Einn straumur en fjórar leiðir. Um kristnilíf á Íslandi á 20.öld

[container]

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Ég hef undanfarið verið að móta með mér kenningu um að um og eftir miðja síðustu öld hafi kirkju- og kristnilíf á Íslandi runnið í fjögur mót og að þau séu við lýði enn í dag og móti umræðuna, áherslumun og átök. Þetta eru félagsleg birtingaform kristinnar trúar á Íslandi og kannske engin ástæða til að þröngva þeim í eitt og sama farið eða láta eins og þau séu eins. Þetta eru kjörmyndir (ideal types) sem sjaldan eru finnanlegar alveg hreinræktaðar heldur er um að ræða meira eða minna af ákveðnum einkennum sem hafa tilhneigingu til að mynda þessi módel sem koma skýrast fram í því sem í praktískri guðfræði er nefnt embættis- og kirkjuskilningur. Hvert og eitt hefur þetta módel sérkenni, styrkleika og veikleika.

Fyrsta módelið sem ég kalla hið þjóðkirkjulega og einkennist af frjálslyndi, umburðarlyndi og þjóðlegheitum byggir á gömlum hefðum þar sem megináherslan er á samleið kirkju og þjóðar, kristni og menningar í rúmlega þúsund ár. Presturinn á að vera fulltrúi fólksins (þjóðflokksins) félagslegur og taka þátt í lífi fólksins og vera burðarás í málefnum sveitarinnar (prestakallsins) eins og í gamla daga. Kirkjuleg þjónusta á að ná til allrar þjóðarinnar og samheldni og velferð eru grunngildi og þröskuldurinn inn í þessa kirkju er lágur enda miðar hún við meirihlutann. Þessa línu skilgreindi Þórhallur Bjarnarson biskup vel á prestastefnunni á Þingvöllum árið 1911 og studdist hann þá við þá frjálslyndu guðfræði sem allir þrír prófessorar hinnar nýstofnuðu guðfræðideildar Háskólans aðhylltust. Þessi stefna birtist í ljóma sínum á þúsundáraafmælishátíð kristnitökunnar á Þingvöllum árið 2000 en fékk svolítinn skell vegna dræmrar þátttöku þjóðarinnar, en uppreisn í nýlegri þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meirihlutinn vildi þjóðkirkju í stjórnarskrá.

Svo er það módelið sem ég kalla lágkirkju sem byggir á þeirri vakningu sem varð í KFUM og K um aldamótin 1900 og leggur áherslu almennan prestsdóm og persónulega trúarsannfæringu (píetisma) og játningu og einnig á lútherskar játningar. Þessi stefna hefur verið kölluð heimatrúboð á Norðurlöndunum og hefur hún haft horn í síðu líberalismanns og er tortryggin á veraldarhyggjuna. Hún birtist í Félagi játningatrúrra presta rétt fyrir miðja öldina og fékk vind í seglin frá hluta af karismatísku vakningunni á áttunda áratugnum.

Þá er það hákirkjan sem varð til í litúrgísku vakningunni sem náði til Íslands og kom fram á svokölluðum Hraungerðismótum á fjórða áratugnum. Áherslan þar er á sakramentin og klassísku messuna og embættisguðfræði sem er að ýmsu leyti rómversk kaþólsk. Stundum hafa þeir prestar sem samsama sig þessu módeli verið kallaðir svartstakkar.

Loks er það það sem ég kalla Alkirkju (Pan-Church) þar sem prestsembættið sem slíkt er ekki endilega hátt skrifað og kirkjan sem stofnun ekkert sérstaklega heilög heldur er áherlsan á kærleika og samstöðu um mennskuna. Líkt og í þjóðkirkjumódelinu eru trúarjátningar ekki aðalatriði en málstaður og hugsjónir sem eru almenns eðlis og að vissu leyti pólitískar eru settar á oddinn á vissum tímabilum og yfirskyggja predikunina og umræðu um hlutverk kirkjunnar. Jafnréttishugsjónin er miðlæg og birtist í áherslum á réttindi kvenna, samkynheigðra og minnihlutahópa sem eru ráðandi í umræðunni í samfélaginu eftir atvikum. Þessi stefna er að ýmsu leyti últralíberal og á sér hliðstæður í unitarisma og guðspeki á fyrri hluta 20. aldar og birtist t.d. hjá Matthíasi Jochumssyni og í félagi guðfræðinga og presta sem kenndu sig við tímaritið Strauma árið 1927.

Tengslin milli þessara módela eru athyglisverð og það hvernig málefni og einstaklingar færast milli þeirra, t.d. úr lágkirkjunni yfir í alkirkjuna. Hákirkjan á Íslandi þróaðist t.d. á mjög sérstakan hátt út úr ákveðnum geira lágkirkjunnar og má rekja það til hins sérstæða persónuleika Friðriks Friðrikssonar framkvæmdastjóra KFUM. Þannig má finna mörg dæmi sem eru lýsandi fyrir guðfræðiumræðu og kirkjupólitík fram til dagsins í dag. Einnig má nota þessi módel sem greiningartæki á trúar- og kirkjuleiðtoga og nýjar stefnur og ágreining t.d. á kirkjuþingi.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *