Setjum þessa hugmynd í samhengi við náttúruvernd. Mörg náttúrufyrirbæri falla vel að þeim skilyrðum sem við setjum listaverkum. Jafnan er farið fram á að listverk séu á einhvern hátt einstök og að sama skapi er Esjan einstök. Og flest erum við sammála um að eyðileggja ekki Esjuna. Rétt eins og við pössum vel upp á aldagömul grísk leirker, límum þau jafnvel saman ef þau finnast í pörtum, á meðan þúsund brotnar IKEA-skálar fara í ruslatunnuna á hverjum degi án þess að stakt tár falli á eldhúsgólf heimsins.
Enn fremur eru listverk oftast háð því að hægt sé ramma þau inn. Þá er ég ekki einungis að tala um gyllta viðarramma heldur, í víðari merkingu, að listaverk eru alla jafna afmörkuð á einn eða annan hátt innan sjónsviðs viðtakandans.
En eru til náttúrufyrirbæri sem hafa gildi fyrir okkur en uppfylla ekki þessi skilyrði? Já, t.d. skógar, grunnvatn og loft. Þetta eru ekki beinlínis einstök fyrirbæri og þau rúmast illa innan sjónsviðsins en við pössum samt upp á þau. Rökvísin kemur þeim til bjargar. Við höfum löngum gert okkur grein fyrir nytsemi náttúrunnar og sá eiginleiki hennar gerir það einnig að verkum að við verndum hana. Það er jafnvel auðveldara að tala fyrir verndun náttúrufyrirbæra ef hægt er að færa rök fyrir því að óspjölluð hafi þau einhvern eiginleika sem nýtist manninum beint, annað hvort til þess að lifa eða græða beinharða peninga.
Raunar er ástæða til að hafa áhyggjur af því hversu erfitt það getur verið að sannfæra ýmsa hópa fólks um gildi náttúrufyrirbæra ef þau hafa bara fagurfræðilega eiginleika. Að þau séu einfaldlega einstök. Að þau passi svo haganlega innan sjónsviðsins að þau láti okkur beinlínis líða betur með lífið. Að fegurð einhvers geti haft gildi fyrir okkur óháð peningamiðuðu verðmætamati.
Þegar fólk neyðist til að færa rök fyrir fegurð ýmissa náttúrufyrirbæra frammi fyrir manneskjunum sem skilja bara rökvísu nálgunina á náttúruna, fær það stundum að heyra að verið sé að nota tilfinningarök. Raddblærinn gefur til kynna að það séu annars flokks rök. Þetta orð, tilfinningarök, er sniðugt. Þá er eins og manneskjan sé að færa rök fyrir því að gera eitthvað eins og kona myndi vilja að það væri gert. Að rökin séu ekki sprottinn upp úr þungu höfði karlmannsins heldur hafi þau orðið til í dúnmjúku og tilfinningahlöðnu höfði konunnar. Þetta er nú meira bullið, síðast þegar ég vissi var öll hugsun okkar byggð á tilfinningum og öll rök þannig tilfinningarök. Á bakvið kalt andlit rökvísinnar eru tilfinningar. En þetta er ekki mitt helsta áhyggjuefni. Bara örlítill útúrdúr á leiðinni að þeirri hlið náttúruverndar sem ég hef mestar áhyggjur af.
Mýrin er ekki falleg. Hún er rykkornið á gólfinu fyrir framan Esjuna í sýningarsal höfuðborgarsvæðisins. Hún er blaut, flöt og endalaus. Við sjáum hana ekki fyrr en við höfum óvart stigið út í hana á göngu milli fallegra fjalla og þá bölvum við henni og stígum til baka, því við vitum að betri er krókur en kelda. Allt er betra en kelda. En hvað með rökvísina?! – frussar mýrin. Því miður elsku mýri, þú ert of aumkunarverð til þess að rök geti bjargað þér.
Rökvísi mýrlendisins býr nefnilega ekki í almannavitinu líkt og rökvísi vatnsins og loftsins. Rökvísi mýrarinnar er full af útskýringum: Mýrin er landsvæði sem er vatnssósa og því skapast þar súrefnisfirrtar aðstæður sem fyrirbyggja rotnun lífrænna leifa sem gerir það að verkum að í mýrinni er mikið samansafn næringarefna sem alls kyns aðrar lífverur nýta sér og hún geymir fullt af kolefni sem myndi annars breytast í koltvísýring og auka á hlýnun jarðar auk þess sem vatnið sem rennur í gegnum mýrina er fullt af næringarefnum og þegar það rennur svo út í sjó nýtist það lífverunum þar og mýrin er líka náttúruleg flóðvörn ef hún er við sjávarsíðuna og svo geymir hún líka vatn sem safnast á rigningartímanum og skammtar því út til annarra landsvæða þegar þurrkur skellur á og…
Van Gogh fékk nær aldrei að hengja upp málverk í sýningarsal. Hann seldi nánast engar myndir um ævina. Verk hans öðluðust ekki raunverulegt gildi fyrir heiminum fyrr en að honum látnum. Vonandi tekst okkur að koma auga á gildi mýrlendisins meðan það er enn til.
Leave a Reply