Dagar hitasvækju og örvæntingar

Elena Ferrante hefur slegið í gegn um allan heim fyrir Napólí-seríu sína undanfarið. Sögurnar í þeim flokki eru fjórar talsins og hafa allar komið út í íslenskri þýðingu; Framúrskarandi vinkona (2015), Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi (2016), Saga af nýju ættarnafni (2016) og Sagan af barninu sem hvarf (2017). Nú hefur bókaútgáfan Benedikt gefið út bókina Dagar höfnunar (ít. I giorni dell’abbandono) í þýðingu Höllu Kjartansdóttur, sem upprunalega kom út árið 2002 á undan Napólí-seríunni.

Nafn Elenu Ferrante er dulnefni, en höfundur hefur ekki viljað gefa bækurnar út undir sínu rétta nafni. Þetta hefur vakið forvitni og orðið tilefni til ýmissa rannsókna til að komast að hinu rétta í málinu, en ekkert hefur verið sannað fyllilega í þeim efnum. Dagar höfnunar er önnur bók höfundar. Áratug áður kom fyrsta bók hennar út, L´amore molesto, eða Óþægileg ást í þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur sem nýlega kom út á vegum Bjarts. Sú fyrrnefnda vakti hins vegar fyrst athygli á höfundinum utan heimalandsins.

Dagar höfnunar hefst þegar eiginmaður aðalpersónunnar Olgu, Mario, yfirgefur hana skyndilega fyrir aðra og yngri konu, Cörlu. Olga stendur eftir með tvö börn, einn sjefferhund og heilt heimili til að sjá um. Smám saman sogast hún inn í hringiðu örvæntingar, þar sem hún óttast að verða „konugreyið“, en það er kona sem Olga þekkir úr æsku sinni sem var líka yfirgefin af manni sínum. Konugreyið náði sér aldrei eftir það. Framan af virðist Olga vera að missa tökin á lífinu, minnstu hlutir eins og að læsa og aflæsa útidyrahurðinni verða henni um megn þannig að hún lokast inni í íbúðinni með veikt barn og hund sem líka er alvarlega veikur. Hennar versta stund er þegar hundurinn deyr en hún kennir sjálfri sér um það, fyrst um sinn. Sá atburður er líka hvörfin í sögunni, en eftir þessa niðurlægingu breytist líf Olgu til batnaðar.

Meginstefið í sögunni er þráhyggjan og örvæntingin sem drífur Olgu í átt að taugaáfalli, án þess að hún þó fari fram af brúninni, og niðurlægingin sem hún finnur vegna þess að hún er kona og telur að hún hafi brugðist manni sínum og börnum. Hún hefði nefnilega átt að sinna manni sínum betur svo hann færi ekki að leita sér að yngri konu. Lesandinn sogast inn í örvæntingu og eymd Olgu og erfitt er að lesa bókina vegna þess að örþreytu hennar er lýst í smáatriðum. Lýsingar Olgu á því hvernig hún missir smám tökin á lífinu eru átakanlegar og að lokum getur hún varla séð um börnin sín. Þrúgandi sumarhitinn er notaður til að gæða frásögnina lífi en hann eykur líka erfiðleika Olgu, sem á erfiðara með allt vegna hans.

Olga ímyndar sér líka hvernig nýja parið, Mario og Carla, stundi kynlíf saman: „Þau kyssast, þau sleikja og sjúga til að finna bragðið af tittlingnum og píkunni (23).“ Þarna virðist mér birtast misrétti á milli karla og kvenna á ritunartíma sögunnar. Konan er yfirgefin með börnin en maðurinn er frjáls til þess að byrja nýtt líf með nýrri konu. Vinir og fjölskylda Olgu yfirgefa hana líka eða sýna aðstæðum hennar takmarkaðan skilning. Einangrunin eykur vansæld hennar og gerir henni erfiðara fyrir að vinna sig úr áfallinu.

Bókina þýðir Halla Kjartansdóttir úr frummálinu ítölsku og gerir það vel. Ég finn ekki merki þess að íslenskan sé þýdd of orðrétt úr frummálinu og málfarið í sögunni fellur vel að íslensku máli. Stílinn er enda berorður og ekkert dregið undan þegar talað er um kynlíf eða líkamann, eins og dæmið hér að framan sýnir.

Dagar höfnunar er ágeng bók í lestri. Oft er erfitt að lesa hana en það er jafnframt erfitt að leggja hana frá sér. Ég tel að það sé vegna þess að lesandinn finna mikla samkennd með Olgu og lýsingar á vanlíðan hennar og örvæntingu eru eftirminnilegar og sitja í manni eftir lestur. Þá gefur bókin áhugaverða innsýn inn í ítalska menningu og umhverfi borgarinnar Torino setur svip á frásögnina. Bókin er vel skrifuð, vel þýdd og lætur lesandann velta efninu fyrir sér eftir að lestri er lokið, eins og góð bók á að gera.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Vignir Árnason

Vignir Árnason

Vignir Árnason er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila