Ný bók um Guðnýju Halldórsdóttur lítur dagsins ljós næstkomandi fimmtudag í útgáfuhófi Forlagsins á Fiskislóð 39. Bókin ber heitið Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu en að henni unnu sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir og kvikmyndafræðingurinn Guðrún Elsa Bragadóttir. Ég settist niður með þeirri síðarnefndu og spurði út í þetta áhugaverða verk.
Bókin er að sögn Guðrúnar Elsu óvenjuleg ævisaga að því leyti að hún einblínir á feril Guðnýjar og ekki að ástæðulausu. Guðný, eða Duna eins og hún er oftast kölluð, „er afkastamesta kvikmyndagerðarkona okkar Íslendinga.“ Hún hefur leikstýrt fimm myndum í fullri lengd og er hvað þekktust fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndunum Kristnihald undir Jökli, Ungrúin góða og húsið og Veðramót og skrifað handritið fyrir Stellu í orlofi. Að sögn Guðrúnar Elsu lögðu þær Kristín Svava þó ekki mikla áherslu á fræðilega greiningu á kvikmyndunum sjálfum heldur frekar feril Dunu, enda bókinni ætlað að höfða til breiðs lesendahóps. „Það er svo margt við hennar ævi sem er rosalega merkilegt og áhugavert“ segir Guðrún Elsa. Guðný lauk kvikmyndanámi frá London International Film School og aðstoðaði til dæmis við tökur á kvikmyndinni The Gold Diggers sem var tekin að hluta á Íslandi og gerð af hópi kvenna, þ.á.m. hinni þekktu Sally Potter, sem leikstýrði myndinni. Þá stofnaði Guðný ásamt fjórum öðrum konum Kvikmyndafélagið Umba árið 1983 sem var jafnframt fyrsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki stofnað af konum á Íslandi.[1]
„Hún er enginn egóisti“
Kristín Svava hefur þekkt Guðnýju lengi, en hún kynntist henni í gegnum foreldra sína: „Svo hún vissi að hún væri afar töff og skemmtileg kona.“ Guðrún Elsa segir það endurspegla eigin upplifun af Dunu: „Hún er ótrúlega skemmtileg, fyndin og lifandi með ótal margar sögur uppi í erminni.“ Að sögn Guðrúnar þurfti aðeins að sannfæra Guðnýju um að vera viðfang þessarar ævisögu. „Hún er enginn egóisti og eins og margir leikstjórar, meira fyrir að vera fyrir aftan myndavélina en fyrir framan hana, í sviðsljósinu.“ Kristín Svava og Guðrún byrjuðu haustið 2022 að fara í heimsóknir til Guðnýjar í Mosfellssveit og taka viðtöl við hana. Að sögn Guðrúnar er Duna í raun þriðji höfundur bókarinnar. „Hennar persónuleiki gegnsýrir algjörlega textann og við reyndum halda hennar tóni, orðalagi og frásagnarstíl í gegnum bókina.“ Fyrir þeim Kristínu Svövu var efnið því bæði skemmtilegt jafnt því að vera ákaflega mikilvægt enda var eins og Guðrún orðar það „ekkert sjálfsagt fyrir konu á áttunda áratugnum að fara út í það að vinna í kvikmyndum.“
Molotov-kokteill á Langjökli
Bókin stiklar yfir sögu íslenskrar kvikmyndagerðar samhliða því að segja sögu Guðnýjar. „Okkur langaði að skrifa sögu sem myndi líka vera saga af kvikmyndagerð á Íslandi á þessum tíma,“ segir Guðrún Elsa. „Við lögðum áherslu á að fjalla um gerð kvikmyndanna, undirbúning, tökutímabil, eftirvinnslu og viðtökur.“ Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu er uppfull af ljósmyndum frá þessu ferli ásamt myndum úr lífi Dunu. „Það sem mér finnst eiginlega skemmtilegast við þessa bók okkar eru allar ljósmyndirnar sem við fengum bæði frá opinberum aðilum og einkasöfnum.“ Á þessum myndum sést ýmislegt forvitnilegt eins og fólksbíll sem hefur verið umbreytt í „kvikmyndavagn“, jeppi fastur í miðri á og trékofi sem kvikmyndagerðarfólkið er við það að kveikja í með Molotov-kokteil. Guðrún segir aðdraganda Molotov-kokteilsins hafa verið vandræði sem fylgdu tökum á myndinni The Gold Diggers uppi á Langjökli. „Eftir tökur voru nokkur þeirra sem unnu að myndinni svo pirruð á þessu öllu saman að þau kveiktu í kofanum!“ Síðan kom hins vegar í ljós að það þurfti að endurtaka hluta af tökunum og neyddust þau til að endurreisa úr rústunum horn af kofanum. „Það reyndust til myndir af allri atburðarásinni!“ segir Guðrún, en myndaseríuna má sjá í bókinni.
Tvær nætur í rúmi Laxness
Að sögn Guðrúnar Elsu unnu þær Kristín Svava bókina saman, bæði þegar kom að skrifum og heimildavinnu. Hún segir dugnað Kristínar Svövu þó forsendu þess að bókin kom út. „Hún er náttúrulega bara snillingur og ótrúlega vön. Hún kann að skrifa og klára bók.“ Þrátt fyrir að bókaútgáfa geti verið strembin er þó sjaldan að hrakfarir setji hana úr skorðum á jafn dramatískan hátt og kvikmyndirnar. Guðrún Elsa lýsir því að þær Kristín Svava hafi lent í alls konar minni háttar ævintýrum á meðan á skrifum bókarinnar stóð. „Við fórum í hríðarbyl upp á Eyrarbakka, tókum strætó og enduðum svo á því að þurfa að taka leigubíl upp á Selfoss í ógeðslegu veðri því við misstum af tengistrætó.“ Í einni heimsókn sinni til Dunu fengu þær að gista í gömlu vinnurými Dunu, þar sem nú er notaleg gistiaðstaða. „Þau voru þarna að klippa myndir í gamla daga og við fengum að gista þar í tvær nætur. Ég fékk að gista í rúmi Halldórs Laxness. Það var alveg stemning!“
Höfundar bókarinnar og Guðný Halldórsdóttir munu lesa upp úr og árita Dunu: Sögu íslenskrar kvikmyndagerðarkonu í bókabúð Forlagsins næstkomandi fimmtudag 31. október kl. 16:30. Í boði verða léttar veitingar undir völdum tónum úr kvikmyndum Dunu.
Þá má einnig benda áhugasömum á tvo spennandi viðburði til viðbótar af tilefni útkomu bókarinnar:
Upplestur 7. nóvember – Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu.
Kvöldstund með Dunu og Kristínu 7. nóvember – Skilaboð til Söndru!
[1] Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir, Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu (Reykjavík: Forlagið, 2024).
Kolbeinn Rastrick er kvikmyndafræðingur og kvikmyndagagnrýnandi á Rás 1. Auk þess hefur hann unnið á kvikmyndahátíðum eins og RIFF og Stockfish.
Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.