Aðeins öðruvísi Hollywood

Three Billboards Outside Ebbing, Missouri (Martin McDonagh, 2017) er ein þeirra kvikmynda sem hvað mest ber á í umræðunni um Óskarsverðlaunin þetta árið. Í fljótu bragði mætti einmitt ætla að hún væri ein af þeim kvikmyndum sem eru sérstaklega skrifaðar til að hljóta náð fyrir augum akademíunnar; viðfangsefnið er í takt við tíðarandann og þekktir leikarar á miðjum aldri taka að sér óhefðbundin hlutverk í átakanlegri sögu. Engu að síður víkur hún, að mörgu leyti, frá þeirri formúlu sem áhorfendur hafa vanist í svokölluðum Hollywood-myndum.

Á yfirborðinu fjallar myndin um óleyst morðmál. Atburðarásinni svipar þó ekki hið minnsta til hefðbundinna glæpamynda og eftir því sem líður á framvinduna verður lausn málsins sífellt lítilvægari. Segja má að sagan hverfist öllu heldur um eftirmál atburðarins og afleiðingar hans fyrir persónur kvikmyndarinnar. Engin áhersla er lögð á að fylgja hefðinni þegar kemur að frásagnaruppbyggingu og atburðarásin verður nánast tilviljanakennd; háð ófyrirsjáanlegum og oft illa ígrunduðum ákvörðunum sögupersóna. Slíkt er fágætt í Hollywood-myndum; venjulega er áhorfandanum komið þægilega fyrir í kunnuglegu umhverfi formúlunnar sem leysir haganlega úr öllum þráðum. Samtölin í myndinni eru listavel skrifuð og einkennast af myrkri kímni. Úrval fjandsamlegra blótsyrða gefur til kynna að persónurnar séu harðar í horn að taka en um leið afhjúpast djúpstæðar sálarkvalir sem setja mark sitt á flókna persónuleikana. Þetta er einna mest áberandi hjá móður fórnarlambsins, Mildred Hayes (Frances McDormand), og lögreglumanninum Jason Dixon (Sam Rockwell).

Hayes er sterk persóna sem ögrar staðalímyndum kvenna í Hollywood-kvikmyndum. Hún er eldklár, með munninn fyrir neðan nefið og hikar ekki við að bjóða karlmönnum birginn. Óförðuð, með úfið hár og í skítugum vinnugalla birtist hún áhorfendum sem hinn mesti töffari. Hún er engu að síður mjög breysk manneskja sem tekur vafasamar ákvarðanir; varanlega mörkuð af áfallinu sem morðið á dóttur hennar var. Morðmálið er þráhyggja hjá Hayes og framferði hennar varðandi skiltin þrjú, sem titill myndarinnar vísar til, verður táknrænt fyrir baráttu hennar við kerfi sem í eðli sínu er ekki á bandi litla mannsins – eða konunnar í þessu tilviki. Þá má einnig túlka persónuna sjálfa sem tákn fyrir vanmáttuga stöðu konunnar í karllægum heimi. Í stóra samhenginu er hún vanmáttug gagnvart kerfi sem er hannað af körlum og stjórnað af körlum. Löggæslan er fulltrúi þessa kerfis í myndinni og Hayes grípur til örþrifaráða til þess að á hana sé hlustað. Í smærra samhengi, því persónulega, er hún fórnarlamb ofbeldis af hálfu barnsföður hennar og vegna morðsins á dótturinni er hún fórnarlamb andlitslausa skrímslisins, þess óþekkta, sem komst upp með glæpinn. Vanmáttur Hayes er því það sem mótar hana og drífur hana áfram, þó mótsagnakennt megi virðast.

Lögreglumaðurinn Dixon en sennilega mesta ólíkindatól myndarinnar. Í upphafi kemur hann fyrir sem sígild erkitýpa; rasisti, karlremba og ofbeldismaður, sannkallaður ógeðishrotti. Ekki líður á löngu þar til í ljós kemur að hann er í raun treggáfaður og mögulega misþroska og allan fyrri hluta myndarinnar dansar hann á milli þess að vera kómískur karakter og óútreiknanlegur ofbeldismaður. Í framhaldinu fá áhorfendur vandlega úthugsaða innsýn í fortíð hans og bakgrunn þegar móðir hans er kynnt til sögunnar. Í kjölfarið sýnir Dixon, með gjörðum sínum, að hann er mun flóknari en upphafið gaf til kynna – hann er ekki bara hrotti; það býr margt annað undir niðri. Hvað persónusköpun varðar er Jason Dixon því helsti hápunkturinn í þessari kvikmynd þó Mildred Hayes hafi mun meira gildi í pólitísku og félagslegu samhengi.

Þegar á heildina er litið tekst Martin McDonagh vel upp. Svartur húmor er áberandi í kvikmyndinni allri og gerir það að verkum að áhorfendur flissa ítrekað þrátt fyrir að viðfangsefnin séu alvarleg og mjög dramatískir atburðir eigi sér stað. Fengist er við reiði, ofbeldi, rasisma, hómófóbíu og dauðann sjálfan án þess að yfirbragðið verði nokkurn tímann þunglamalegt eða myrkt. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri er fyrirtaks skemmtun, kemur á óvart og vekur máls á ýmsum samfélagslegum málefnum.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila