[container]Góður vilji gerir ekki góðan mann og velviljuð orð jafngilda ekki góðum gjörðum. Orðum hefur löngum verið eignaður mikill áhrifamáttur sem augljóslega fór ekki framhjá leiðtogum mannkynssögunnar, sem gerðu sitt ýtrasta til að hindra það að konur og aðrir „undimálshópar“ fengju hlutdeild í valdi orðanna. En hafa verður í huga að valdið yfir samfélaginu og valdið yfir orðunum hefur löngum verið samtvinnað í höndum karlmanna. Orð eru vissulega mikils megnug, en ekki má gleyma að þeim hefur jafnan fylgt athafnavald þess sem ræður: Valdamiklir menn hafa fylgt orðum sínum eftir með athöfnum.
Nú er öldin önnur. Áratuga löng réttindabarátta kvenna hefur skilað þeim árangri að rödd þeirra getur krafist áheyrnar. En þrátt fyrir að konur hafi um langt skeið unnið ötullega gegn misrétti með ýmsum aðgerðum, er enn langt í land með að ná fram jöfnum rétti kvenna og karla. Réttlátt samfélag næst aðeins með sameiginlegu átaki allra, en karlmenn hafa lengst af haldið að sér höndum í jafnréttisbaráttu kynjanna. Þannig hefur sýnileg afstaða karlmanna til jafnréttisbaráttunnar á liðnum tíma jafnan verið þögn eða afskiptaleysi, sem endurspeglast í setningum eins og „þetta er ekki mitt vandamál“ og „svona er þetta bara“, eða jafnvel fjandskapur þar sem karlar leggja sig fram um að vinna gegn kynjajafnrétti, bæði í orði og í verki.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, höfundur bókarinnar Á mannamáli, stendur fyrir árveknisátakinu Öðlingurinn 2011. Með því vill hún leggja áherslu á notkun orðsins í baráttunni gegn kynjamisrétti, eins og fram kom í viðtali við hana í Fréttablaðinu þann 19. janúar síðasliðinn, og jafnframt virkja karlmenn til umhugsunar um og þátttöku í jafnréttisbaráttunni. Af því tilefni hafa karlmenn fengið orðið á síðum Fréttablaðsins og á Vísi þar sem þeir munu skrifa pistla um kynjajafnrétti á meðan á átakinu stendur. Fjölmargir karlmenn hafa tekið áskoruninni. Með pistlum sínum sýna þeir fram á það að þeir eru reiðubúnir að stíga fram fyrir skjöldu í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna, að minnsta kosti í orði. En er það nóg? Eru þeir raunverulega að takast á við vandamálið með því einu að ræða það?
Í pistlaskrifum sínum fjalla karlmennirnir um allt frá kynbundnu ofbeldi, hlutgervingu kvenna og launamun kynjanna til persónulegra hugleiðinga um eigin þátttöku í kynjuðum heimi. Í pistlinum , „Og sannmælinn hlýtur…“, sem birtist þann 26. janúar á Vísi, varpar Guðni Már Harðarson ljósi á fáránleika þeirrar staðreyndar að sumir fái hærri laun en aðrir vegna einhverra líffræðilegra eiginleika. Hann leggur fram umhugsunarverða tillögu þess efnis að gæðavotta eða verðlauna þau fyrirtæki sem útrýma kynbundnum launamun. Hér er komin fram hugmynd sem vert er að framkvæma og vil ég hérmeð kalla eftir viðbrögðum þeirra sem hafa þessi mál í sínum höndum, stjórnvalda og forystuafla atvinnulífsins. En hinn almenni karlmaður getur líka látið til sín taka með öðru en orðum. Ímyndið ykkur áhrifin ef starfsbræður okkar – feður okkar, synir, bræður og vinir – sýndu stuðning í verki með því t.d. að ganga úr vinnu við hlið okkar í baráttugöngunni á Baráttudegi kvenna (kvennafrídaginn). Eða – sem væri enn betra – ef karlmenn fylgdu fyrirmælum Sævars Sigurgeirssonar í pistli sínum „Afþökkum launahækkunina!“, sem birtist á Vísi þann 3. febrúar, og hreinlega neituðu að taka við launahækkun umfram samstarfskonur sínar. Það væru öflug skilaboð til samfélagsins.
Framtakið Öðlingurinn 2011 er ágætt og orð pistlahöfundanna bera með sér að jafnrétti er þeim ekki minna hugðarefni en þeim fjölmörgu konum sem staðið hafa í eldlínunni í gegnum tíðina. En látum ekki standa við orðin tóm. Nú er kominn tími til athafna, því meira kveður að verkum en orðum. Herrar mínir, látið verkin tala.
Eva Hafsteinsdóttir,
meistaranemi í menningarfræði
Myndirnar eru teknar af visi.is
[/container]