[container]
Matthías Ásgeirsson, einn helsti forystumaður félagsins Vantrú frá upphafi, gefur í skyn í athugasemd í umræðuþræði undir grein minni „Mikilvæg ákvörðun siðanefndar“ á Hugrás að það sé ofsagt að halda því fram að vantrúarfélagar hafi „ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð“. Hann spyr: „Hversu oft er “ótal sinnum”?“Hér fyrir neðan tilgreini ég nokkur dæmi (langt frá því öll) sem varpa ljósi á með hvaða hætti vantrúarfélagar ræða þessi efni. Dæmin eru frá margra ára tímabili og eru sótt til forystumanna Vantrúar eða yfirlýstra félagsmanna og eru þau ýmist af vef félagsins eða bloggvefjum og Facebook veggjum þeirra. Fjórir af fimm stofnendum Vantrúar eru Matthías Ásgeirsson, Birgir Baldursson, „Frelsarinn“ og „Aiwaz“ en Matthías og Birgir hafa jafnframt báðir verið formenn félagsins og gegnt margvíslegum öðrum ábyrgðarstöðum fyrir það. Heimili Matthíasar hefur árum saman verið skráð aðsetur félagsins. Þórður Ingvarsson var ritstjóri vefs Vantrúar og í stjórn félagsins í allmörg ár. Kári Svan Rafnsson og Magnús S. Magnússon rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands hafa báðir lýst því yfir að þeir séu félagsmenn í Vantrú og sendi sá síðarnefndi meira að segja bréf á alla starfsmenn háskólans 15. desember 2011 þar sem hann áréttaði þessa félagsaðild sína.
Í grein sinni „Berjum presta“, sem Matthías Ásgeirsson birtir á bloggi sínu Örvitanum 26. júlí 2005, segir hann:
Þegar ég sé skrif eins og þessi, eftir Guðmund Guðmundsson, héraðsprest í Eyjafjarðarprófastsdæmi, sem Hjalti vísaði mér á, langar mig einna mest að hætta öllu þessu rugli og lumbra bara örlítið á prestfíflunum. […] Afsakið meðan ég æli yfir kirkjunnar hyski. […] Þetta finnst þeim sjálfsagt. Bara hið besta mál, jafnvel þó níðingurinn játi að börn séu “hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus”. Þá er einmitt rétti tíminn, að mati prestanna, til að ljúga að þeim. […] Það er allt í lagið að ljúga að börnum, því … æi fokkit, því þetta eru barnaníðingar. Hvað annað á að kalla fólk sem herjar á börn meðan þau eru “leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus”? Djöfuls viðbjóður.
Degi síðar bætir Matthías svo þessu við á sama stað:
Ég var […] að reyna að sýna að ég væri brjálaður út í Guðmund og skoðanabræður hans. Þessa siðblindu trúmenn sem sjá ekkert athugavert við að heilaþvo “hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus” börn. Þarna troða þeir inn trúarvírusnum sem langflestir losna aldrei við.
Birgir Baldursson birtir greinarstúf undir heitinu „Barnaklám“ á vef Vantrúar 9. mars 2006 þar sem hann bregst við ljósmyndum úr æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar. Þar segir hann:
Kirkjan sækir stöðugt í sig veðrið við að klæmast á hugum ófullveðja einstaklinga. Ætti þetta ekki að varða við lög?
Birgir bregst síðan við einni athugsemdinni með eftirfarandi orðum:
Prestarnir eru í þessu tilviki að níðast á hugum barnanna og taka svo myndir af öllu saman. Þetta eru því ekkert annað en klámmyndir og ég tek það nærri mér að horfa upp á þetta.
Í umræðum á ytra spjallborði Vantrúar 26. júlí 2006 talar Birgir um „það andlega barnaníð sem felst í að fylla huga saklausra barna af andstyggilegri lygaþvælu til að ánetja þau kennisetningum sem gera þau að viljugum hugsanaþrælum ævina á enda“. Ári síðar, 8. ágúst 2007, skrifar Birgir í umræðum um grein sína „Er nauðsynlegt að skjóta þau?“ á vef Vantrúar:
Í þessu tilliti er kirkjan eins og Hvalur 9, kominn af stað með skutulinn beinstífan í stafni, á leiðinni að skutla saklaus hvalabörn og draga viljalaus upp að skipshlið. Þess vegna spyr ég: „Er nauðsynlegt að skjóta þau?“, því það er nákvæmlega það sem kirkjan gerir, veiðir þessa hvali eins og ekkert sé sjálfsagðara. […] Og hvað er þá að fyrirsögninni, Doddi? Hélstu kannski að ég væri að hóta kirkjunnar fólki því að skjóta það ef það hætti ekki þessu barnaníði? Komm onn, ég er ekki villimaður.
Síðar á árinu, 26. nóvember, skrifar Birgir grein á vef Vantrúar undir heitinu „Fórnarlömb innrætingar“ þar sem m.a. segir:
Hryðjuverkamenn hugans og andlegir barnaníðingar. Þeir eru að sönnu til, en fráleitt eru allir trúmenn undir þá sök seldir. Þessi hugtök leyfði ég mér að nota um þá presta sem finnst verjandi að brengla huga ungra barna og sveigja að þeim kolgeggjuðu ranghugmyndum sem trú þeirra heldur á lofti. […] Hugtökin hryðjuverkamenn hugans og andlegt barnaníð eru auðvitað ekki falleg hugtök, það veit ég vel. En ég tel nauðsynlegt að tefla þeim fram til að varpa ljósi á þá meinsemd sem felur í sér að innræta saklausum börnum glórulausar hugmyndir bronsaldarmanna um heiminn.
Í grein sem „Frelsarinn“ birtir á vef Vantrúar 20. nóvember 2005 undir heitinu „Um barnaníðinga hugans“ segir strax í upphafi:
Með nýrri stefnumótun ríkiskirkjunnar streyma nú þjónar hennar út til að níðast á óhörðnuðum börnum. Engu er eirt í þessari sókn kirkjunnar í barnsálir og allt er lagt undir.
Matthías Ásgeirsson skrifar samdægurs eftirfarandi athugasemd við greinina: „Djöfull er þetta hressandi grein :-)“
Í umræðum á vef Vantrúar hefur „Aiwaz“ t.d. þetta að segja 10. mars 2006:
Auðvitað er þetta barnaklám og ekkert annað! Einhverjir sveittir krípí prestar með eitthvert smeðjutal við börnin, tæla þau í bænastellingar og læðast svo að þeim með myndavél til fá sér mynd í safnið. Kommon ef þetta er ekki barnaníð þá veit ég ekki hvað.
Og 8. nóvember það sama ár skrifar „Aiwaz“:
Við megum alveg sýna okkar tilfinningar þegar á okkur er ráðist því þessu krissaliði er skítsama um okkur og ætlar bara að vaða áfram eins og það kemst og fer svo að kjökra eins og móðgaðir ömmuprestar ef það fær mótstöðu í sínu barnaníði.
Þórði Ingvarssyni hefur sömuleiðis verið tíðrætt um barnaníð í tengslum við presta, einstaka nafngreinda fjölmiðlamenn, nafngreindan upplýsingafulltrúa stórfyrirtækis á Íslandi og jafnvel þá sem standa að einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur á bloggvef sínum Anarkóbóhedónistinn Þórður Ingvarsson: Vefbók BlogDodd. Í greininni „Ég ætla að vísítera eitthvað helvíti“, sem birtist á bloggvefnum 23. ágúst 2007, spyr Þórður t.d. um Karl Sigurbjörnsson biskup: „Pedófílar hann barnaefni?“ Rúmum tveimur árum síðar, 24. september 2009, birtir Þórður síðan minningargreinina „Sirka 1 ár liðið…“ í tilefni þess að eitt ár var þá liðið frá andláti Sigurbjörns Einarssonar biskups en hluti hennar felst í leikþætti þar sem lýst er í smáatriðum ofbeldiskynlífssambandi hans á andlátsstundinni við son sinn Karl biskup. Þar er því haldið fram að Sigurbjörn hafi misnotað son sinn frá barnæsku.
Kári Svan Rafnsson hefur skrifað töluvert um þessi efni líka. Í umræðum á vef Vantrúar 2. ágúst 2004 segir hann:
Það mætti kalla þessa presta andlega barnaníðinga að mínu mati.
Nokkrum árum síðar, 5. júní 2007, skrifar Kári Svan á ytra spjallborði Vantrúar:
Trú er hrein heimska, þar sem að nota trú til að skilja veruleikan jafngildir að fara í þekkingafræðilegar ógöngur. Ég myndi vilja taka hart á slíkri innrætingu ófullveðja einstaklinga. Trúarinnræting myndi tilheyra sama flokki og barnaníð. Barnavernaryfirvöld gætu tekið barnið af slíkum foreldrum. Alveg eins og það gerir núna við foreldra sem beita barni sínu ofbeldi.
Magnús S. Magnússon notar víða hugtök á borð við „barnaníð“ og „barnaníðingar“ í skrifum sínum gegn trú og trúarbrögðum. Á Facebook síðu sinni 30. nóvember 2014 segir hann t.d.:
Ég kalla þá sem boða börnum hindurvitni og skerða með því þroskamöguleika þeirra og skilning á tilverunni stórkostlega, barnaníðinga, sé það gert sem trúmang.
Í Facebook athugasemd undir frétt hjá DV 19. desember 2013 varar Magnús foreldra við mér á þeirri forsendu að ég sé börnum skaðlegur vegna starfa minna hjá háskólanum og því beri að forða þeim frá mér. Þetta skrifar Magnús sem rannsóknarprófessor í atferlisfræði við HÍ en hann er ósáttur við að ég skuli á grundvelli trúfrelsis og akademískra trúarbragðafræða verja rétt löglegra trúfélaga til að miðla menningarlegri trúarhefð til barna sinna og unglinga. Þessi meiðyrði kærði ég til siðanefndar háskólans (mál nr. 3/2014) en þar var kærunni vísað frá á þeirri forsendu að málið eigi heima hjá dómsstólum. Siðanefndin tók þó um leið fram að hún sæi ekki að Magnús hafi verið að starfa í anda sinna fræða þegar hann lét þau orð falla sem ég kærði hann fyrir.
Má vera að vantrúarfélagar sæki í öllu þessu tíða tali sínu um barnaníð innblástur til þess málflutnings trúarbragðaandstæðingsins Richards Dawkins að miðlun trúar til barna og unglinga sé „child abuse“. Þegar Börkur Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins spyr út í þetta orðfæri vantrúarfélaga í fréttaskýringu sinni „Heilagt stríð Vantrúar“ 4. desember 2011 svarar Matthías Ásgeirsson að „í fyrsta lagi þurfi að skilja á milli þess hvenær menn eru sagðir kynferðislegir barnaníðingar og barnaníðingar hugans“ og í öðru lagi „hvenær verið er að segja hlutina í hálfkæringi og hvenær í alvöru“. Þegar einn gagnrýnandi Vantrúar sneri hins vegar þessu orðfæri upp á Matthías sjálfan og kallaði hann barnaníðing árið 2005 og „pedófíl“ árið 2006 brugðust vantrúarfélagar skiljanlega sárreiðir við. Svona talsmáti er nefnilega alvarlegur.
Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Deila
[/container]
Comments
25 responses to “Vantrú um barnaníð”
Sælir. Þið ættuð ekki að nota orðið barnaníð í þessu samhengi. Barnaníð er nú þegar notað um annan hlut sem er margfalt alvarlegri sem er kynferðisleg misnotkun og líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Meðan þið haldið áfram að nota þetta orð í allt öðru samhengi en það er vanalegast notað þá rennur það fyrr en varir saman við hina fyrri merkingu og það fer að læðast að fólki að þið séuð að tala um kynferðislegt barnaníð innan kirkjunnar sem er mjög alvarleg ásökun. Fólk er mjög gjarnt á að misskilja eða taka hlutina úr samhengi, viljandi sem óviljandi. Væri ekki betra að slá út þetta orð og bara þessa grein yfirhöfuð?
Merkileg þessi árátta sumra fræðimanna að svara ekki athugasemdum beint heldur skrifa nýjar greinar. Ég veit ekki alveg hvaða “fræði” það eru.
Ég vil hvetja lesendur til að lesa grein mína Berjum presta (sem Bjarni Randver vísar ekki á á bloggsíðu minni heldur á vefsafni af einhverri undarlegri ástæðu en er dæmigert fyrir frumlega heimildanotkun hans) og staðfesta að í athugasemd tók ég einmitt fram að mér hefði ekki verið full alvara heldur hefði ég verið að sýna fram á hve reiður ég var. Sennilega vísar BRS ekki á blogg mitt vegna þess að ég hafði bætt slíkum skýringum fremst í greinina (og merkt þannig). Svona falsar BRS umræður og skoðanir mínar ótal sinnum.
Orðin sem ég brást svo harkalega við í grein minni voru þessi:
Þarna skrifaði ríkiskirkjuprestur um börn og lái mér hver sem vill fyrir að reiðast. Á þessum tíma voru börn mín í leikskóla sem ríkiskirkjuprestur heimsótti reglulega og stundaði kristniboð (kenndi börnum m.a. að “tala við gvuð”). Orð mín, skrifuð í reiði, eru að mínu mati ekki nálægt því að vera jafn alvarleg og orð þessa prests.
Ég vil vekja sérstaka athygli á þessari athugasemd, því sem ég var að svara og vinnubrögðum Bjarna Randvers þegar hann klippir orð mín í sundur.
Hér sjáum við klassískt dæmi um aðferðir Bjarna Randvers og ég vil hvetja fræðafólk til að gagnrýna svona falsanir, þetta er fræðasamfélaginu til háðungar og þetta einelti sem ég verð fyrir hér á hugrás er það einnig. Ritstjórn vefsins mætti skoða sinn gang, út á hvað gengur þessi síða eiginlega?
Ég vil svo við þetta bæta að síðar breytti presturinn færslu sinni og fjarlægði ummælin um “heppilega trúgjörn” börn. Það hefur augljóslega fleiri en mér þótt skrif hans gagnrýniverð.
Einnig vil ég setja hér inn alla athugasemd mína um barnaníðið í fyrri grein
Það er nefnilega ekki bara áhugavert að Bjarni Randver notar ófræðilegt hugtak “ótal sinnum” heldur enn athyglisverðara að hann dregur þetta fram í umræðuna á annað borð. Spurningin stendur. Hvað kom þetta umræðunni við? Svarið er augljóst: ekki neitt. Þarna var Bjarni Randver bara að míga í brunninn.
Það er einnig dæmigert fyrir Bjarna Randver að hann segir að þetta séu “langt frá því öll” dæmi um orðanotkun okkar. Hve mikið er eftir? Fram hefur komið að Bjarni Randver er með nokkrar möppur um Vantrú og því dularfullt þegar hann notar svo óljósar magntölur. Af hverju segir hann ekki bara beint út hve mikið er eftir? Ég tel engan vafa á því að hann á öll dæmin til.
Eitt enn:
> Heimili Matthíasar hefur árum saman verið skráð aðsetur félagsins.
Bjarni Randver lætur eins og þetta hafi eitthvað vægi. Svo er ekki. Það vill bara svo til að þegar félagið var lögformlega skráð á sínum tíma var ég gjaldkeri þessi.
Félagið Vantrú hefur ekkert aðsetur. Hvorki á mínu heimili né annars staðar. Aðsetur félagsins er á Vantrú.is, á lokuðu spjallborði.
Það hentar Bjarna Randver ekki að líta þannig á málið.
Vegna skrifa minna hér að ofan sem birtust seint í gærkvöldi, þá vil ég taka það fram að þau skrif eru í raun ætluð félagsskapnum Vantrú ekki Bjarna Randveri. Ég er ekki að setja út á skrif Bjarna Randvers, sem fljótt á litið gæti virst eins og ég væri að gera. Einhverra hluta vegna, fyrir einhver mistök þá lenda þessar setningar á röngum stað í kerfinu og áttu að birtast á vefsíðu Vantrúar. Ég biðst velvirðingar á því ef einhver óþægilegur misskilningur hefur orðið vegna þessa. Kv. ÞG.
Er Bjarni Randver með álíka ummælalista sem ríkiskirkjan hefur notað um Vantrú? Það væri eflaust fróðlegur listi. Ef hann væri til.
Rökræðutaktík vantrúarfélagans Matthíasar Ásgeirssonar felst í því að krefjast svara en kvarta síðan undan þráhyggju viðmælandans og einelti af hans hálfu þegar hann fær rækilega rökstudd svör með fjölda dæma af margra ára tímabili eins og hér fyrir ofan. Svona eru viðbrögð eins helsta forystumanns félagasamtaka sem á annan áratug hafa skrifað hverja greinina og umræðuþráðsfærsluna á fætur annarri gegn hverju því og hverjum þeim sem þau skilgreina sig í baráttu gegn. Magnið af greinaskrifum vantrúarfélaga gegn mér á undanförnum árum er t.d. gríðarlegt og síðurnar um mig á innra spjallborði þeirra skipta þúsundum.
Sá málflutningur Matthíasar er einkennilegur að ég sé að stunda brunnmigu þegar ég vísa í tíð skrif vantrúarfélaga um það sem þeir kalla barnaníð allra þeirra sem miðli trú til barna. Grein mín „Mikilvæg ákvörðun siðanefndar“ sem Matthías gerir þessar athugasemdir við snýst einmitt nákvæmlega um þetta. Vantrúarfélaginn Magnús S. Magnússon, sem ótal sinnum hefur ásakað þá um barnaníð sem miðla trú til barna og unglinga, kemur fram hjá einum helsta fjölmiðli landsins sem rannsóknarprófessor í atferlisfræði við Háskóla Íslands til þess eins að vara foreldra sérstaklega við mér á þeirri forsendu að ég sé börnum skaðlegur. Það gefur augaleið að slíkar ærumeiðingar eru alvarlegar.
Matthías kvartar undan því að ég skuli vísa í heimildir í gegnum Vefsafnið. Ástæðan er einfaldlega sú að þar eru heimildirnar varðveittar en þær geta hæglega horfið af þeim vettvangi sem þær voru upphaflega hýstar á. Hann kvartar ennfremur undan því að ég skuli ekki tilgreina að hann hafi löngu síðar sett inn athugasemd við grein sína „Berjum presta“ frá árinu 2005 þar sem hann tali um það hve reiður hann hafi verið og því hafi hann kosið að bregða fyrir sér þessum orðaleik í titli greinarinnar. Hann dregur hins vegar hvergi í land með ásökunina um barnaníð í þessari athugasemd sinni, sem hann birti ekki fyrr en „mörgum árum seinna“ eins og hann orðar það, nánar til tekið hátt í 6 árum síðar. Ég vísa því í umræður vantrúarfélaga eins og þær hafa birst til fjölda ára og tel nauðsynlegt að þær séu allar skoðaðar í samhengi enda sést þar vel hvers eðlis alvara þeirra er. Athygli vekur að Óli Gneisti Sóleyjarson, sem sömuleiðis er einn af fimm stofnendum Vantrúar, bregst við þessum skrifum Matthíasar um barnaníð með þeim orðum að viðkomandi prestur sé „augljóslega siðlaus andskoti og það ætti að halda honum frá saklausum börnum með öllum ráðum“. Ennfremur vekur það athygli að Matthías skuli játa það hér fyrir ofan að hann telji þessa ásökun sína um barnaníð „ekki nálægt því að vera jafn alvarleg“ og skrif prestsins um miðlun trúar til barna sem eins og allir vita eru „gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus“.
Matthías og félagi hans Hjalti Rúnar Ómarsson, núverandi ritstjóri vefs Vantrúar, vita það að sjálfsögðu mæta vel hvers eðlis það orðfæri er sem vantrúarfélagar beita í baráttu sinni en þeim þykir það bersýnilega óþægilegt þegar það er tekið saman eins og hér fyrir ofan. Guðni Elísson prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ hefur skrifað athyglisverða ritrýnda grein um hvernig vantrúarfélagar bregðast við fræðilegri orðræðugreiningu á skrifum sínum en hún ber heitið „„Britney fokkíng Spears“: Kærur Vantrúar og innihaldsgreining í hugvísindum“. Ég mæli með henni í þessu samhengi.
https://www.academia.edu/10192947/_Britney_fokkíng_Spears_-_Kærur_Vantrúar_og_innihaldsgreining_í_hugvísindum_Ritröð_Guðfræðistofnunar_2_2014_bls._17_31._
>…um það sem þeir kalla barnaníð allra þeirra sem miðli trú til barna.
Nú er augljóst af amk einni tilvitnuninni að þar er klárlega ekki verið að tala um “alla þeirra sem miðla trú til barna”.
>Hryðjuverkamenn hugans og andlegir barnaníðingar. Þeir eru að sönnu til, en fráleitt eru allir trúmenn undir þá sök seldir. Þessi hugtök leyfði ég mér að nota um þá presta sem finnst verjandi að brengla huga ungra barna og sveigja að þeim kolgeggjuðu ranghugmyndum sem trú þeirra heldur á lofti.
Ég efast stórlega um að mikið af þessum mönnum sem þú vitnar í myndu kalla “alla þá sem miðla trú til barna” *barnaníðinga hugans*, oftar en ekki virðist bara verið að tala um presta, og ég leyfi mér að giska á að ásókn þeirra í opinbera skóla (og þá meðal annars börn viðkomandi aðila) hafi einhver áhrif.
Svo er auðvitað góð spurning hvað eiga að kalla það þegar einstaklingar notfæra sér vísvitandi trúgirni barna til að troða ranghugmyndum inn í haus þeirra. Nú hef ég aldrei kallað það “andlegt barnaníð” eða eitthvað álíka (Bjarni, getur kannski kíkt á listann sinn og leiðrétt mig ef það er rangt), en mér finnst ljóst að þarna eru einstaklingar að notfæra sér “heppilega trúgirni” barna til þess að koma ýmsum ranghugmyndum inn í huga þeirra. Það er amk ljótt atferli. Væri “andleg misneyting” gífurðyrði?
Þessu svolítið ótengt, þá langar mig að vita hvort að eintakið af “Svar við kæru Vantrúar” sem ég hef undir höndunum (og er rækilega merkt sem trúnaðargagn) sé það sama og “Svar við kæru Vantrúar” sem Guðni vísar í í grein sinni í ritröð guðfræðistofnunar. Þarf maður að fá nýtt eintak frá þér eða honum til að svara því, eða er eintakið sem ég er með eins og það sem Guðni vísar í í þessari grein?
Orðfæralisti segir voða lítið annað en áráttu og þráhyggju þess sem setur hann saman.
“Ennfremur vekur það athygli að Matthías skuli játa það hér fyrir ofan að hann telji þessa ásökun sína um barnaníð „ekki nálægt því að vera jafn alvarleg“ og skrif prestsins um miðlun trúar til barna sem eins og allir vita eru „gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus“.”
Bjarni Randver, hvað er þetta eiginlega með þig. Af hverju í ósköpunum vitnarðu í þetta með þessum hætti? Upprunalega tilvitnunin er svona:
“Það vill nú svo heppilega til að börn eru gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus.”
Af hverju tekurðu burt það sem reiðin snerist um, “Það vill nú svo heppilega til…”? Hvert er málið með þig að taka einatt aðalatriðin burtu þegar þú vitnar í okkur og láta þar með ummæli okkar virka undarleg? Þetta gerðirðu á glærunum og hefur gert allar götur síðan.
Af hverju ertu ekki heiðarlegur?
Í athugasemd hér fyrir ofan heldur vantrúarfélaginn Matthías Ásgeirsson því fram að félagið Vantrú hafi ekkert annað aðsetur en innra spjallborð félagsmanna. Staðreyndin er hins vegar sú að á vef Vantrúar er póstáritun félagsins sögð stórum feitletruðum stöfum heimilisfang Matthíasar. Svo er enn í dag. Eflaust m.a. þess vegna hefur Matthías löngum verið kallaður „eigandi Vantrúar“ af pistlahöfundinum glettna Greflinum.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20141101030336/http://www.vantru.is/um-vantru/
http://grefillinn.com/vantru-gerir-hreint-fyrir-sinum-dyrum
Aukinheldur hefurðu þann leiða sið að ýkja stórkostlega hlut Vantrúar – sbr. “Magnið af greinaskrifum vantrúarfélaga gegn mér á undanförnum árum er t.d. gríðarlegt og síðurnar um mig á innra spjallborði þeirra skipta þúsundum” – en dregur úr öllu þinn þátt og kirkjunnar í þessari rimmu. Með öðrum orðum: þú ert óheiðarlegur og þ.a.l. lélegur fræðimaður.
Aðalatriðið er þetta: Matthías Ásgeirsson fór fram á það að ég útskýrði hversu oft væri „ótal sinnum“ þegar ég hélt því fram að vantrúarfélagar hefðu „ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð“. Ég varð við beiðni hans í þessari grein hér fyrir ofan. Öll viðbrögð vantrúarfélaga hér og annars staðar í netheimum þar sem þeir gagnrýna þessa grein mína snúast um það að koma sér undan því að ræða efni hennar og beina athyglinni að einhverju allt öðru. Grein mín snýst um það hvernig þeir árum saman hafa notað barnaníðshugtakið í trúarbragðagagnrýni sinni en þeir kvarta í staðinn mjög undan því að ég tali ekki um einhverja allt aðra hluti og saka mig á slíkum forsendum áfram um falsanir og óheiðarleika. Lesendur ættu endilega að kynna sér þau skrif vantrúarfélaga í heild sem ég vísa á víðsvegar í grein minni. Þar sést vel hvers vegna þeir kjósa að tala um barnaníð.
Þess má svo geta að á liðnum árum hef ég ítrekað gagnrýnt fjölda aðila óháð trúarafstöðu fyrir ómálefnalega umfjöllun í trúarefnum. Þar eru þjóðkirkjumenn ekki undanskildir. Í greininni hér fyrir ofan gagnrýni ég auk þess ekki bara vantrúarfélaga fyrir það hvernig þeir beita barnaníðshugtakinu heldur einnig þá sem beita því með sambærilegum hætti gegn þeim sjálfum.
Þeir sem vilja fræðast nánar um þaulskipulagða kæruherferð vantrúarfélaga gegn mér á sínum tíma, sem stóð yfir í samfleytt tvö ár og átta mánuði, geta t.d. lesið um það hér:
https://www.academia.edu/6020719/Ósigur_Vantrúar_Kæruherferðin_gegn_Bjarna_Randveri_Sigurvinssyni_stundakennara_í_HÍ
Og þeir sem vilja kynnast því betur hvernig ég fjalla um vantrúarfélaga og fyrirmyndir þeirra geta m.a. séð það hér:
https://www.academia.edu/6017694/Brautryðjandinn_Helgi_Hóseasson_Áhrif_mótmælanda_Íslands_á_aðgerðarsinna_í_þágu_guðleysis
Og hvað kemur þetta heimilisfang málinu við, Bjarni? Geturðu útskýrt það? Hvað ertu að reyna segja?
Og hvenær á að fjalla um sjálft félagið?
Þetta tal okkar um barnaníð er non-issue. Það er enginn að reyna að sverja það af sér að hafa notað það hugtak í greinaskrifum og umræðunni, jafnvel ítrekað. Það að þú skulir gera þetta að einhverju tilefni til greinaskrifa, einhverja litla athugasemd Matta um fyrirbærið “ótal sinnum” sýnir aðeins að þú reynir hvað þú getur að koma höggi á okkur.
Vel má vera að einhverjir hneykslist á því hvað við höfum oft notað orðið barnaníð í ræðu og riti og þá er tilgangi þínum náð. En barnaníð er þetta nú samt (sbr. Galileo; “en hún snýst nú samt).
Ég hef notað hugtakið og ætla að nota það áfram þegar tilefni er til. Það er því af og frá að ég sé eitthvað að reyna að beina athyglinni frá því og umræðunni annað, af því að ég sé eitthvað að skammast mín fyrir þetta. Öðru nær, mér finnst þetta svo mikill tittlingaskítur að ég nenni ekki einu sinni að ræða það.
Aftur á móti finnst mér vert að ræða það þegar þú tekur orð okkar, viljandi eða óviljandi, úr samhengi og lætur ummæli okkar hljóma undarlega með því að færa fókusinn af aðalatriðum yfir á aukaatriði, klippa burt þungamiðju málsgreina og setja það sem minna vægi hefur í öndvegi. Það var eina ástæðan fyrir því að ég sá ástæðu til þess að skrifa athugasemd hér.
Þú svarar ekki spurningum mínum hér að ofan. Þetta sem ég ásaka þig fyrir hér að ofan er miklu alvarlegra mál heldur en ummæli mín og annarra um barnaníð. Þetta snýst um rót þess að við erum yfir höfuð uppá móti þér. Við kvörtuðum í upphafi yfir falsanir á orðum okkar og mér þykir rétt að benda á það þar sem slíkt kemur fyrir. Ég er að afhjúpa þig, Bjarni, sýna þér og öðrum hvað er athugavert við fræðimennsku þina og framsetningu.
Bið forláts á pennaglöpum í síðustu athugasemd, það fórst fyrir að lesa yfir. En þetta skilst vonandi.
> Aðalatriðið er þetta: Matthías Ásgeirsson fór fram á það að ég útskýrði hversu oft væri „ótal sinnum“ þegar ég hélt því fram að vantrúarfélagar hefðu „ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð“.
Fór ég fram á það? Ég spurði einfaldrar spurningar sem þú hefur ekki enn svarað. Eðlilegt fólk hefði einfaldlega svarað athugasemdinni þar sem ég spurði.
> Eflaust m.a. þess vegna hefur Matthías löngum verið kallaður „eigandi Vantrúar“ af pistlahöfundinum glettna Greflinum.
Merkilegt að Bjarni Randver Sigurvinsson, sem vill kalla sig fræðimann og hefur tekið saman mikla lista um orðbragð Vantrúar, vitni í “Grefilinn”, sem heitir reyndar Bergur Ísleifsson.
Hér er (alls ekki tæmandi) samantekt á skrifum þessa manns um mig persónulega og Vantrú. N.b. flest dæmin eru í athugasemdum.
http://www.orvitinn.com/2011/12/08/19.45/
Nú veit ég til þess að Bjarni Randver hefur hrósað Berg fyrir frammistöðuna í rökræðum. Ég vil hvetja hugvísindafólk til að kynna sér allar hliðar umræðunnar. Hluti af því felst í að skoða hverju við í Vantrú erum að bregðast við þegar við tökum sterkt til orða. Það hvernig þessi tiltekni fylgismaður Bjarna Randvers hefur tjáð sig um Vantrú og mig persónulega hlýtur að vera alveg jafn merkilegt rannsóknarefni og viðbrögð mín við slíku níði.
Staðreyndin er að við höfum frá stofnun félagsins oft orðið fyrir grófum árásum og bregðumst harkalega við. Svo mætir “fræðimaðurinn” Bjarni Randver á svæðið og klippir svör okkar út úr umræðunum, oft á vafasaman hátt, og kallar það orðræðugreiningu. Það sjá allir að það er ekki hægt að stunda orðræðugreiningu með því taka bara helming orðræðunnar.
Fullyrðingar um að ég sé „eigandi Vantrúar“ eru barnalegar og ekki vefsíðu sem þessari sæmandi. Ég hef ekki verið í stjórn félagsins í allnokkur ár, er bara “venjulegur” félagsmaður.
Ég er búinn að útskýra þetta með heimilisfangið en BRS (eða Guðni Elísson, ég veit það aldrei) er of mikill fræðimaður til að taka mark á slíku.
Vegna orða Matta hér fyrir ofan þar sem hann kallar mig “fylgismann Bjarna Randvers” vil ég árétta að ég þekkti nákvæmlega ekkert til Bjarna þegar árás Vantrúar á hann hófst á sínum tíma og hafði hafði hvorki hitt hann né talað við hann. Ég og Bjarni höfðum nákvæmlega engin samskipti á meðan á þessari árás Vantrúar á hann stóð og það var ekki fyrr en henni hafði að mestu verið hrundið og ég var svo gott sem hættur afskiptum af málinu að við Bjarni tengdust í gegnum Facebook þar sem við höfum síðan átt í lítillegum orðaskiptum. Enn þann dag í dag höfum við Bjarni ekki hist.
Ég var því ekki “fylgismaður Bjarna”, eins og Matti vill greinilega láta fólk halda með orðum sínum hér fyrir ofan. Ástæða þess að ég blandaði mér í málið á sínum tíma byggðist eingöngu á því að mér blöskruðu gjörsamlega hinar glórulausu og illgjörnu árásir sem Vantrú stóð fyrir á hendur manni sem hafði bersýnilega ekkert gert þeim eða af sér á nokkurn hátt. Þetta hafði ég oft séð þá í Vantrú gera áður, en aldrei samt af slíku skipulögðu offorsi, illsku og hatri og í tilfelli Bjarna. Mín afskipti tengdust sem sagt Bjarna ekkert persónulega og ég hefði brugðist við á sama hátt, sama um hvern hefði verið að ræða sem Vantrúarhópurinn réðst á, eins og ég hafði reyndar oft gert áður, t.d. þegar þeir réðust á Gylfa Gylfason í Símabæ. Hann þekkti ég heldur ekki neitt þegar sú árás hófst en blöskraði gjörsamlega árásir Matta og félaga hans í Vantrú á hann og fyrirtæki hans, sér í lagi þegar þeir kættust mjög og hreyktu sér yfir því að vera komnir með níð sitt um Símabæ efst á leitarsíðu Google ef nafni fyrirtækisins væri slegið inn. Það fannst Matta og félögum mikill “sigur”, en Gylfi hafði leyft sér eins og fleiri að gagnrýna Vantrú og árásargirni þeirra og því fannst þeim liggja beinast við að ráðast að lífsafkomu hans, rétt eins og í tilfelli Bjarna. Sú framkoma Vantrúarhópsins gekk gjörsamlega fram af mér, enda á hún ekkert skylt við þá yfirlýstu stefnu þeirra að “berjast gegn hindurvitnum”.
Ég sé einnig að Matti vísar hér fyrir ofan í eigin þráð á Örvitanum (http://www.orvitinn.com/2011/12/08/19.45/) sem hann stofnaði 8. ágúst 2011 og tileinkaði mér. Menn geta að sjálfsögðu lesið þann þráð í dag og áttað sig að hluta til á samskiptum okkar Matta, sem þar opinberar einnig heigulskap sinn og algjöra lítilmennsku þegar hann meinar mér að lokum að setja inn athugasemdir í þráðinn og svara fyrir mig þrátt fyrir að þráðurinn sé eingöngu um mig. Þetta vekur mikla ánægju og kátínu félaga hans í Vantrú, t.d. þeirra Þórðar og Hjalta sem skrifa hér fyrir ofan, sem nota báðir tækifærið þegar mér er meinað að svara fyrir mig til að níða mig. Það er ekki af ástæðulausu að ég hef kallað þessa menn hýenur.
Ég ítreka áskorun minna til fræðimanna á hugvísindasviði að þeir kynni sér orðræðuna alla. Bjarni Randver hefur á Facebook síðu sinni hrósað Berg Ísleifssyni sérstaklega fyrir frammistöðuna í rökræðum við vantrúarsinna. Það er því engan vegin fært í stílinn þegar Bergur er sagður fylgismaður hans (og öfugt).
Alvöru “orðræðugreining” verður varla stunduð með því að láta eins og einungis ein hlið umræðunnar hafi átt sér stað – eins og Bjarni Randver og Guðni Elísson hafa gerst ítrekað sekir um.
Fræðimenn á hugvísindasviði mættu t.d. gjarnan íhuga af hverju Bjarni Randver dregur hér fram einhverjar dylgjur Bergs Ísleifssonar um að ég sé “eigandi Vantrúar”? Hvað hefur það með málið að gera?
Tal Bergs um ritskoðun er beinlínis bjánalegt. Ég hvet fólk til að kynna sér einfaldlega umræðuna.
Það er dálítið háð duttlungum ritstjórnar hvort athugasemdir birtast eða ekki.
> “Ástæður mínar fyrir einarðri andstöðu minni við Vantrú er að þessi félagsskapur er eitur í samfélaginu, samfélagsglegt graftarkýli, Ku Klux Klan Íslands, félagsskapur sem kemur illu til leiðar og elur á hatri og heift, félagskapur sem vinnur markvisst að því að koma höggi á aðra og níða fólk, félag sem kennir ungu fólki að það sé allt í lagi að ráðast hvert í sínu lagi og öll saman á þá sem hafa aðra lífsskoðun en Vantrú stendur fyrir eða eru ekki sammála þeim sem eru í þessum félagsskap.”
Bergur Ísleifsson um Vantrú á bloggsíðu Svans Gísla Þorkelssonar, við greinina Broskarlarnir í Vantrú, birt 7.12.2011 (upp á menningarlæsi að gera, þá er þessi vísun mín svokallað “háð” sem beinist að Bjarna Randver)
Ég rifja upp að Bergur Ísleifsson fékk sérstakt hrós frá Bjarna Randver fyrir frammistöðu sína í rökræðum um málið. Það væri því mjög gott að fá á hreint frá Bjarna Randver hvort hann tekur undir með Berg Ísleifs (sem hann hefur þegar vitnað í hér máli sínu til stuðnings) um það hvort Vantrú sé “Ku Klux Klan Íslands” og sé “félagsskapur sem kemur illu til leiðar og elur á hatri og heift”.
Um reynslu mína af Matthíasi Ásgeirssyni og félögum hans í Vantrú má lesa í þessari ítarlegu úttekt Guðna Elíssonar prófessors hér fyrir neðan en hún birtist upphaflega í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar. Ég mæli eindregið með því að allir áhugasamir lesi hana. Þeir geta þá sjálfir lagt mat á það sem Matthías spyr um hér fyrir ofan.
https://www.academia.edu/11290859/Fúsk_fáfræði_fordómar_Vantrú_Háskóli_Íslands_og_akademísk_ábyrgð_Ritið_3_2014_bls._135_189
Bjarni Randver svarar ekki einfaldri spurningu og því ekki hægt að draga aðra ályktun en að hann taki undir með Berg Ísleifs (sem hann dró inn í umræðuna hér og hefur hrósað fyrir frammistöðuna í “rökræðum” á Facebook síðu sinni).
Ég vil því enn og aftur hvetja fræðimenn við Hugvísindasvið til að endurskoða skrif Bjarna Randvers og Guðna Elíssonar um “orðræðuna” í því ljósi að það sem Bjarni gagnrýnir Vantrú fyrir hrósar hann öðrum fyrir í næstu andrá.
Ég veit ekki hvort slíkt telst fræðilegt á Hugvísindasviði en í almennu máli er slíkt yfirleitt kallað “hræsni”.
Þú semsagt tekur undir orð Bergs um að Vantrú sé “Ku Klux Klan Íslands”. Það er nú gott að vita. Nú þarf maður ekki að lesa stafkrók eftir þig eða Guðna (eða Berg) aftur þegar kemur að Vantrú.