Um höfundinn
Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Sjá nánar

Grágás
Staðarhólsbók Grágásar

[container] Lögfræði er ekki jafn hlutlæg og náttúruvísindin en hún er hlutlægari en til dæmis bókmenntafræði, sagði mætur maður við mig um daginn, sennilega í tilefni af umdeildum hæstaréttarúrskurði. Þegar ég bað hann skýra þetta betur sagði hann að þetta snerist um túlkun. Það væri meiri túlkun í lögfræði en raunvísindum – en minni en í bókmenntafræði.

Mér fannst þetta áhugaverð fullyrðing, einkum þar sem hún var sett fram sem nánast sjálfsögð. Mig grunaði líka að í hugmyndinni leyndist önnur hugmynd ennþá sverari: um stigveldi vísindanna. En þessi túlkunarhugmynd er líka áhugaverð í sjálfri sér.

Nú eru flestir aðeins sérfræðingar í einni eða sárafáum vísindagreinum og ættu því kannski ekkert að vera að fjölyrða um hinar. En ég verð að játa að ég sé hreinlega ekki að það sé hægt að skipa vísindagreinum niður eftir umfangi staðreynda (öruggrar þekkingar?) og túlkunaratriða. Ef ég skil það rétt má í öllum vísindagreinum finna sæmilega örugga þekkingu annars vegar en hins vegar gögn sem þarfnast frekari greiningar og túlkunar.

Það er ekkert minna um staðreyndir í bókmenntafræði en í náttúruvísindum eða lögfræði. Þessar staðreyndir skipta vísindamenn talsverðu máli þó að flestir sem til þekkja séu kannski á einu máli að það reyni frekar á vísindamanninn þegar kemur að greiningu og túlkun. Ég veit ekki betur en að þetta sé eins í öðrum vísindagreinum. Vissulega skortir ekki örugga þekkingu í náttúruvísindum en hún er varla það sem vísindastarfið snýst um heldur einmitt sú þekking sem enn er ný og brothætt.

Hvað lögfræði varðar hef ég vanist því að líta á hana sem tiltölulega þrönga undirgrein bókmenntafræðinnar. Hvað er fengist við þar annað en túlkun og skýringu á textum? Vissulega eru það aðeins textar af tilteknu tagi og vissulega má kalla lögfræðina „hagnýta bókmenntafræði“ að því leyti að túlkunin getur oft haft talsvert peningalegt vægi.

Ef einhver er svo heimskur að halda að ég segi þetta til að gera lítið úr lögfræði fer því fjarri. Það er varla hægt að hæla því fagi meira en að kalla það „hagnýta bókmenntafræði“.

Nú er það sem ég hef rætt aðeins hluti af því sem liggur í setningunni í upphafi. Hinn hlutinn er þetta stigveldi sem greina má í hugmyndinni um örugg og óörugg vísindi. Ég gæti nefnilega sem best trúað því að vísindi þyki þeim mun merkilegri eftir því sem minna er um túlkun í þeim.

En það er vitaskuld ekkert nema heimska. Ótti við túlkun er sambærilegur við ótta við greind, það er að segja ótti við hlut mannsins í að vinna úr umhverfinu. Hér er þá enn einu sinni verið að láta sem veruleikinn utan við manninn sé á einhvern hátt merkari en veruleikinn innra með manninum. Öll vísindi eru túlkun, fyrst og fremst. Stundum getur hún leitt af sér afurðir sem eru eins konar staðreyndir en ekkert endilega. Ég get ekki heldur séð að það þurfi að vera markmið þeirra (eða yfirleitt mögulegt) að leiða fram staðreyndir sem aldrei verður hnekkt.

Það sem er áhugavert við svona fullyrðingar eins og fengist var við hér í stuttu máli er fyrst og fremst hversu útbreiddar þær eru og hve sjálfsagðar þær þykja og það er greinilegt vísindamenn eins og bókmenntafræðingar eiga mikið verk fyrir höndum. Margir virðast ekkert skilja hvað túlkun er og ekki heldur hvað felst í vísindagrein eins og bókmenntafræði.

Kannski er þetta að einhverju leyti vandi sem snýr að háskólanum öllum. Á Íslandi hefur nú starfað háskóli í eina öld. Ætti umræðan þá ekki að vera vitsmunalegri en hún er?

 [/container]


Comments

One response to “Túlkunaróttinn”

  1. Geir Sigurðsson Avatar
    Geir Sigurðsson

    Flottar hugleiðingar Ármann. Vísindagrein fer hnignandi eftir því sem viðfangsefni hennar verða í auknum mæli álitnar einhvers konar “staðreyndir” sem “hafnar eru yfir” túlkun. Þá er stutt í ófrjóa, ógagnrýna og einmitt óvísindalega kreddu. En túlkunaróttinn er kannski raunverulega ótti við afstæði sem margir virðast ranglega telja beina afleiðingu túlkunar.