Þetta er söguleg stund í Háskóla Íslands. Doktorsnafnbót er æðsta viðurkenning sem háskólar veita, hvort sem um er að ræða hinn hefðbundna lærdómstitil eða doktorsgráðu í heiðursskyni. Þegar háskólinn sæmir fyrrnefndu doktorana gráðunni og sendir þá út í lífið vonar hann að þeir eigi fyrir sitt leyti eftir að verða sínum gamla skóla til sóma – það má segja að við vonumst til að þeir staðfesti doktorsgráðuna á öðrum stöðum, með öðrum störfum. Í síðara tilvikinu er þessu öfugt farið, því að þeir kandidatar, er veita skal doktorsgráðu í heiðursskyni, hafa þegar staðfest hana í þessum skilningi. „Þeir sem þessa sæmd hljóta“, eins og segir í reglum Háskóla Íslands, „skulu hafa afkastað merkilegu starfi og njóta almennrar viðurkenningar á sínu sviði, ýmist sem vísindamenn, menningarfrömuðir, andlegir eða veraldlegir leiðtogar.“ Slíkir frömuðir hafa þegar innt af hendi starf í samfélaginu sem tengist viðleitni háskólans, sókn hans eftir betra og gróskumeira mannlífi.
Þegar svo háttar til er það Háskólans að þakka fyrir sig – og það er jafnframt ákveðin framhleypni og ögn af eigingirni fólgin í gjörningi háskólans, því að hann veitir ekki slíka gráðu nema honum sé sjálfum sæmd að henni – hann fer þess á leit að eiga svolitla hlutdeild í afrekum heiðursdoktora sinna.
Í tilvitnuðum orðum voru nefndir andlegir eða veraldlegir leiðtogar – sennilega kæra fæstir rithöfundar sig um að sinna slíkum leiðtogahlutverkum í bókstaflegum skilningi og skynja sjálfa sig fremur sem leitendur en leiðtoga í þeim menningar-, hugmynda- og tilfinningaheimum er móta vegferð mannsins. En þegar þessir leitendur verða einhvers vísari sem þeir miðla okkur með ferskum hætti og frjórri innsýn, þá geta þeir átt drjúgan þátt í skapa það umhverfi og andrúm sem háskólar þrífast í og þurfa á að halda – við getum kallað það menningarrými. Þetta menningarrými byggir í ýmsum þáttum á arfi genginna kynslóða, og hér á landi er það öðru fremur bókmenntaarfleifðin sem skiptir miklu fyrir sjálfskilning okkar. Þessi arfleifð er sameiginlegt viðfangsefni háskólafólks (kennara jafnt sem stúdenta) og rithöfunda samtímans. Þótt þessir hópar vinni vitaskuld oftast úr henni með ólíkum hætti – rithöfundar stundum beinlínis með því að kollsteypa þeim viðmiðum sem virtust vera grundvallarlögmál hefðarinnar – þá liggja á milli fræðasamfélagins og samtímarithöfunda þræðir sem háskólar hirtu löngum lítt um að rekja og kanna. Ég hygg að það sé að breytast, meðal annars hér við Háskóla Íslands þar sem ritlist er nú meðal námsgreina í Íslensku- og menningardeild.
Íslenskir höfundar fagurbókmennta sem orðið hafa heiðursdoktorar við Háskóla Íslands í 99 ára sögu hans eru afar fáir – skólinn hefur farið mjög sparlega með þennan virðingarvott. Að vísu eru markalínur ekki alltaf skýrar. Þeir Jón Helgason, Sigurður Nordal og Einar Ólafur Sveinsson voru viðurkenndir rithöfundar í áðurnefndri merkingu. Þótt þeir hafi vafalaust verið sæmdir heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann vegna þess að þeir voru brautryðjendur á sviði norrænna fræða er þetta til marks um að ekkert hyldýpi skilur að ritlistina og fræðin. Vilhjálmur Stefánsson, heiðursdoktor við Háskóla Íslands, var landkönnuður en einnig rithöfundur og fékkst raunar nokkuð við ljóðagerð á yngri árum. Þá skal því til skila haldið að Matthíasi Jochumssyni var veitt slík heiðursnafnbót við Háskóla Íslands árið 1920. Þótt það hafi verið guðfræðigráða (en Guðfræðideild er nú ein af deildum Hugvísindasviðs) – þá má segja að Háskólanum hafi lánast – skömmu fyrir andlát þjóðskáldins – að votta ekki aðeins skáldinu virðingu heldur einnig því skáldskapar- og menningarumhverfi 19. aldar sem það spratt úr.
En ef þessir höfðingjar eru frátaldir, þá má segja að Háskólinn hafi til þessa einungis sýnt fjórum mönnum þessa virðingu fyrir afrek á sviði fagurbókmennta: Þetta eru þeir Halldór Laxness árið 1972, Þórbergur Þórðarson og Gunnar Gunnarsson árið 1974 og loks Snorri Hjartarson árið 1986 (á 75 ára afmæli Háskólans).
Það eru því 24 ár síðan Háskóli Íslands fékk samferðamann úr hópi íslenskra rithöfunda á sinn fund til að þiggja æðstu vegsemd skólans. Ég vil fyrir hönd Hugvísindasviðs, og Íslensku- og menningardeildar sérstaklega, þakka rektor og háskólaráði fyrir að leyfa okkur með vissum hætti að halda á fullveldisdeginum þessa forhátíð að 100 ára afmæli skólans og samþykkja að hér yrði ekki einn heldur þrír úr hópi helstu rithöfunda þjóðarinnar sæmdir heiðursdoktorsnafnbót. Í þessu felst viðurkenning á ævistarfi – án þess að rithöfundarnir hafi þar með sagt sitt síðasta orð. Nú velta því eflaust sumir fyrir sér hvort ekki hafi fleiri rithöfundar skilað viðlíka ævistarfi í höfn. Slíkt kann vel að vera; hér er ekki verið að útiloka neinn, engri rýrð en kastað á aðra, og sagan er ekki á enda runnin. Vonandi geta sem flestir glaðst á þessari stundu með þessum höfundum sem verðskulda sannarlega viðurkenningu þá sem Háskóli Íslands veitir þeim. Til að fá gilda kosningu sem heiðursdoktor þarf kandídat að hljóta meir en þrjár fjórðu hluta atkvæða allra atkvæðisbærra manna í háskóladeild. Kosið var sérstaklega um hvern og einn þeirra kandídata sem hér eru og hlutu þeir allir um 90 prósent atkvæða, þótt talin væru með ógreidd atkvæði, eins og ber að gera, en þau voru einungis tvö. Deildin stendur því því þéttskipuð á bak við allar þær nafnbætur sem hér verða veittar.
Ég notaði áðan orðið ævistarf – það er orð með stóran faðm – og vísar til iðju sem ekki er lokið í einum áfanga heldur með langtímaátaki. Thor Vilhjálmsson hefur í viðtali sagt skemmtilega frá því þegar fyrsta bókin hans birtist árið 1950 – bók sem ber heitið Maðurinn er alltaf einn. Hann segist hafa talið víst að nú yrði slegið upp þjóðhátíð. „En þegar ég gekk niður í bæ sá ég að að fólk var alveg eins og það átti að sér. Það var eins og ekkert hefði gerst.“ En það hafði eitthvað gerst og það hélt áfram að gerast – og er enn að gerast, meðal annars á þessari stund, á þessum stað – svolítil þjóðhátíð. Thor á sextíu ára rithöfundarafmæli í ár, ef tekið er mið af fyrstu bók, og ferill hans er ævintýri líkastur.
Það má einnig segja um feril Matthías Johannessens. Einungis 29 ára gamall, árið eftir að hann birti sína fyrstu ljóðabók, Borgin hló, tók hann við ritstjórastarfi á Morgunblaðinu, sem hann gegndi til sjötugs. Það er vissulega eitt af undrum íslenskrar bókmenntasögu að þessum manni auðnaðist að skapa sér, meðfram erilsömu ritstjórastarfi, ríkulegt og samfellt líf sem rithöfundur og verða eitt fremsta og fjölhæfasta ljóðskáld þjóðarinnar. Eins og Thor á hann að baki langan, farsælan og afkastadrjúgan skáldferil.
Ferill Álfrúnar Gunnlaugsdóttur sem rithöfundar er af öðru tagi. Þegar smásagnasafn hennar Af mannavöldum birtist 1982 fögnuðu því margir en töldu kannski að þetta væri aukageta háskólakennara sem átti að baki langt nám og hafði unnið merkilegt starf við uppbyggingu nýrrar námsgreinar hér á landi – en hefði fundið stundir, ef til vill andvökustundir, til að skrifa skáldverk. Bókunum fjölgaði, fimm skáldsögur hafa fylgt á eftir smásögunum og þessar sex bækur búa yfir sterkum höfundareinkennum – í viðfangsefnum, frásagnaraðferðum, persónusköpun og lífssýn. Hér hefur orðið til eitt sérstæðasta höfundarverk íslenskra bókmennta á síðustu áratugum, mótað af samslætti djarfrar framsetningar, tilvistarhyggju og húmanisma. Verk Álfrúnar eru engan veginn öll steypt í sama móti en í þeim öllum er einhver sterkur og seiðandi höfundarkjarni sem við höfum enn ekki gert okkur nema takmarkaða grein fyrir. Þó má vera að bókin Rúnir, safn greina eftir ýmsa fræðimenn um verk Álfrúnar – bók sem kemur út í dag – marki spor í þá átt.
Sé litið á starfsferil Álfrúnar í heild má segja að hann staðfesti það sem nefnt var fyrr: að ekki þurfi að vera þingmannaleið á milli fræða og fagurbókmennta. Raunar má segja að það sameini doktorskandídatana þrjá að auk þess að hafa samið skáldverk hafi þau einnig skilað drjúgum menningarkosti til þjóðarinnar eftir öðrum leiðum: Í hálfan fjórða áratug veitti Álfrún nemendum sínum við Háskóla Íslands innsýn í heim bókmenntanna, einkum bókmennta Frakklands, Spánar og Suður-Ameríku, auk þess að skrifa fræðirit um rannsóknir sínar á tengslum fornfranskra og fornnorrænna bókmennta. Matthías hefur skrifað margar bækur með einstæðum samtölum sínum við samferðamenn, auk pistla, hugleiðinga, esseyja og fræðigreina, að ritstjórastarfi hans ógleymdu. Thor gegndi einnig um hríð merkri ritstjórn ásamt fleirum sem stóðu að tímaritinu Birtingi, og hann hefur margt og gott skrifað um listir og listamenn – heilu bækurnar raunar – og er þá enn ógetið ferðabóka hans og þýðinga á erlendum öndvegisbókmenntum.
Í menningarrými þessara þriggja höfunda er ekki hægt að kvarta yfir þrengslum; þar er víðsýnt um veröldina. Verk þeirra Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Matthíasar Johannessens og Thors Vilhjálmssonar eru til marks um að hér á landi hafa verið sköpuð raunveruleg og endingargóð verðmæti. Því ber að fagna.
OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ?
23. September, 2024Töfrafjallið og snillingurinn
19. September, 2024Ljósbrot í táradalnum
12. September, 2024Deila
Leave a Reply