Er Háskóli Íslands í einangrunarhættu?

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Hjalti Hugason veltir fyrir sér fjölgun doktorsnema við Háskóla Íslands: ,,Það er margt sem glatast við það ef stór hluti háskólakennara framtíðarinnar hefur ekki notið þeirra gæða að hafa árum saman dvalið í stóru erlendu rannsóknarumhverfi, komist undir yfirborð þess, mótast af menningu annars lands og myndað tengsl sem vara lengi eftir að heim er komið. Mynd: www.freakingnews.com"
Hjalti Hugason veltir fyrir sér fjölgun doktorsnema við Háskóla Íslands: ,,Það er margt sem glatast við það ef stór hluti háskólakennara framtíðarinnar hefur ekki notið þeirra gæða að hafa árum saman dvalið í stóru erlendu rannsóknarumhverfi, komist undir yfirborð þess, mótast af menningu annars lands og myndað tengsl sem vara lengi eftir að heim er komið.” Mynd: www.freakingnews.com

Vorið er uppskeruhátíð í starfi Háskólans. Þá útskrifast flestir stúdentar. Eins og áskrifendur á póstlista háskólans verða varir við hefur tilkynningum um doktorsvarnir einnig rignt yfir síðustu vikur. Það minnir okkur á að Háskóli Íslands er nú eftir 100 ára starf orðinn fullgildur háskóli sem veitir menntun til æðstu gráðu háskólasamfélagsins á fjölmörgum fræðasviðum. Þessu ber að fagna. Vonandi tekst öllum deildum Hugvísindasviðs að taka þátt í þessari þróun og fjölga útskrifuðum doktorum jafnt og þétt á næstu árum.

Á öllum málum eru þó tvær hliðar. Það á einnig við um framfaramál. Löngum hefur verið um það rætt að Háskóli Íslands sé óvenju alþjóðlegur þrátt fyrir smæð sína og legu. Helsta skýringin á því hefur verið að langflestir kennarar hans hafa lokið rannsóknarnámi erlendis, ýmist austan hafs eða vestan. Heim komnir hafa þeir síðan myndað fræðasamfélög sem teygt hafa anga sína víða um heim. Er ekki hætt við að þetta breytist við það að doktorsnám festist í sessi við Háskóla Íslands?

Mér sem þetta ritar er minnisstætt þegar ég kom til baka úr námi við virtan háskóla erlendis. Þar kynntist ég höfundum ýmissa þeirra bóka sem lesnar höfðu verið í grunnnáminu hér, gekk inn í stórt rannsóknarsamfélag, uppgötvaði bókasafn sem hafði að geyma flest sem hugurinn girntist og fékk þá tilfinningu að ég væri orðinn hluti af hinum stóra heimi. Þegar ég flutti heim óttaðist ég að einangrunin hæfist. Það var ekki alls kostar rétt. Vissulega var torveldara að nálgast gögn. Heimsóknir gestafyrirlesara voru þó síst sjaldgæfari og samstarf við erlenda háskóla virtist mun meira.

Það hafði líka komið mér spánskt fyrir sjónir að við þann háskóla sem ég hafði numið við var munstrið þetta: Stúdent innritaðist á unga aldri, lauk grunnnámi og rannsóknarnámi við sama skóla og ef heppnin var með honum hlaut hann rannsóknarstöðu og síðan fasta kennarastöðu við sama háskóla. Hinu akademíska lífi var öllu lifað innan veggja sömu stofnunar, ef til vill með stuttum heimsóknum á öðrum stöðum. Mína grein var hægt að stunda á tveimur stöðum í landinu. Á fimm ára námsferli man ég eftir tveimur sameiginlegum semínörum. Þess á milli var torvelt að rækja nokkur tengsl og takmarkaður áhugi virtist fyrir því meðal heimamanna. Mun fjölgun útskrifaðra doktora frá Háskóla Íslands færa okkur í það far sem hér var lýst og þar með auka einangrun íslensks háskóla- og rannsóknarumhverfis?

Benda má á margt sem hefur breyst síðan mín kynslóð lauk rannsóknarnámi. Þar munar mest um  að öll tengsl við umheiminn hafa gjörbreyst með tilkomu hinna rafrænu samskipta. Smæð bókasafna og skort á ýmis konar gögnum má nú bæta sér upp á annan og skilvirkari máta en þá var kostur. Þá hefur ferðakostnaður lækkað, a.m.k. í meðalári. Tæknilega séð eru því varnir gegn einangrun betri nú en þá.

Hitt er annað mál að það er margt sem glatast við það ef stór hluti háskólakennara framtíðarinnar hefur ekki notið þeirra gæða að hafa árum saman dvalið í stóru erlendu rannsóknarumhverfi, komist undir yfirborð þess, mótast af menningu annars lands og myndað tengsl sem vara lengi eftir að heim er komið. Þá mun fjölbreytnin líka smám saman minnka ef stöðugt fleiri hljóta alla sína menntun hér heima. Ekki er ég dómbær á það hvort einangrun af þessu tagi er skaðlegri á sviði hugvísinda en í öðrum fræðigreinum. Ég er alla vega sannfærður um að í þeim greinum sem ég þekki best er einhæfni skaðleg.

Samtímis því að doktorsnám eflist við Háskóla Íslands er full ástæða til að hefja mótvægisaðgerðir. Það er sem sé ekki nægilegt að tryggja að námið standist alþjóðlegar kröfur. Það þarf líka að sporna gegn einangrun og einhæfni.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *