Á Háskóli Íslands að vera góður háskóli?

Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, skrifar um hvað það felur í sér að vera góður háskóli.

Geymum spurninguna í fyrirsögninni og byrjum á annarri: Er Háskóli Íslands góður háskóli? Þessari spurningu er erfitt að svara enda krefst svarið næstum óhjákvæmilega samanburðar við aðra háskóla og háskólar eru yfirleitt stórar og flóknar stofnanir sem sinna margvíslegu hlutverki, s.s. rannsóknum, kennslu og alþjóðlegu samstarfi, jafnvel einhverju menningarlegu hlutverki. Ef til vill gætum við komist að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands þjóni samfélagi sínu vel, óháð öllum samanburði við aðra, og sé í þeim skilningi prýðilegur skóli. Það gæti hann gert með því að annast rannsóknir og fræðastarf sem er íslensku samfélagi og íslenskri menningu mikilvægt; og með því að veita fólki góða menntun sem nýtist samfélaginu vel, bæði atvinnulífinu en ekki síður með því að skila þjóðfélaginu borgurum sem hafa fjölbreytta hæfni til þess að takast á við margvíslegar áskoranir sem þjóðfélag þarf að takast á við. Er það ekki annars hlutverk Háskóla Íslands að þjóna íslensku samfélagi í víðum skilningi? Eða til hvers eru háskólar?

Nýlega birti Háskólinn tilkynningu um hvar hann stæði á erlendum listum yfir bestu háskóla í heimi. Það er líka yfirlýst markmið núverandi ráðherra háskólamála að íslenskir háskólar eigi að vera meðal þeirra bestu í heimi. Líklega eru flestir Íslendingar á einu máli um að það sé þjóðinni mikilvægt að eiga góða háskóla. En er það örugglega verðugt markmið að komast ofar á þessum listum? Er alveg víst að það sé sama markmiðið?

Annar af þessum listum sem reyna að meta gæði háskóla á heimsvísu heitir Shanghai Global Ranking of Academic Subjects eða Shanghai-listinn.[1] Á þessum lista eru háskólar metnir út frá nokkrum þáttum, svo sem gæðum kennslu, gæðum akademískra starfsmanna og rannsóknarafköstum. Það hljómar út af fyrir sig ekki illa. En það getur verið flókið að meta gæði kennslu og rannsókna í háskólum. Á Shanghai-listanum er það einfaldað nokkuð: gæði kennslunnar eru einfaldlega metin út frá fjölda brautskráðra nemenda sem hafa fengið annaðhvort Nóbelsverðlaun eða Fields-orðu í stærðfræði. Þessi þáttur vegur 10% af matinu öllu. Gæði akademískra starfsmanna eru metin með samsvarandi hætti en 20% af mati háskólans byggja á þeim fjölda akademískra starfsmanna sem hafa hlotið Nóbelsverðlaun eða Fields-orðu. Þannig vega Nóbelsverðlaun og Fields-orður alls 30% af heildarmati á gæðum háskóla í þessum samanburði. Aðrir þættir eru fjöldi tilvísana til akademískra skrifa starfsmanna á 21 fræðasviði, sem vegur 20%; fjöldi greina sem er birtur í tímaritunum Science og Nature, sem einnig vegur 20%; fjöldi greina eftir akademíska starfsmenn sem eru skráðar í gagnagrunna um birtar greinar í vísindum, sem gildir 20%; og að lokum meðalframleiðni starfsmanna, sem gildir 10%.

Ljóst er að í matinu er talsverð slagsíða í þágu heilbrigðis-, raun- og félagsvísinda. Birtingar í tveimur tímaritum, sem fjalla um raunvísindi í víðum skilningi, eru teknar út fyrir sviga og metnar sérstaklega. Fræðasviðin þar sem vísanir til skrifa starfsmanna eru taldar, eru aðallega verkfræði, heilbrigðis-, raun- og félagsvísindi en hugvísindi eru ekki tekin með í reikninginn. Og gagnagrunnarnir, sem stuðst er við í mati á framleiðni, hafa sömu slagsíðu. Enda hefur Shanghai-listinn margsinnis verið gagnrýndur fyrir að meta lítils rannsóknir í hugvísindum. Þá er vægi verðlauna óhóflega mikið. Þessi verðlaun eru ekki veitt í öllum fræðigreinum, sem verða þá útundan, en þar að auki eru verðlaun fyrrverandi nemenda lélegur mælikvarði á gæði kennslu, sem eru ekki metin með neinum öðrum hætti og þ.a.l. í raun ekki metin í samanburðinum.

En hvað þýðir þetta fyrir Háskóla Íslands? Það blasir við að Shanghai-listinn er afleitur mælikvarði á gæði kennslu við Háskóla Íslands. Ætli kennsla sé til fyrirmyndar í Sálfræðideild eða Jarðfræðideild við Háskóla Íslands? Ég veit það ekki, en hvorug deildin státar af Nóbelsverðlaunahafa meðal brautskráðra nemenda, þannig að þær fengju þá bara sömu einkunn fyrir kennslu ef þær eru metnar á þessum forsendum. Raunar fengju allar deildir og námsbrautir í Háskóla Íslands sömu einkunn af því að engin þeirra státar af Nóbelsverðlaunahafa meðal fyrrverandi nemenda. Er þá bara enginn munur á kennslu milli deilda og námsbrauta við Háskóla Íslands? Mig grunar að kennsluhættir, námsmat og annað sem viðkemur skipulagi námsins sé með ýmsum hætti í ólíkum deildum Háskólans.

Það er yfirlýst markmið háskólayfirvalda á Íslandi að stefna eigi að því að ná meiri „árangri“ í þessum alþjóðlega samanburði. Ímyndum okkur nú að við legðum niður Íslensku- og menningardeild og kannski líka Deild sagnfræði, heimspeki og fornleifafræði — jafnvel öll hugvísindin. Þá félli niður kennsla í þjóðlegum greinum sem eru íslensku samfélagi mikilvægar, t.d. íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði og sagnfræði, þ.m.t. Íslandssögu, á háskólastigi (nema að því leyti sem þessi fræði eru hluti af kennaranámi á Menntavísindasviði). Rannsóknir á þessum sviðum legðust líka af en það hefði ekki mikil áhrif af því að birtingar fræðilegra ritgerða í íslenskum tímaritum gildir hvort sem er svo að segja ekkert í mati Shanghai-listans. Tugir ef ekki á annað hundrað starfsmanna myndu missa vinnuna og við það sparast þó nokkur launakostnaður. Sparnaðinum af þessari hagræðingu myndum við svo verja í að ráða tvo eða þrjá Nóbelsverðlaunahafa í staðinn, jafnvel fjóra ef við leggjum niður allt Hugvísindasvið — þeir létu kannski til leiðast af háum launum og svo þyrftu þeir ekki einu sinni að kenna því að það dugar að þeir séu á launaskrá. Þeir hefðu sínar skrifstofur í Árnagarði eða Eddu, sem nú stæðu nær tómar, og gætu skrifað þar greinar um hagfræði kannski. Þá myndi Háskóli Íslands koma betur út á Shanghai-listanum. Fjöldi Nóbelsverðlaunahafa á launaskrá gildir heil 20% af einkunn skólans en eins og er fær Háskólinn nákvæmlega engin stig fyrir þennan þátt matsins.

Að sjálfsögðu dytti engum heilvita manni í hug að grípa til þessara ráða til þess að þoka Háskólanum ofar á listann. Þetta er bara leikur að ímyndunaraflinu. Spurningin sem vaknar er aftur á móti sú hvort Háskólinn yrði betri háskóli fyrir vikið og þessi hugarleikfimi okkar dugar til þess að sýna að það er ekki jafnaðarmerki milli þess að komast ofar á listann annars vegar og hins vegar að vera góður háskóli. Háskóli Íslands yrði nefnilega án nokkurs vafa verri háskóli fyrir íslenskt samfélag ef hann sinnti alls ekki rannsóknum og kennslu í íslenskum fræðum og sagnfræði og öðrum skyldum greinum. Ef við legðum niður Hugvísindasvið eins og það leggur sig væri auk þess ekki lengur hægt að læra erlend tungumál á háskólastigi á Íslandi (nema ensku og dönsku í kennaranámi á Menntavísindasviði). Háskóli Íslands er eini háskóli landsins sem sinnir rannsóknum og kennslu í flestum hugvísindum. Háskólinn yrði fyrir vikið fábreyttari skóli og fátækari. Treystir sér einhver til þess að halda því fram í fullri alvöru að þetta væri heillaskref fyrir íslenskt samfélag þótt ávinningurinn væri heljarinnar stökk Háskólans á þessum listum?

Matsþættirnir eru örlítið flóknari á hinum listanum, sem er Times Higher Education World University Rankings, en hér gefst ekki færi á að ræða það nánar.

Það að klifra upp þessa lista jafngildir ekki endilega því að háskólinn verði betri skóli, þótt vitaskuld geti það farið saman að skólinn bæti sig sem skóli og komist aðeins ofar á þessum listum. Aftur á móti gæti of mikil áhersla á „árangur“ á þessum listum hreinlega staðið háskólanum fyrir þrifum við að auka gæði kennslu og rannsókna. Ég hef sjálfur efasemdir um ágæti þess markmiðs að koma Háskóla Íslands nálægt toppi þessara lista. Jafnvel þótt það væri verðugt markmið, þá er ég hræddur um að sé fullkomlega óraunhæft fyrir íslenska háskóla að blanda sér í toppbaráttuna. Og ef það væri mögulegt, þá hef ég enga trú á að boðaðar breytingar á fjármögnun háskólanna væri rétta leiðin til þess að reyna að ná þessu markmiði. En það er efni í annan pistil.

Hvers vegna er ósennilegt að Háskóli Íslands geti keppt við allra bestu háskóla heims? Það má ekki gleyma því að öflugt háskólastarf kostar talsvert. Þeir skólar sem tróna efst á listunum rukka oft himinhá skólagjöld, sem Háskóla Íslands er óheimilt að gera. En það er ekki allt og sumt. Þessir skólar, sem tróna á toppnum, búa líka að gríðarlega öflugum sjóðum. Háskólasjóður Harvard-háskóla árið 2023 nemur rúmlega 50 milljörðum dollara, háskólasjóður Yale-háskóla nemur rúmlega 40 milljörðum dollara, Stanford-háskóli býr að rúmlega 36 milljarða dollara háskólasjóði og Princeton-háskóli að tæplega 36 milljarða dollara sjóði. Síðastnefndi skólinn er ríkasti háskólinn miðað við fjölda nemenda, enda eru bara um 8500 nemendur í skólanum. Til samanburðar eru um 14 þúsund nemendur í Háskóla Íslands og verg landsframleiðsla Íslands er um 30 milljaðrar dollara (27 milljarðar dollara PPP). Það gefur auga leið að erfitt væri að keppa við þetta. Aukinheldur ver Ísland minna fé til háskólastigsins í heild sinni (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu) en flest lönd sem við berum okkur saman við. Þannig bendir t.a.m. Verkfræðingafélag Íslands á það í nýlegri umsögn um tillögu til þingsályktunar að „[ú]tgjöld á hvern ársnema á háskólastigi á Íslandi hafa löngum verið undir meðaltali OECD og langt undir meðaltali Norðurlanda“.[2] Á þetta hefur verið bent árum og áratugum saman.

Ef það er einhvers konar hneisa að á Íslandi sé enginn háskóli „á heimsmælikvarða“ (hvað sem það þýðir), þá gætum við allt eins sagt það sama um þá staðreynd að Íslendingar, sem eru stolt þjóð meðal annarra þjóða, eigi ekki sína eigin geimferðastofnun. Já, Íslendingar eiga enga geimferðastofnun! Hvað ætli slíkt myndi kosta? Nú eru geimferðastofnanir vafalaust mikilvægar mannkyni. En væri þjóðin betur sett að eiga sína eigin geimferðastofnun? Væri það skynsamleg fjárfesting fyrir Ísland? Myndi geimferðastofnun þjóna samfélagi okkar vel? Hvernig þá? Eða væri það kannski ekki tilgangurinn?

Það er löngu tímabært að íslenskt samfélag eigi samtal um háskólana og hlutverk þeirra og fjármögnun. Ég hygg að það sé óþarfi að ræða það hvort við viljum eiga okkar eigin háskóla eða hvort við viljum eiga góða háskóla á Íslandi. Sennilega erum við meira og minna öll sammála um það. En hvað felur það í sér að vera góður háskóli fyrir Ísland? Hvaða fræðum og vísindum á hann að sinna og hvernig á hann að sinna þeim? Á Háskóli Íslands að vera góður háskóli eða á hann að vera „góður“ háskóli?

Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.


[1] Vefur Shanghai-listans hefur slóðina http://www.shanghairanking.com/  Um matsþætti listans má lesa hér.[http://www.shanghairanking.com/methodology/arwu/2023]

[2] „Umsögn Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Mál nr. 50/2023“, sem lesa má hér.