[container] Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er ósáttur við Guðna Elísson prófessor og forseta Íslensku- og menningardeildar HÍ. Frá sumarlokum hefur Egill af og til birt athugasemdir í Facebook umræðuþráðum þar sem hann lýsir furðu sinni á því að Guðni hafi brugðist við skrifum hans um loftslagsmál og áhrifum þrýstihópa á akademískt starf háskóla.
Í fyrra tilfellinu hafði Egill Helgason við fjölmörg tækifæri gagnrýnt svokallaðan hræðsluáróður loftlagsvísindamanna og t.d. líkt rökum þeirra við heimsslitavæntingar kommúnista og nazista. Guðni Elísson birti í framhaldinu nokkrar greinar þar sem Egill kom við sögu þótt hann væri á engan hátt meginviðfangsefnið. Guðni gagnrýndi málflutning Egils og setti hann í samhengi við afneitunarorðræðu samtímans, en sérstaka athygli vekur hvert Egill sækir „þekkingu“ sína og hversu óvarkár hann er í mati á áreiðanleika gagna og heimildarmanna. Fyrsta greinin, „Nú er úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, birtist í Ritinu 2007, önnur greinin, „Þið munuð öll deyja! Lita dómsdagsspár hugmyndir manna um loftslagsvísindi?“, í Lesbók Morgunblaðsins 19. apríl 2008 og þriðja greinin, „Efahyggja og afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, í Ritinu á því ári. Auk þess hafði Guðni brugðist við málflutningi Egils í fáeinum pistlum sem birtust á árunum 2006 til 2008 í Lesbók Morgunblaðsins og hefur verið safnað saman í bók hans Rekferðir sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2011.
Í síðara tilfellinu tók Egill eindregna afstöðu með félaginu Vantrú í þaulskipulagðri kæruherferð vantrúarfélaga gegn mér, en hún stóð yfir í samfleytt tvö ár og átta mánuði upp á hvern einasta dag (frá 4. febrúar 2010 til 4. október 2012) vegna námskeiðsins Nýtrúarhreyfingar sem ég kenndi haustmisserið 2009 við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Alls var um að ræða fimm kærur, en öll kærumálin vann ég með ótvíræðum hætti og lauk málinu endanlega þegar sérskipuð Siðanefnd HÍ úrskurðaði öll kæruatriði Vantrúar á hendur mér með öllu tilefnislaus 4. október 2012.
Í 4. hefti Tímarits Máls og menningar 2012 birti Guðni Elísson greinina „Í heimi getgátunnar: Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill Helgason“, þar sem hann ræddi m.a. aðkomu Egils að málinu. Þegar Guðni færði þessa grein sína síðar inn á netið, hlóðu á annað þúsund manns henni niður á aðeins fjórum dögum. Eins og búast mátti við reyndist Egill ekki sáttur við athyglina sem greinin fékk, en framarlega á löngum umræðuþræði um málið hjá Ólafi Tryggva Magnússyni á Facebook bregst hann við með eftirfarandi fjórum færslum:
Er það háskólakennari sem er að setja saman þessa löngu steypu um eitthvað sem hefur birst í athugsemdakerfum bloggs fyrir lifandis löngu? Hefur maðurinn ekkert þarfara að gera? Guðni þessi hefur reyndar lengi verið með mig á heilanum. 31. ágúst kl. 15:16.
Ég tengist málinu ekki neitt nema ég skrifaði litla bloggfærslu sem verður Guðna tilefni til ógurlegra langra upprifjana á einhverjum samskiptum sem ég og Vantrúarmenn áttum árið sautjánhundruð og súrkál. Þetta er fjarskalega lítilfjörlegt, satt að segja, og ég skil ekki í háskólamanninum að standa í þessu. 31. ágúst kl. 17:05.
Ég held þetta sé þriðja stóra greinin sem Guðni skrifar um einhverjar bloggfærslur hjá mér, einu sinni var hann algjörlega með það á perunni að ég var eitthvað smávegis að fjalla um loftslagsmál á hátt sem honum líkaði ekki. Mér hefur alltaf fundist þetta stórundarlegt hjá manninum. Og aðkoma mín að þessu Vantrúarmáli var nánast engin, en hann kýs að setja mig þarna í forgrunn. Mér finnst þetta afar kjánalegt hjá manninum. 31. ágúst kl. 17:27.
Eitt ráðið væri auðvitað að hætta að kenna guðfræði við Háskólann. Á hún ekki bara heima í prestaskóla? 31. ágúst kl. 22:21.
Rúmum tveimur mánuðum síðar bætir Egill Helgason við nokkrum færslum í umræðuþræði á Facebook hjá Einari Steingrímssyni prófessor sem vísað hafði á gagnrýni vantrúarfélagans Valgarðs Guðjónssonar á grein Guðna, en mikilvægt er að árétta að í pistli sínum bregst Valgarður á engan hátt við raunverulegu efni greinar Guðna heldur snýr öllu á haus og gerir Guðna upp skoðanir. Þar segir Egill:
Guðni þessi er mjög einkennilegur fræðimaður. Hann er sífellt að eltast við fólk sem hefur verið ósammála honum – stundum fyrir löngu síðan – og reynir að ná sér niðri á því í einhvers konar meintum fræðigreinum. Furðulegur fýr – og einhver sá lang- og heiftræknasti sem ég hef vitað. 6. nóvember kl. 20:50.
Þetta er komment á Facebook, ekki yfirlýsing. En hann Guðni minnir mig á mann sem lendir í átökum, svo eru allir búnir að gleyma því, en þá fer hann gagngert yfir götu löngu síðar til að sparka í manninn sem honum var uppsigað við. 6. nóvember kl. 23:24.
Semsagt þegar ég skrifa eitthvað svona á netið er ég að gefa yfirlýsingu – hvað heitir það, statement, Erklärung, déclaration, erklæring. … Þetta er skrítinn heimur. 7. nóvember kl. 00:02.
Loftslagsbreytingar, heyra þær undir bókmenntafræði? 7. nóvember kl. 00:21.
Egill Helgason hefur um langt skeið verið áhrifamesti fjölmiðlamaður og álitsgjafi landsins, jafnt í krafti sjónvarpsþátta sinna sem tíðra bloggskrifa. Þess vegna er ekki við öðru að búast en að fræðimenn taki hugmyndir hans og málflutning til greiningar og kanni vinnubrögð hans sérstaklega, hvers konar heimildir hann nýti sér, hvernig hann fari með þær og hvaða áhrif þrýstihópar og hagsmunasamtök hafi á framsetningu hans og áherslur. Í grein Guðna um vantrúarmálið dregur hann fram tíð átök Egils við félagið á liðnum árum og hvernig vantrúarfélagar sneru honum að lokum á sitt band með markvissum þrýstiaðgerðum sem kenndar eru við Overton-gluggann og byggja á hugmyndum bandaríska frjálshyggjumannsins Josephs P. Overtons. Eins og Guðni bendir á þá snúa þessi fræði „að því að færa viðmiðunarrammana (eða gluggana) í samfélagsumræðunni, gera öfgahugmyndir úr samtímanum ásættanlegar og ásættanleg sjónarmið smám saman óhugsandi, allt eftir markmiðum félagsins“. Fram kemur í máli forystumanna Vantrúar á innra spjallborði félagsins að ekki megi ræða aðferð Overton-gluggans opinberlega. Hún virki best ef enginn utan að komandi átti sig á því að út frá henni sé gengið.
Egill beitti sér mjög gegn mér með bloggskrifum og athugasemdum víðsvegar á Facebook í desember 2011 en þá hafði kæruherferð vantrúarfélaga á hendur mér staðið yfir í rétt tæp tvö ár. „Litla bloggfærslan“ sem Egill vísar til gat af sér 172 ummæli sem mörg eru afar neikvæð í minn garð og er útprentaða skjalið 32 síður. Egill var sjálfur óspar á yfirlýsingar um það sem hann gat sér til um að ég hefði gert, kallaði það t.d. á bloggi sínu lágkúrulegt, ansi hæpið og hálfgerða dellu. Því miður sýna þessi skrif að Egill reyndi ekki á nokkurn hátt að kynna sér málið heldur byggði hann málflutning sinn alfarið á rangfærslum og blekkingum vantrúarfélaga, þar sem grafið var markvisst undan mannorði mínu og akademískum trúverðugleika. T.d. hæddist Egill að mér fyrir að hafa tekið til greiningar algengar fullyrðingar gegn trúarbragðagagnrýni Richards Dawkins og ýmissa fylgismanna hans. Svo sérkennilega vildi til að flestum þeirra skoðana sem Egill hæddi mig fyrir og gerði að mínum hafði hann sjálfur haldið áður fyrr á lofti í átökunum við vantrúarfélaga, m.a. vísanir í margþætt mannréttindabrot á valdatíma kommúnista og nazista, þótt hann vilji síður viðurkenna það núna. Sjálfur fékk ég heldur betur að finna fyrir andúðinni úr ýmsum áttum eftir yfirlýsingar Egils. Þetta er meðal þess sem Guðni Elísson tekur fyrir í grein sinni.
Ekki er að undra að Agli Helgasyni sé brugðið og kalli síðustu grein Guðna „langa steypu“. Hún afhjúpar vinnubrögð fjölmiðlamannsins og hvernig hann sjálfur „sparkar“ (svo notað sé orðalag Egils) ítrekað í mann sem sætti umfangsmikilli rógsherferð og einelti. Enda þótt Egill ráðist ítrekað gegn nafngreindum einstaklingum á opinberum vettvangi án þess að kynna sér málin gefa skrif hans til kynna að hann eigi erfitt með að taka málefnalegri gagnrýni á sjálfan sig og vilji ekki að menningarrýni nái til hans sjálfs.
Það verður að teljast áhyggjuefni að Egill Helgason skuli telja að „auðvitað [beri] að hætta að kenna guðfræði við Háskólann“ því að hún eigi „bara heima í prestaskóla“. Námskeiðin sem ég hef kennt á liðnum árum við HÍ eru að vísu ekki á sviði guðfræði heldur félagsvísinda og tilheyra almennum trúarbragðafræðum. Engu að síður er guðfræðin akademísk fræðigrein rétt eins og aðrar greinar hugvísinda. Enda þótt hún geti vissulega tekið á sig óvísindalega mynd eins og aðrar fræðigreinar á hún sama tilverurétt innan háskólans og bókmenntafræði, menningarfræði, sagnfræði og heimspeki. Hér má jafnframt minna á að guðfræðimenntun segir ekkert um trúarafstöðu viðkomandi fræðimanns. Guðfræðingar geta aðhyllst hvaða trúarbrögð sem er eða hafnað þeim öllum, t.d. á forsendum yfirlýsts trúleysis.
Þótt full ástæða sé til að gagnrýna Egil Helgason fyrir þau skrif sem hér hafa verið til umræðu þýðir það ekki að afskrifa eigi allar skoðanir hans sem ótrúverðugar. Hér er aðeins verið að fara fram á að hann leggi í þá vinnu að nálgast sérhvert mál með gagnrýnu og hlutlægu hugarfari, kanni forsendurnar og vegi og meti þau gögn sem fyrir liggja og trúverðugleika heimildarmanna sinna. Slíkt ber fjölmiðlamönnum að gera hverju sinni.
Meðal þess sem Egill brenndi sig á var að treysta vantrúarfélögum um of en kæruherferð þeirra leiddi ítrekað í ljós hversu óáreiðanlegir þeir voru í sínu yfirlýsta heilaga eineltisstríði. Ekki aðeins voru kæruatriðin eintómar getgátur heldur hikuðu þeir ekki við að beita ítrekað blekkingum og ósannindum, m.a. á bloggvettvangi Egils sjálfs. Dæmi um slík ósannindi er eftirfarandi athugasemd vantrúarfélagans Ernu Magnúsdóttur sem birtist í löngum umræðuhala um mig hjá Agli 26. desember 2011: „Mundu að það voru meðlimir úr umræddu félagi í þessum fyrirlestrum!“ Enginn vantrúarfélagi sat þetta námskeið. Þeir byggðu allt mál sitt á getgátum og sneru inntaki kennslunnar á haus. Frá upphafi reyndust þeir með öllu áhugalausir um raunverulegt inntak kennslustundarinnar og hvaða fræðilegar forsendur lágu til grundvallar. Svo virðist sem heilagt stríð aðgerðarsinnanna í Vantrú hafi blindað gjörvalla afstöðu þeirra til sanngirni, réttlætis og faglegra vinnubragða. Og Egill lét blekkjast.
Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Deila
.
[/container]
Leave a Reply