[container]
Salurinn í Silfurbergi var þéttsetinn þegar bandaríski rithöfundurinn Amy Tan steig á svið föstudagskvöldið 19. september. Fyrirlesturinn var hluti af árlegri, alþjóðlegri ráðstefnu sem kallast Art in Translation og var haldin 18.-20. september. Amy Tan hefur skrifað fjölda bóka og þar af hafa fjórar verið þýddar á íslensku. Þekktasta bók hennar Leikur hlæjandi láns (The Joy Luck Club) var nýlega gefin út í þriðju og endurskoðaðri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar.Amy byrjaði á því að tala um fegurð Íslands og hvernig landslagið hefur vakið með henni myndir og myndlíkingar. „Þetta er land umbreytinga,“ sagði hún. Þá vék hún að ferli sínum sem höfundur og afar skrautlegri fjölskyldusögu. Móðirin var mikilvægur þráður í lífsmunstrinu. Inn í frásögnina blandaðist líka saga móðurömmunnar og örlög hennar. Sjálfsvíg móðurömmunnar, sjálfsmorðhótanir og sjálfsvígstilraunir móðurinnar voru meðal þess bar á góma. Móðir Amyar hafði mátt þola margt, meðal annars þurfti hún að skilja þrjár dætur eftir í Kína þegar hún flutti til Bandaríkjanna. Sem ung stúlka skildi Amy ekki viðbrögð, áráttur og ótta móður sinnar en smám saman, þegar árin færðust yfir, fékk hún upplýsingar um þann bakgrunn sem gat skýrt hegðun hennar og varpað ljósi á atburði og afleiðingar þeirra. Hún rakti lífshlaup sitt fram að 16 ára aldri og lýsti meðal annars í smáatriðum fyrsta kærastanum og afdrifaríkum afskiptum móðurinnar af því sambandi.
Í lokin fjallaði hún um sýn sína á skáldskapinn og starf sitt sem rithöfundur. Hún nýtir upplifun sína og tilfinningar í skrifunum þó að persónurnar í bókunum séu ekki hún sjálf. Að hennar sögn skrifar maður ekki til að sigrast á ótta eða áföllum heldur til að endurupplifa erfiðar tilfinningar, til að taka í höndina á hræddu 6 ára stelpunni og bera kennsl á tilfinningar hennar og ótta. Formæður Amy Tan höfðu ekki rödd en hún notar sína eigin til að gefa þeim mál.
Í fyrirlestrinum dvaldi Amy lengi við einstök atriði úr lífshlaupi sínu. Gaman hefði verið að fá að vita meira um vinnulag hennar, sköpunarferlið og skrifin. Undir lokin fjallaði hún þó af mikilli natni og djúpu innsæi um sköpunarþáttinn en umfjöllun um þann þátt hefði mátt byrja fyrr og standa lengur. Í blálokin kom þessi mikilvæga setninga: „Þess vegna er ég rithöfundur,“ og þá þjappaðist allt efnið saman sem svar við þessari mikilvægu spurningu.
Í framhaldi af framsögu Amy Tan fengu viðstaddir að varpa fram spurningum. Amy steig frá púltinu og færði sig nær áhorfendum. Meðal annars var spurt um þátt dauðans í verkum hennar og hvort hún væri að koma í veg fyrir að sögur glötuðust. Amy svaraði og sagði að hún skrifar til að minnast eigin tilfinninga og muna viss andartök úr eigin lífi því þegar eitthvað gleymist þá deyr það og er ekki lengur til. Önnur skemmtileg spurning úr salnum hljómaði svona: „Ef þú værir ekki rithöfundur, hvað værir þú þá?“ Þessu átti Amy auðvelt með að svara, tónskáld. Hún sló í því samhengi á létta strengi og sagði frá hljómsveitinni sinni Rock Bottom Remainders þar sem þekktir bandarískir rithöfundar koma saman, þeirra á meðal Stephen King. Amy er söngkona hljómsveitarinnar og sagðist ekki þurfa sérstaka tónlistarþekkingu til þess heldur væri nóg að láta vaða.
Sagnabrunnur Amy Tan virtist síður en svo tæmdur þegar komið var að lokum. Í upphafi fyrirlestursins lýsti hún því yfir að hún myndi koma aftur til Íslands. Vonandi stendur hún við það; til dæmis væri gaman að sjá hana meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík – eða taka lagið með hljómsveitinni Rock Bottom Remainders á Airwaves eitthvert árið.
Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply