Kynþáttastefna og ráðandi áhrif Darwins

[x_text]
Áhrif fræðimanna eru mismikil en ævistarf Darwins og kenningar hans um ættkvíslir og náttúruval (sp. selección natural) hafa enn sín áhrif í Mið-Ameríku.
Perúski læknirinn og háskólakennarinn Carlos Monge Medrano (1884–1970), sem lauk doktorsgráðu í læknisfræði frá Lundúnarháskóla árið 1913, er einn þeirra vísindamanna í Rómönsku Ameríku er leitaði í kenningar Darwins er hann skrifaði um hæfni, færni og atorku ólíkra kynþátta. Áherslur hans og áhugi beindust að því hvernig hægt væri að heimfæra kenningar Darwins upp á mannskepnuna, og þá sérstaklega íbúa Rómönsku Ameríku, ekki hvað síst fjölmenningarlegt samfélag Andesfjalla.

Í umræddri kenningarsmíð er fjallað um gáfur og innsæi, iðjusemi og leti, líkamlega burði, skapferli og ábyrgðarkennd, ásamt áræði og dugnaði.
Í skrifum sínum fjallar Monge um samsetningu íbúafjöldans og vísar til lífseigrar umræðu, m.a. skrifa argentínska fræði- og stjórnmálamannsins Domingos Faustinos Sarmiento (1811-1888), til að færa rök fyrir máli sínu um hvers konar eiginleikar móti hverja ættkvísl. Í umræddri kenningarsmíð er fjallað um gáfur og innsæi, iðjusemi og leti, líkamlega burði, skapferli og ábyrgðarkennd, ásamt áræði og dugnaði. Hvítir eru álitnir bera höfuð og herðar yfir aðra hvað atgervi og mannkosti varðar. Næstir í goggunarröð náttúruvalsins eru mestísóar, þ.e. blendingar hvítra og frumbyggja, og múlattar, þ.e. blendingar hvítra og blökkumanna. Næstir koma frumbyggjar, en á neðsta stigapalli eru blökkumenn og blendingar þeirra og indjána.

Dr. Alta Hooker, rektor Háskóla sjálfstjórnarsvæða Níkaragva (heimahéraða frumbyggja og blökkumanna á Atlantshafsströnd landsins – Uraccan skólans), hefur fjallað ítarlega um ítök umræddra „flokkunarkenninga“. Í viðtali sem við hana var tekið fyrir nokkru kemst hún að þeirri niðurstöðu að allt sé enn við sama heygarðshornið. Að samfélagsleg viðhorf mótist enn af sömu viðmiðum og ráðandi voru í Evrópu og ekki hvað síst í Bretlandi fyrir um hundrað árum. Þau ráði enn úrslitum um afstöðu til þeldökkra, sjálfsmyndir íbúa álfunnar og viðhorf íbúanna hvers til annars. Hún bendir á að þrátt fyrir að réttindi íbúa, óháð uppruna, hafi formlega og lagalega verið viðurkennd og tryggð í lögun, hafi lítið breyst. Blendingar og blökkumenn teljist enn til fátækustu meðlima samfélaga Mið-Ameríku og Mexíkó og virðing fyrir menningararfleifð þeirra, tungumálum og siðum sé takmörkuð.

Dr. Alta Hooker
Dr. Alta Hooker

„Afkomendur Afríkuættaðra íbúa í Mið-Ameríku og Mexíkó teljast viðkvæmustu íbúar álfunnar. Þeir eru útskúfaðir og fátækir,“ lætur hún eftir sér hafa. „Panama, Mexíkó, Níkaragva, Hondúras, Kosta Ríka, Gvatemala, El Salvador og Belice hafa undirritað alþjóðlega samninga sem tryggja afkomendum Afríkumanna sömu réttindi og öðrum íbúum álfunnar en í raun eru þessi réttindi ítrekað sniðgengin.“

Hooker er einn höfunda rannsóknarskýrslunnar Réttindi afkomenda Afríkumanna í Rómönsku Ameríku: Áskoranir við innleiðingu þeirra (Sp. Derechos de la población afrodescendiente de América Latina: desafíos para su implementación), sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna stóð að. „Þjóðir standa sig misjafnlega,“ leggur Hooker áherslu á, „en viljann skortir víða.“ Talið er að í álfunni búi um 160 milljónir manna sem rekja ættir sínar til innfluttra þræla, en „hversu mörg við erum, hvar við erum og hvað við gerum, getum við ein vitnað um því einungis við sjálf þekkjum eigin aðstæður“.

Formaður samtaka kvenna af afrískum uppruna í Rómönsku Ameríku, með aðsetur í Níkaragva, Dorotea Wilson, tók í sama streng. Mismunun væri rótgróin, sérstaklega þegar blökkukonur ættu í hlut. „80% afkomenda svartra búa enn við fátækt og þar er fyrst og fremst kynþáttur þeirra sem ræður.“ Sidney Francis Martin, forseti samtaka blökkumanna í Mið-Ameríku, með aðsetur í Hondúras, tekur undir orð Wilson. „Í tuttugu ár höfum við verið að skrifa undir samninga og viljayfirlýsingar, hér heima og alþjóðlega. Staðreyndin er hins vegar sú að meginþorri þessa fólks býr við ákallandi örbirgð.“ Ricardo Changala, sérstakur ráðgjafi Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna staðfestir að aðstæður blökkumanna séu sambærilegar um alla álfuna. „Alls staðar hefur eitthvað áunnist en aðskilnaðarstefna er ráðandi.“ Vandinn, ítrekar Changala, á sér 400 ára sögu. „Þagnarmúrinn er rétt að byrja að molna og það eitt og sér er mikilvægt skref.“

Fréttaskot á spænsku um menntunarmál á Karíbahafsströnd Níkaragva.[/x_text]

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila