,,Í upphafi frásagnar hefur hún leyft þeim að skera af sér eina tá og hún gerir enga athugasemd þegar sonur hennar fer fram á að taka úr henni heilann í tilraunaskyni. Er heilinn eftir þetta geymdur í spritti í öndvegi í stofunni, án þess að það breyti lífi móðurinnar mikið."

Besta smásagan eða ljótur viðbjóður?

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

„Saga handa börnum“ eftir Svövu Jakobsdóttur birtist fyrst í smásagnasafninu Veisla undir grjótvegg árið 1967. Það segir frá móður sem fórnar sér fyrir börnin sín. Í upphafi frásagnar hefur hún leyft þeim að skera af sér eina tá og hún gerir enga athugasemd þegar sonur hennar fer fram á að taka úr henni heilann í tilraunaskyni. Er heilinn eftir þetta geymdur í spritti í öndvegi í stofunni, án þess að það breyti lífi móðurinnar mikið.

Sagan vakti snemma athygli. Í ritdómi í Morgunblaðinu 1967 sagði Jóhann Hjálmarsson hana vera eftirtektarverðustu sögu bókarinnar: „Raunsæishöfundur af eldri gerðinni, hefði sagt þessa sögu á annan hátt, hún hefði til dæmis í meðförum hans orðið of mórölsk og vandlætingarfull; en Svava notfærir sér nýjan frásagnarmáta og tekur óhugnaðinn í þjónustu sína til að tjá það sem virðist sakleysislegt á yfirborðinu, en er í raun og sannleika ógnvekjandi, nálgast það að vera morð.” Fleiri hafa lofað á söguna á síðari árum. Samkvæmt „ítarlegri könnun“ sem Kolbrún Bergþórsdóttir vann (spurningalistar voru lagðir fyrir 32 einstaklinga) og fjallað var um í grein í vikublaðinu Pressunni árið 1991 er saga Svövu „besta íslenska smásaga sem skrifuð hefur verið“.

En önnur og neikvæðari viðhorf komu líka fram. Árið 1975 birtist athyglisverð umræða um „Sögu handa börnum“ á lesendasíðum dagblaðsins Vísis. Tilefnið var upplestur Svövu á sögunni í Ríkisútvarpinu 26. janúar og endurflutningur hans 20. febrúar. H.E. hringdi í Vísi tveimur dögum síðar: „Úff, úff og aftur úff!  Þessi óþverralestur var á dagskrá útvarpsins á fimmtudagskvöld. … Á kannski að fara að flytja þessa sögu einu sinni í mánuði eða hvað veldur því, að hún er endurtekin svona fljótt aftur?“ Fáum dögum síðar sendi frú M.L. lesendabréf í Vísi og tók heilshugar undir orð H.E.: “Það er ekki lítið framlag, sem Svava Jakobsdóttir leggur til kvennaársins 1975. … Maður fyllist hryllingi og viðbjóði, að nokkur manneskja, sem á að heita með heilbrigða skynsemi, skuli geta borið svona nokkuð á borð. … Ef þetta á að vera eitthvað skemmtilegt og fyndið fer það fram hjá mér.“

Svava Jakobsdóttir. Mynd fengin af vef Alþingis.
Svava Jakobsdóttir. Mynd fengin af vef Alþingis.

En nú bar svo við að tveir aðdáendur skáldkonunnar risu upp til andsvara. Annars vegar skrifaði Anna Auðunsdóttir lesendabréf í Vísi þar sem hún sagðist hafa hlustað á upplestur Svövu ásamt tveimur karlmönnum. “Ég gat ekki fundið annað en að við legðum öll sama skilning í söguna. Og við vorum ánægð. … Persónulega vil ég færa frú Svövu Jakobsdóttur þakkir mínar fyrir framlag hennar til kvennaársins, þótt saga hennar hefði mátt lesast á hvaða ári sem er.“ Fyrir neðan grein Önnu birtist annað lesendabréf frá B.J. sem sagðist hafa lesið söguna nokkrum árum fyrr: „Mér þótti sagan góð. Ég las hana aftur og þótti enn betri. Má vera, að heiti sögunnar gefi tilefni til skrifa, en ég held, eftir umhugsun — (það er nefnilega ekki ennþá búið að setja minn heila i spritt) — að heilar þessara ágætu kvenna séu í spritti.“ Átti B.J. þar við skoðanir H.E. og frú M.L.

Lokaorðið í þessari snörpu ritdeilu átti H.E. 4. mars en þá birtist enn eitt lesendabréf í Vísi þar sem hann/hún þrætti m.a. fyrir að vera heilalaus: „Mér þótti sagan ljót — ég vil segja viðbjóður. Ég held þó, að ég sé ekki það sljó(r), að ég skilji ekki til fullnustu, hvert verið er að fara“. Að mati H.E. snerist spurningin annars vegar um það hvort nútíminn krefðist „þeirra meðala eða frásagnartækni, sem Svava beitir, svo að efnið komist til skila“ og hins vegar um þær umdeildu stefnur í uppeldisfræði sem verið höfðu uppi á teningnum hér á landi á sjöunda áratugnum. „Ekki veit ég hvort Svava Jakobsdóttir hefur sjálf orðið fyrir uppeldislegum áhrifum hins nýja siðar, en mér er ekki grunlaust, að börnin hennar í sögunni séu að einhverju leyti afkvæmi þess tíma, og að þar sé hún að fást við ávöxtinn. Hvert hennar persónulegt viðhorf er gagnvart móður- og eiginkonuhlutverkinu er mér ekki kunnugt, en með framlagi sínu með sögulestrinum fannst mér hún ekki lyfta því. Hlutskipti móður hefur ekki ávallt verið öfundsvert. En ef konan vill ekki með öllu afneita eðli sínu og hlutverki, þarf hún að nota kvennaárið 1975 til að færa það til meiri virðingar og skilnings á annan hátt.“

Enda þótt H.E. standi enn fast á upphaflegri skoðun sinni á sögunni og dylgi jafnvel um svik höfundar við sjálft móður- eða kveneðlið þá er greinilegt að skrif þeirra Önnu og B.J. hafa neytt hann/hana til að glíma bæði við frásagnarhátt og efnivið verksins. Umræðan á síðum Vísis bendir til að Svövu Jakobsdóttur takist að fá jafnvel sína tregustu lesendur til að leggja höfuðið í bleyti.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *