sem ekki hefur verið vinsæll í heimalandinu undanfarið. Utanríkisráðherranum íslenska virtist heldur ekki vera mjög skemmt yfir ræðu forseta Íslands sem margir Íslendingar voru sammála um að væri vel rituð en nokkuð fyrirsjáanleg.
Íslenski skálinn var síðan opnaður gestum eftir að Westerwelle fékk að fara á undan af öryggisástæðum. Skemmst er frá því að segja að hann var eins vel heppnaður og unnt var að mínum dómi. Kvikmyndum af íslenskum lesendum var varpað upp á risastór tjöld þar sem þeir voru við lestur og mátti þar finna nokkurt þversnið af Íslendingum, allt frá börnum til broddborgara með flagg á útskornu borði. Í miðju skálans var að finna innsetningu með kvikmyndum íslenskri náttúru sem varpað var á kassalaga rými úr háum tjöldum og mun hún hafa verið notuð á heimssýningunni í Sjanghæ í Kína á síðasta ári. Með hálfrökkri og lágværri seiðandi tónlist tókst að búa stemningu sem einn bandarískur ræðumaður kallaði „Zen-like“ og hitti þar naglann á höfuðið, enda settust menn gjarnan niður um lengri hríð á kaffisvæði þar sem raðað hafði verið saman gömlum húsgögnum og bókahillum og gátu gestir lesið í félagi við „lesrisana“ í kring. Það sýndi sig að mörgum leið vel þarna inni, ekki síst eftir að þeir komu úr hamaganginum úr öllum risaskálunum í kring þar sem á áttunda þúsund sýnendur börðust um athygli þeirra mörg hundruð þúsund manna sem fóru um dagana fimm sem á eftir fylgdu.
Leave a Reply