Útlendingar í eigin landi

Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Ég gekk Laugaveginn í annað sinn í sumar. Fimmtán ár liðu á milli ferða og óhætt er að segja að talsverðar breytingar hafi orðið á þessum tíma. Menningin að fjallabaki var önnur og meira að segja landslagið var ekki samt, þökk sé m.a. Magna og Móða.

Ferðamönnum hafði bersýnilega fjölgað verulega, það sá maður strax. Þéttsetið var í Landmannalaugum og ljóst að aðstaðan var ekki viðunandi fyrir allan þennan fjölda. Á stígunum í grennd við skálana myndaðist stundum umferðaröngþveiti. Sums staðar höfðu stígarnir breitt úr sér og allvíða höfðu þeir grafist ískyggilega niður. Ástralskir kunningjar okkar, sem gengu Laugaveginn í sumar, höfðu miklar áhyggjur af þessu og töldu brýnt að Íslendingar brygðust við þessum mikla ágangi áður en í óefni væri komið. Því það stefndi í óefni.

Ferðafélag Íslands hefur greinilega reynt að bregðast við aukinni aðsókn með því að auka gistirými og bæta hreinlætisaðstöðu. Við Álftavatn er kominn nýr og betri skáli og í Emstrum hefur orðið til lítil og snotur skálaþyrping. Einnig hefur verið komið upp sturtuklefum sem reyndar önnuðu ekki alltaf eftirspurninni meðan ég var þarna á ferðinni. Áður var það partur af upplifuninni að ganga klístraður alla leið í Þórsmörk, en nú ætlast fólk til að komast í sturtu og gremst ef það tekst ekki.

Það sem vakti mig þó einna helst til umhugsunar var hinn mikli fjöldi erlendra ferðamanna sem var á svæðinu. Ljóst er að vel hefur tekist að markaðssetja Ísland erlendis á undanförnum árum. Nú er svo komið að Íslendingar eru í algjörum minnihluta á þessum slóðum. Við vorum í hóp frá Útivist og hinir ágætu fararstjórar okkar notuðust mest við ensku í ferðinni. Við Íslendingarnir vorum þar með orðin að útlendingum í okkar eigin landi.

Á Íslandi hefur ekki farið fram mikil opinber umræða um áhrif ferðamennsku á menningu okkar. Túrismi virðist frekar meinlaust fyrirbæri enda er þar um að ræða ónauðsynlegar athafnir sem eru til þess ætlaðar að stytta okkur stundir. Samt eru þessar athafnir nátengdar því að vera nútímamaður. Enda er það svo að hundruð þúsunda ferðamanna hafa sín áhrif á staðinn sem þeir horfa á, svo vísað sé til frægrar bókar Johns Urry, The Tourist Gaze. Við segjum gjarnan að glöggt sé gests augað, og það má til sanns vegar færa, en augnaráð ferðalangsins er máttugt og margslungið fyrirbæri sem er háð ýmsum félagslegum og persónulegum þáttum. Ferðalangurinn ber með sér væntingar sem eru ekki síður margslungnar, en oftast býst hann við því að sjá eitthvað óvenjulegt, eitthvað annað en hann er vanur að sjá heima hjá sér. Við þessu reynir ferðaþjónustan að bregðast. Upp úr glatkistum og handröðum er dregið margt af því óvenjulegasta sem íslensk þjóð hefur upp á að bjóða: Björk, drykkjumenning og Landmannalaugar handa yngra fólkinu, söfn, sögur og hákarl handa þeim gráhærðu. Og ósjálfrátt verður til sýning sem mótast af væntingum og viðtökum ferðalangsins. Kryddum söguna aðeins því þannig hljómar hún betur. Fyrr en varir er orðinn til nýr sannleikur sem á ekki endilega mikið skylt við staðreyndir eins og við þekkjum úr Íslendingasögunum.

Ég hef staðið sjálfan mig að því að sviðsetja fyrir útlendinga. Það gerði ég einu sinni þegar svið voru á boðstólum og danskir gestir mynduðu mig við átið. Þá gerði ég mig villimannslegri en vanalega og gleypti meira að segja augað sem ég geri allajafna ekki.

Svo kann að fara að íslensk menning verði að nokkurs konar leiksýningu. Sögur fágast í munnholum, myndir í Photoshop. Að lokum getum við öll orðið að leikurum í þessari sýningu, rétt eins og persónur í frægri smásögu eftir ástralska rithöfundinn Peter Carey, „Amerískir draumar“. Þar segir af íbúum í litlu þorpi sem hefur orðið frægt fyrir það að einn þorpsbúinn bjó til smækkaða mynd af því á hæð fyrir ofan bæinn, eins konar listaverk. Í líkaninu eru íbúarnir sýndir í hinum ýmsu stellingum lífsins, sumum óvæntum. Ferðalangar taka að flykkjast til þorpsins, þeir skoða líkanið og fá sérútbúin kort til að geta leitað að fyrirmyndunum. Þeir koma til sögumanns, sem nýtur vinsælda hjá þeim, en verða fyrir vonbrigðum af því hann hefur elst. Samt biðja þeir hann og félaga hans að stilla sér upp á sama hátt og í líkaninu en kjósa samt frekar eftirmyndina en frummyndina. Þarna tekur eftirmyndin yfir vegna þess að hún uppfyllir væntingar túristans og um leið eru íbúarnir orðnir fangar líkansins.

Við getum alveg gefið okkur að hinn vaxandi fjöldi erlendra gesta á eftir að breyta íslenskri menningu og hefur þegar gert það. Ekki er ólíklegt að við eigum eftir að verða leið á öllum þessum ferðalöngum sem vilja sitt og þola ekki sumt í fari okkar, það getur jafnvel hugsast að við eigum eftir að upplifa þá sem eins konar innrásarher sem gerir okkur að útlendingum í eigin landi, jaðarfólki sem talar skringilegt mál ef það verður þá ekki farið að tala bara ensku eins og leiðsögumennirnir gera svo gjarnan.

En mikið er fallegt á Laugaveginum.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *