Á kaffihúsi við aðalgötuna í Imintanout í Marokkó spyrjumst við fyrir um hótel bæjarins. Smækkuð útgáfa af Freddie Mercury kynnir sig með handabandi og segist heita Núrdín. Hann býðst til að sýna okkur skárra hótelið. Við tökum boðinu, ekki síst vegna ágætrar enskukunnáttu hans.

Hótelið var hræðilegt. Núrdín fullyrti að við værum mjög heppin, hitt hótelið væri miklu verra. Óbeðinn bar hann upp töskurnar okkar og sagðist bíða eftir okkur úti því hann ætlaði að sýna okkur bæinn.Við gengum frá dótinu okkar, horfðum á skítugar gardínurnar flaksast yfir götóttum dýnum. Engin sængurver, bara þunglyktandi flísteppi og ryk. Þetta gat ekki versnað svo við kýldum á kvöldgöngu með Núrdín.

Hann var ræðinn og skemmtilegur og bauð okkur að spyrja sig um hvaðeina sem við vildum. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og hófum spurningaflóðið.

Núrdín er 35 ára og býr einn, hann á eina eldri systur en foreldrar þeirra eru látnir. Í Imintanout búa 25.000 Berbar og Núrdín fullyrðir að ráðamenn, sem hann kallar mafíuna, hafi lengi reynt að útrýma tungumáli Berba. Nánast allir íbúarnir eru fæddir og uppaldir í þorpinu. Fátækt er mikil eins og víðast hvar í öðrum landshlutum en það er kónginum að kenna, hann er langversti mafíósinn. Svo er hann líka hommi, bætti Núrdín við og glotti.

Það síðastnefnda leiddi til athyglisverðra samræðna um samkynhneigð, við sögðum honum frá Jóhönnu okkar, forsætisráðherra og að það þætti ekki fréttamatur á Íslandi að hún væri lesbía. Núrdín sagði að í Marokkó færi fólk í fimm ára fangelsi fyrir samkynhneigð og missti vegabréfið sitt fyrir lífstíð. En það á reyndar við um alla sem sitja inni í eitt ár eða lengur. Við ræddum lengi um réttindi fólks í heiminum öllum og okkur var hætt að lítast á blikuna varðandi réttarfar og meðferð stjórnvalda á þegnum sínum. Fólk er í raun ekki frjálst ferða sinna og í einhverskonar stofufangelsi í heimalandi sínu, kemst ekkert nema bæla niður langanir sínar, þrár og skoðanir. Núrdín fullyrti að stutt væri í byltingu í Marokkó.

Daginn eftir bauð Núrdín okkur heim til sín í hádegismat. Heimili hans er fátæklegt en hreint og snyrtilegt og maturinn bragðaðist vel. Eftir mat fórum við í göngutúr. Krakkar léku sér á götunni og ég hugsaði með mér að það væri gott, þeirra vegna, að þau skildu ekki í hverskonar einræðisríki og fangelsi þau byggju. Ég bað Núrdín að taka myndir af þeim fyrir mig af því að hann þekkti þau. Ekkert mál, sagði hann og kallaði á krakkana, flest með nafni. En þau neituðu honum ákveðin um myndir á mína myndavél. Eftir að hafa rætt við þau stutta stund, útskýrði Núrdín fyrir okkur að foreldrar barnanna hefðu bannað þeim að leyfa útlendingum að taka myndir af þeim. Útlendingarnir geta verið Bandaríkjamenn og þeir drepa börn eins og þau. Við vorum eitt stórt spurningarmerki. Hann sagði að fjölskyldur horfi saman á fréttir og fréttamyndir í sjónvarpinu, t.d. frá Íran, Afganistan og Gaza og foreldrarnir bölva Ameríkönum í sand og ösku og kenna þeim um ástandið. Börnin sögðu ennfremur að myndir sem fara á netið hverfi þaðan aldrei og því sé öruggast að láta aldrei ná af sér mynd.

Um kvöldið þegar við sátum á götóttum dýnum á skárra hóteli bæjarins veltum við þeirri staðreynd fyrir okkur að innfæddir haldi að við séum bandarísk, komin í þeim erindagjörðum að drepa börnin þeirra. Við, íslensku ríkisborgararnir, sem kröfðumst þess 19. nóvember síðastliðinn fyrir utan bandaríska sendiráðið á Íslandi að Bandaríkjamenn, með Obama í fararbroddi, stöðvuðu morðin á Gaza. Við sem erum alin upp við slagorðin: „Ísland úr Nató, herinn burt“.

Hvernig gat það gerst að við vorum orðin táknmynd fyrir viðbjóðslega stefnu bandarískra stjórnvalda? Við friðarsinnarnir?

Arndís Pétursdóttir,
meistarnemi í almennri bókmenntafræði


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *