Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu

Harpa Rut Hilmarsdóttir skrifar umfjöllun um nýútkomna barnabók um Listasafn Einars Jónssonar, Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Harpa er með bakgrunn í mannfræði og kennslu en hefur starfað við barnamenningu í rúman áratug. Hún stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

Þann 9. október síðastliðinn kom út ný barnabók sem ber heitið Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Bókin fjallar um sögu listamannsins Einars Jónssonar og konu hans Önnu Marie Mathilde Jørgensen, síðar Jónsson, sem menntuð var í kjólasaum. Bókin er unnin að frumkvæði ÖlmuDísar Kristinsdóttur, safnstjóra Listasafns Einars Jónssonar. Margrét Tryggvadóttir rithöfundur skrifar verkið en þetta er fjórða bókin sem hún skrifar fyrir börn um íslenska listasögu. Linda Ólafsdóttir er myndhöfundur. Þær hafa áður skrifað barnabækur saman og í sitthvoru lagi og eru margverðlaunaðir rithöfundar. Ég fékk þær ÖlmuDís og Margréti í viðtal um tilurð bókarinnar. „Barnabókin er liður í því að opna safnið og vinna með erfiða sögu því það er til skilti í safninu sem á stendur Børn fá ekki aðgang, og þannig var það. Þetta finnst okkur dálítið fyndið í samhengi dagsins í dag en er auðvitað grafalvarlegt um leið,“ segir AlmaDís.

Harpa Rut Hilmarsdóttir skrifar umfjöllun um nýútkomna barnabók um Listasafn Einars Jónssonar, Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum.
Ljósmynd úr safni Listasafns Einars Jónssonar birt með góðfúslegu leyfi. Hér er hún eins og hún birtist í bókinni með samþykki Margrétar Tryggvadóttur.

Einar var menntaður í Danmörku og stóð frammi fyrir þeim vanda að eiga fjölda plássfrekra skúlptúra sem þurftu rými. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út í Evrópu ákváðu Einar og Anna að flytja til Íslands. Bókin segir frá því að hann hafi brugðið á það ráð að gefa íslensku þjóðinni verkin sín með því skilyrði að utan um þau yrði byggt hús eftir teikningum hans. Það tók listamanninn tíma að fá Alþingi til að þiggja verkin í skiptum fyrir safnhúsið en eftir peningasöfnun var húsið byggt samkvæmt óskum listamannsins efst á Skólavörðuholti (bls. 25). Haldið var upp á 100 ára afmæli hússins árið 2023 og barnabókin kemur nú út í kjölfarið af því tilefni.

Einar batt vonir við að húsið hans yrði hluti af svokallaðri ,,háborg íslenskrar menningar“ sem átti að rísa á Skólavörðuholtinu. Háskóli, barnaskóli, stúdentagarðar, söfn og tónlistarhús áttu að tilheyra háborginni (25, sjá einnig Ólafur Rastrick, 2013). Í bókinni er sagt frá þeim væntingum og hvernig þær brugðust allar. Þess í stað voru ruslahaugar, mold og hænur á holtinu. Síðar bættust hermannabraggarnir við sem fátækt fólk flutti í. Þetta var mjög fjarri vonum um virðulegt menningarþorp en þetta fannst þeim hjónum alls ekki sæmandi (Heiða Björk Árnadóttir, 2023).

Fyrsta listasafn landsins sem opið var almenningi í eigin húsnæði

Tilurð safnsins er saga sem tengist pólitík, listasögu, borgarskipulagi auk persónulegrar sögu þeirra hjóna. Safnið er staðsett í þriggja hæða húsi umkringt stórum grónum höggmyndagarði. Á neðri hæðum hússins er safnið, gengið er inn um aðaldyr á móti Hallgrímskirkju. Rými safnsins eru hlaðin gifsstyttum og myndverkum eftir listamanninn sem mörg eru risastór og má ímynda sér að sum séu ógnvekjandi börnum. Hvert sýningarrými er málað í sterkum lit og er listaverkunum raðað upp nánast eins og listamaðurinn skildi við þau en Einar óskaði eftir því í erfðaskrá að gripirnir ættu sér fastan stað (Ólafur Kvaran, 2023).

Safnið er fyrsta listasafn hérlendis sem opnað var almenningi í eigin húsnæði. Þau hjónin ráku það sem eins konar einkasafn í tæp 50 ár. Safnið hýsir vinnustofur myndhöggvarans frá fyrri tíð ásamt heimili Einars og Önnu sem er varðveitt sem slíkt. Farið er upp þröngan hringstiga upp í afar menningarlega íbúð þeirra hjóna sem prýdd er bókum og listaverkum á alla kanta. Þar má meðal annars sjá fjölda útsaumsverka eftir Önnu sem sýna að hún var líka listakona. Þau hjónin voru með sitthvort svefnherbergið hvort fyrir sig með nokkurs konar lokrekkjum. Þegar íbúðin er skoðuð er auðvelt er að sjá þau fyrir sér í heimspekilegum samræðum um myndlist og menningu með kaffi í fallegu stelli og danskar veitingar (32-37).

Svona var bert á Skólavörðuholtinu þegar safnið var tilbúið. Ljósmynd úr safni Listasafns Einars Jónssonar birt með góðfúslegu leyfi.

Skrítnar reglur um rekstur safnsins

Rétt fyrir dauða Einars gáfu þau íslensku þjóðinni öll verkin og safnið. Í erfðaskránni settu þau fram ýmsar kröfur varðandi umgengni á verkunum og rekstur hússins sem ekki samræmast hugmyndum um safnastarf dagsins í dag. Bókin gerir þessar undarlegu reglur að viðfangsefni sínu til að vekja forvitni barna um hvers vegna safnið hafi verið bannað börnum. Þessar reglur voru til dæmis að það mátti ekki auglýsa safnið eða stuðla að aukinni aðsókn með neinum hætti. Það átti að þrífa verkin á um 10 ára fresti og nýta til þess sérstök sérhönnuð tæki. Safnvörðum bar að hafa vakandi augu fyrir gestum sem komu í heimsókn, sérstaklega börnum. Samkvæmt því sem stendur í bókinni á Einar að hafa sagt að börn væru „hálfvilltur lýður“ og þau hjónin töldu fólki hreinlega ekki treystandi til að umgangast verkin af virðingu (48).

Það er ekkert grín að fylgja 100 ára gömlum reglum í nútíma safni. Það hefur þýtt að safnið hefur þurft að fara á svig við flestar reglurnar, eins og þá að banna börn. Ég spurði ÖlmuDís hvort það sé markmið með bókinni að skapa safninu nýja ímynd sem er vingjarnlegri börnum. „Já, klárlega er það einn tilgangur bókarinnar. Við viljum líka horfa til nýlegrar skilgreiningar á söfnum sem leggja mikla áherslu á þátttöku og inngildingu. Saga Önnu, konu Einars, er líka dálítið ósýnileg í safninu en hún var þátttakandi í vinnu hans og rekstri safnsins. Bókin er í raun ástarsaga þeirra Einars og Önnu um leið og hún fjallar um sögu safnsins.“

Frá vinstri má sjá Oddnýju frá Forlaginu, Lindu Ólafsdóttur myndhöfund, Margréti Tryggvadóttur rithöfund, ÖlmuDís Kristinsdóttur safnstjóra og Þóru Sigurbjörnsdóttur sérfræðing á safninu í skoðunarleiðangri við undirbúning bókarinnar.

Í bókinni er fjallað um ólíkar áherslur safnsins í gegnum tíðina. Kápa bókarinnar endurspeglar þetta því á forsíðu má sjá börn í samtímanum, glaðbeitt á leið inn á safnið. Baksíðan hins vegar sýnir gamla tímann, börn hálfpartinn í felum, að leik um vetur í hrjóstrugum garðinum undir vökulum augum þeirra Önnu og Einars sem fylgjast með út um glugga. Þar er skiltið Børn fá ekki aðgang sýnilegt. Innan á kápunni prýðir mynd af fallegu útsaumsverki Önnu og rammar þannig inn bókina. Fjallað er um ólíkan uppvöxt og ævistörf þeirra hjóna nokkurn veginn til jafns og sagt frá mikilvægu hlutverki Önnu í listsköpun og rekstri safnsins. Sá hluti sögunnar hefur ekki farið hátt fyrr en nú.

Börn boðin velkomin

Safnið hefur tekið á móti börnum í skipulögðum heimsóknum í mörg ár en þróar nú þá fræðslustarfsemi frekar. Í tengslum við útgáfu bókarinnar er safnið með áform um aukið samstarf við nágrannaskólana Grænuborg og Austurbæjarskóla. AlmaDís segir að safnið sé hvorki hannað eða mannað til að taka á móti miklum fjölda fólks en samstarf eins og þetta bjóði upp á meiri dýpt: „Það var gerð könnun fyrir safnið og ein af niðurstöðum hennar var að 60,3% aðspurðra af öllu landinu hefur aldrei heimsótt safnið í 101 árs sögu þess. Hins vegar sögðust 72% vera jákvæð gagnvart safninu. Við viljum auðvitað stækka hóp þeirra sem þekkja safnið og þá er góð leið að byrja á að bjóða börnum í nágrannaskólum í heimsókn og í markvisst samstarf. Með því er hægt að vinna með viðfangsefni sem tengjast því sem þau læra hverju sinni eða því sem þau hafa mestan áhuga á. Bæði safnið og börnin gætu notið góðs af slíku samstarfi. Viljann vantar ekki hjá okkur en hömlurnar eru takmarkaður mannafli á safninu.“

Sagan sett í samhengi fyrir börn

Við undirbúning bókarinnar fór Margrét yfir allar tiltækar heimildir um þau hjón og ýmislegt grafið upp og sett í samhengi sem höfðað gæti til barna. Þegar textinn var tilbúinn kom Linda myndhöfundur að verkinu. Hún teiknaði kápu og myndir auk þess sem hún flikkar upp á gamlar formlegar ljósmyndir með því að teikna inn á þær og sprella með texta sem beinir athygli barna að skemmtilegum sjónarhornum. Alexandra Buhl hannar bókina, brýtur um og skapar heildrænt verk úr myndum og máli.

Eins og áður sagði hefur Margrét skrifað fleiri verk um íslenska myndlist fyrir börn. Aðspurð segir Margrét útgáfu barnabóka um myndlist mikilvæga: ,,Ég finn að þetta er ótrúlega þakklátt því það er hefur verið svo mikill skortur á aðgengilegu efni. Við eigum mikið af bókum um listamenn og list en mest af því er mjög fræðilegt. Í barnabókum er þetta svolítið niðursoðið og það nýtist miklu fleirum en börnum. Við verðum í rauninni að búa til undirstöðu sem börn og ungt fólk geta nýtt sér.“

Anna situr hér hjá Einari á meðan hann vinnur. Ljósmynd úr safni Listasafns Einars Jónssonar birtar með góðfúslegu leyfi.

Þarf að setja sig í spor barna

Margt hefur verið skrifað áður um listamanninn Einar Jónsson og það efni er oftast af fræðilegum toga. Margrét ákvað því snemma í ferlinu að það væri meira spennandi að tala um persónuna Einar og samband þeirra hjóna. Hún segir: „Í þessu tilviki vissi ég mikið um Einar og hans list en ekki svo mikið um persónulegt líf hans, Önnu og safnhúsið. Ég las bækurnar sem Einar skrifaði sjálfur og þannig fannst mér ég kynnast honum heilmikið.“

Margrét segir það áskorun í hvert skipti sem skrifað er fyrir svona unga lesendur að finna leiðina að sögunni. „Maður þarf að setja sig í þeirra spor og hugsa hvað er áhugavert í þeirra augum. Mikið af listinni hans Einars er ekki sérlega aðgengileg fyrir börn en annað virkilega áhugavert. Krakkar hafa t.d. áhuga á goðafræði og þá er um að gera að toga í þá spotta. Þau hafa líka áhuga á umhverfinu. Einar var langt á undan sinni samtíð í hugmyndum um borgarskipulag og umhverfið.“

Hún segir jafnframt: „Ég vildi horfa íronískum augum á sögu þeirra Einars og Önnu en samt með hlýju. Það var líka fljótt augljóst að það þyrfti meira en ljósmyndir til að gera úr þessu almennilega bók og þá lá algerlega ljóst fyrir að Linda Ólafsdóttir væri rétta manneskjan í verkið. Hún er sjálf mikill sögumaður, teiknar persónur þannig að maður skynjar baksögu þeirra. Mér finnst hún ná þeim Einari og Önnu svo vel. Þannig að með teikningum hennar næst fram sá andi sem ég tel að hafi hentað þessari bók.“

Væntumþykja gagnvart börnum í verkunum

Þegar ég spyr safnstjórann ÖlmuDís hvort hún telji að þau Einar og Anna væru sátt við útgáfu barnabókar um þau og safnið svarar hún: „Mýtan er dálítið sú að Ásmundur Sveinsson myndhöggvari hafi verið svo barngóður og Einar Jónsson dálítið andstæðan. Það er hins vegar vitað að þau Einar og Anna voru með dagskrá hér inni fyrir fátæk börn á jólunum. Þetta skilti er samt staðreynd sem við erum að vinna með og ég hef oft heyrt sögur af því að ef bolti nágrannakrakka lenti inn í garðinum að þá hafi hann aldrei sést aftur. Þau hjónin voru barnlaus en í listaverkum Einars má sjá mikla væntumþykju gagnvart börnum svo að barnabókin mun vonandi vekja áhuga yngri kynslóða fyrir safninu. Í dag er skiltið sem á stendur að safnið sé bannað börnum falið almenningi í geymslu safnsins.“

Heimildaskrá

Heiða Björk Árnadóttir. (2023). Sýn myndhöggvarans og safnið í samtímanum. Listasafn Einars Jónssonar.

Margrét Tryggvadóttir. (2024). Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Iðunn.

Ólafur Kvaran. (2023). Einar Jónsson:táknheimur og listsögulegt samhengi. Listasafn Einars Jónssonar.

Ólafur Rastrick. (2013). Háborgin: Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar. Háskólaútgáfan.

Viðtal Hörpu Rutar Hilmarsdóttur við Margréti Tryggvadóttur tekið 5. október 2024.

Viðtal Hörpu Rutar Hilmarsdóttur við ÖlmuDís Kristinsdóttur tekið 18. september 2024.

Harpa Rut Hilmarsdóttir skrifar umfjöllun um nýútkomna barnabók um Listasafn Einars Jónssonar, Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Harpa er með bakgrunn í mannfræði og kennslu en hefur starfað við barnamenningu í rúman áratug. Hún stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.