Hef ég verið hér áður?

Bókmennta- og listfræðastofnun hefur gefið út bókina Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur eftir Guðna Elísson og Öldu Björk Valdimarsdóttur. Steinunn Sigurðardóttir er einn eftirtektarverðasti rithöfundur þjóðarinnar, en hún hefur um árabil sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur, auk leikverka fyrir útvarp og sjónvarp. Í þessari mikilvægu bók um skáldlist Steinunnar er athyglinni beint að ýmsum áleitnustu viðfangsefnunum í verkum hennar. Fjallað er um togstreituna í sambandi kynjanna eins og hún brýst fram í eyðandi ástarsamböndum, dregin eru upp viðkvæm en um leið ógnvænleg tengsl manns og náttúru og kvenlegum reynsluheimi lýst, en hann gefur verkunum oft og tíðum aukna íróníska vídd. Skáldskapur Steinunnar er ekki aðeins kannaður í ljósi ráðandi menningarstrauma heldur er jafnframt horft til tilfinningabókmennta átjándu aldar og tregaljóðahefðar, ekki síður en ástar- og vegafrásagna.

Bókin Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur er liður í því verkefni Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands að fjalla um og greina íslenskar samtímabókmenntir. Þegar hafa komið út bækur og greinasöfn um ýmsa lykilhöfunda í íslenskum samtímaskáldskap, þar á meðal Thor Vilhjálmsson, Guðrúnu Helgadóttur, Pétur Gunnarsson, Hallgrím Helgason, Þórberg Þórðarson og Álfrúnu Gunnlaugsdóttur.

Guðni Elísson er prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað greinar um bókmenntir, kvikmyndir og menningarmál, auk þess sem hann hefur ritstýrt fjölda bóka um efnið. Alda Björk Valdimarsdóttir leggur stund á doktorsnám í almennri bókmenntafræði. Hún hefur skrifað jöfnum höndum um kvikmyndir og bókmenntir og sendi frá sér bókina Rithöfundur Íslands. Skáldskaparfræði Hallgríms Helgasonar árið 2008.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *