Eru það eyrun? Stór augun? Skrítin hlutföllin? Ég veit ekki hvað það er við asna en mér fer alltaf að líða undarlega þegar ég horfi á þá. Verð hryggur og byrja að vorkenna þeim því asnar líta undantekningalaust út eins og eitthvað hafi misheppnast og þeir verið yfirgefnir. Þeir standa einir og umkomulausir frammi fyrir svipu heimsins. Á innan við viku er ég búinn að sjá tvær stórgóðar kvikmyndir þar sem asnar eru í stórum hlutverkum. Það var ekki með ráðum gert heldur bara tilviljun og ég efast um að ég hefði séð þessar myndir með jafn stuttu millibili hefði ég vitað hvaða áhrif þær ættu eftir að hafa á mig.
Önnur er myndin The Banshees of Inisherin í leikstjórn Martin McDonagh sem gerist árið 1923 á Írlandi og fjallar um það þegar músíkantinn Colm (Brendan Gleeson) ákveður að binda enda á vináttu sína við félagann Pádraic (Colin Farrell). Þegar Pádraic heimtar skýringar segir Colm honum hreint út að hann sé ekki nógu áhugaverður. Hann ætli frekar að eyða tíma sínum í að semja ódauðlega tónlist á fiðluna sína en hlusta á innihaldslaust fjasið í Pádraic. Upphefst þá kostulegt og ansi sárt uppgjör á milli þessara tveggja fyrrverandi vina. En það eitt virðist ekki nóg fyrir hinn sótsvarta höfund McDonagh svo hann lætur Pádraic líka eiga asna, hana Jenny. Hún skiptir hann auðvitað enn meira máli eftir vinslitin við Colm og það fylgja ófá atriði þar sem einmana Pádraic er að faðma ösnuna sína. Það verkar nokkuð stressandi á áhorfandann því í jafn svartri mynd getur bara ekki farið vel fyrir þessu saklausa dýri.
Hin kvikmyndin sem fjallar um asna heitir EO og er sýnd á kvikmyndahátíðinni Stockfish. Hún er eftir hinn ríflega áttræða pólska leikstjóra Jerzy Skolimowski og nú er asninn í aðalhlutverki, ber myndina á bakinu. Þegar við hittum EO er hann sirkusdýr en verndari hans er stúlkan sem er mótleikari hans í sirkusatriðinu. Fljótlega er sirkusinn leystur upp og dýrin tekin af eigendunum. EO fer á vergang og lendir í höndum misgóðra einstaklinga víðsvegar um Pólland og Ítalíu. Um leið og myndin sýnir einhverskonar þverskurð af þessum löndum fjallar hún um dýraníð og dýravernd og varpar fram siðferðislegum spurningum um meðferð dýra og stigskipun þeirra. Eftirminnilegt atriði er þegar verið er að sápuþvo hvítan gæðing en EO hírist skítugur og afskiptur á næsta stalli. Í gegnum myndina birtist asninn eins og umkomuleysið og sakleysið uppmálað og er uppspretta sársaukans sem nóg er af í þessari mynd. Í lokin er eins og áhorfandinn sé beðinn afsökunar á öllu saman þegar það birtist texti á þá leið að engin dýr hafi skaðast við gerð myndarinnar. Það er vissulega huggandi en engu að síður gengur maður nokkuð bugaður út.
Ég veit ekki hvað það er við asna – svo ég spurði bara ChatGPT. Á nokkrum sekúndum rakti gervigreindin hvernig asnar í skáldskap standa fyrir t.d. þrjósku, auðmýkt, einfaldleika, strit og kjánaskap, kristna trú og komu Jesúbarnsins til Jerúsalem. Og þá fyrst skildi ég af hverju mér verður svona innanbrjósts framan við asna, það eru ekki hlutföllin eða stóru eyrun, mér líður eins og ég sé að horfa í spegil. Asninn er ég. Og kannski við öll.
En hvað um allan þennan sársauka í bæði EO og Banshees of Inisherin – af hverju erum við stöðugt að kaupa okkur inn á hann? Í kvikmyndum, leikhúsi og bókmenntum. Það er ekki eins og hann vanti í fréttatímann og lífið sjálft. Af hverju ekki að skella sér á bjarta kómedíu í Laugarásbíói og hlæja frekar en að klára uppvaskið og kvöldfréttir og drífa sig svo enn eina ferðina á listræna kvikmynd þar sem sársaukinn verður örugglega til umfjöllunar og illa mun fara í lokin. Þótt skiptingin í hámenningu og lágmenningu sé horfin virðist hið „listræna“ enn búa að mestu í sársaukanum frekar en gleðinni og húmornum. Ég man varla eftir að brosað á kvikmyndahátíð og hvað þá hlegið. Og ég er heldur ekki viss um að ég vilji það. Einhvernveginn jafnast ekkert á við að sitja þungbrýndur en í öruggri fjarlægð framan við sársaukann í dimmum bíósal.
Þegar ég spurði ChatGPT út í fleiri þekkta asna í bókmenntum og kvikmyndum taldi hún upp Benjamín úr Animal Farm, Balthazar úr mynd Robert Bresson (sem EO byggir á) og einhverja fleiri en minntist ekkert á sjálfan Rósinant. Þegar ég spurði hana hvort hún hefði ekki lesið Don Kíkóta sá ég ChatGPT roðna í fyrsta sinn, síðan baðst hún afsökunar og sagðist hafa gleymt honum.
Huldar Breiðfjörð, lektor í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.