Hin fræga smásaga Raymonds Carver, „The Bath“ kom út í smásagnasafninu What We Talk About When We Talk About Love árið 1981. Hún fjallar um ungan dreng sem verður fyrir bíl, foreldra hans og bakara sem þau eiga viðskipti við. Tveimur árum síðar gaf Carver út smásagnasafnið Cathedral og þar er að finna söguna „A Small, Good Thing“ sem fjallar um nákvæmlega sama efni og „The Bath“ en er u.þ.b. fimm sinnum lengri.
Í mörg ár var talið að Carver hefði umsamið „The Bath“, lengt hana og breytt stemningunni í henni. Voru sögurnar stundum birtar hlið við hlið í safnritum til þess að lesendur sæju muninn á naumhyggjuhöfundinum Carver og hinum mýkri og lífsglaðari Carver sem var hættur að drekka. Fyrri sagan er stuttaraleg og hráslagaleg, mikil firring í samskiptum fólks, og sögunni lýkur án þess að sagt sé frá afdrifum drengsins. Í seinni sögunni eru samskipti fólks ánægjulegri og tónninn mildari, við fáum að vita um afdrif drengsins og kynnumst bakaranum. Þótti mörgum sláandi hve mikil áhrif það hefði haft á sagnagerð Carvers að hann skyldi hætta að drekka.
Nú hefur þessu öllu verið snúið við. Í grein í The New Yorker frá árinu 2007 er fjallað um samskipti Carvers við ritstjóra sinn, Gordon Lish. Þar kemur fram að Lish skar sögur Carvers niður við trog áður en þær birtust í What We Talk About When We Talk About Love og lagði til alls konar breytingar á þeim. Í tilfelli áðurnefndra smásagna varð útkoman „The Bath“, þessi hráa naumhyggjusaga sem sýnir hve berskjaldað fólk er í bandarísku samfélagi.
The New Yorker birtir líka kafla úr bréfum sem fóru á milli Carvers og Lish á þessu tímabili. Þar kemur fram að Carver hafi sent Lish bréf í júlí 1980 og beðið hann að stöðva bókina What We Talk About When We Talk About Love. Honum leið illa yfir því að gefa út bók sem væri svo frábrugðin þeirri sem hann hafði skrifað og sýnt vinum sínum, þ.e. meira en helmingi styttri en upprunalega handritið. Hann virðist á barmi taugaáfalls í bréfinu. Lish hlýtur að hafa tekist að tala hann til fyrst bókin kom út í því formi sem Lish vildi hafa á henni – og sló í gegn.
Þegar kemur að útgáfu bókarinnar Cathedral biður Carver ritstjóra sinn vægðar. Hann vilji ekki að hann snikki sögurnar svona mikið til enda sé þessi harða ritstjórn farin að hafa hamlandi áhrif á sig sem höfund. Það fari ekki vel í sig að hugsa til þess að lesandinn sem hann vilji geðjast umfram aðra muni umrita sögurnar ef honum líki þær ekki. Af bréfum að dæma virðist Carver að einhverju leyti hafa fengið sitt fram, þó ekki fyrr en eftir mikið sálarstríð. Alltént birtist þarna sagan „A Small, Good Thing“.
Svo virðist sem Carver hafi verið undir hælnum á Gordon Lish og jafnvel mætti líta svo á að Lish hafi beitt hann ofríki með því að skera sögur hans miskunnarlaust niður til þess að laga þær að ákveðinni bókmenntastefnu. Og við sem héldum svo mörg að Carver væri skólabókardæmi um að „minna væri meira“ þegar kæmi að skáldskap. Og þannig var hann nýttur í rithöfundasmiðjum víða.
Árið 2009 gaf Tess Gallagher, ekkja Carvers, svo út upphaflega handritið að bók Carvers, What We Talk About When We Talk About Love, til að lesendur gætu sjálfir dæmt um það hvort ritstýring Lish væri til bóta eður ei. Ritlistarkennarinn Toby Litt, sem skrifaði um þetta í The Times 26. september 2009, er á því að sögur Carvers hafi stórbatnað í meðförum Lish. Ritstjórinn hafi verið einn af hinum stórkostlegu hljómsveitarstjórum bókmenntanna og mótað þann bókmenntastíl sem Carver varð frægur fyrir. Efnið sem Carver hafi skrifað eftir að hann fékk annan og meðfærilegri ritstjóra sé ágætt en ekki eins grípandi.
Þeir eru einnig til sem telja að Carver hafi náð nýjum hæðum í sögum á borð við „A Small, Good Thing“, þar brjótist hann út úr knöppum og kaldranalegum texta fyrri sagnanna og veiti nýja innsýn í mannlega tilveru.
Ég er á því að báðar séu sögurnar stórkostleg bókmenntaverk. Þær eru ótrúlega ólíkar þó að þær fjalli um sama efnið. Ég hef reyndar verið hrifnari af „A Small, Good Thing“ sem kann að stafa af því að ég las hana á undan „The Bath“ og fannst sú síðarnefnda óttalega snautleg í samanburði. Hvað sem því líður eru þetta tvær sjálfstæðar sögur sem vitna um kosti þess og galla að starfa með afgerandi ritstjóra.
ES. Smásagan „A Small, Good Thing“ heitir „Ekki mikið svo sem en gott” í þýðingu Sigfúsar Bjartmarssonar. Hana er að finna í bókinni Beint af augum sem Bjartur gaf út árið 1996.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply