Að skilja matinn frá moðinu

Ég veit ekki hvort ég myndi demba mér í gáma bæjarins og fiska upp fiska gærdagsins. Ég myndi jafnvel ekki telja það upp á marga fiska! Fiskar eru kannski dálítið ógeðfellt dæmi, en ef vel er að gáð þá leynast alls kyns krásir í grænu öskunum. Hreint ekkert ruslfæði.

Einu sinni kom vinur minn í skólann með vínarbrauð handa öllum í bekknum. Hann sló eðlilega í gegn og við hámuðum í okkur dýrindis vínarbrauðin af bestu lyst, klöppuðum honum á bakið og mærðum hann í hástert. Þegar ég aftur á móti  spurði, með fullan munninn, hvar hann hefði fengið svona mikið af vínarbrauði vildi hann ekki segja mér það. Ég fraus ósjálfrátt, kyngdi svo rólega og endurtók spurninguna með jafnaðargeði. Hann viðurkenndi þá að hafa fundið þau í ruslagám fyrir aftan bakarí í grenndinni. Bekkjarsystkini okkar sem nýverið höfðu dansað af gleði með hendur og munna fulla af bakkelsi brugðust nú ókvæða við og reiddust þessum bekkjarbróður okkar. Hvað var hann að spá? Hvernig dirfðist hann að smygla ofan í okkur, grunlausa sakleysingjana, útrunnum mat? Hann tók við öllum skömmunum af einstöku æðruleysi og hélt síðan áfram að vinna.

Sannleikurinn er sá að þessi vínarbrauð voru dagsgömul. Ég hef oft borðað vínarbrauð sem eru dagsgömul. Ég hef meira að segja borðað vínarbrauð sem staðið hafa á eldhúsborðinu mínu í þrjá daga. Vínarbrauðin sem vinur minn bauð bekknum upp á fann hann í bréfpokum efst í gámum sem voru fullir af öðru bakkelsi. Engin notuð dömubindi, engir lýsisafgangar, enginn hrár kjúklingur. Bara bakkelsi. Og þannig er í pottinn búið í mörgum gámum fyrir aftan kjörbúðir og bakarí.

Nýlega birtist grein í íslenskum fjölmiðli þar sem dregin var ályktun, út frá breskri skýrslu, um neysluvenjur Íslendinga.  Samkvæmt henni má gera ráð fyrir að Íslendingar hendi mat fyrir 30 milljarða á ári. Ekki er lengra en fimm ár síðan að samsvarandi frétt birtist þar sem áætluð upphæð var 3,4 milljarðar. Þess ber að geta að hér er einungis átt við heimilissorp. Þetta er ógnvænleg hækkun. Eitthvað þarf að gera til að breyta lífsvenjum og hugarfari Íslendinga.

Það eru ótal leiðir til að stemma stigu við neysluofforsi. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma hér. Ég legg engu að síður til að við hættum að hneykslast á fólki sem borðar upp úr gámum fyrir aftan matvöruverslanir, í stað þess að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Þetta er hrein og bein greiðastarfsemi. Þetta eru einstaklingar í sjálfboðavinnu; launin eru matur sem enginn annar ætlar að borða. Einhverjir kapítalískir kúkalabbar vilja kannski meina að þessir einstaklingar ættu frekar að kaupa bjúgu á tilboði og frosnar pitsur eins og restin af þjóðinni. Ég er ekki með háskólagráðu í hagfræði, en mér finnst samt sem áður út í hött að skapa falska eftirspurn eftir matvælum til þess eins að mata haugana.

Ég tek ofan fyrir þeim sem gera sér mat úr gámarusli. Ég sé enga ástæðu til að amast yfir athæfi þeirra, heldur miklu fremur þeirra sem sækja í annars konar ruslfæði. Það er jú víst þannig að þeir fiska sem róa.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir,
meistarnemi í ritlist.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *