Sem eina kvenpersóna myndarinnar er ljóst að Penelope er ungfrúin sem vísað er til í titlinum, en ólíkt gömlu klisjunni þá er hún langt frá því að vera ósjálfbjarga og tekur illa í björgunaraðgerð Samuels. Forsendan er áhugaverð og hugsanlega hefðu femínísku skilaboðin sem grunnhugmyndin býður upp á komist betur til skila í höndum annarra en Zellnerbræðra.
Damsel skiptist í raun í tvo ólíka hluta. Fyrri hlutinn er tileinkaður kúrekaímyndinni, sem myndbirtist í Samuel, og síðari hlutinn er helgaður konunni, sem birtist í Penelope. Hvor hluti fyrir sig tekur fyrir úrelt kynjahlutverk úr vestranum og snýr þeim á hvolf. Í tilfelli kúrekans tekst það nokkuð vel. Samuel passar illa inn í ýkta karlmennskumótið sem karlpersónur vestrans verða að fylla upp í. Hann er klaufalegur, viðkvæmur og þolir illa viskí. Samuel birtist sem rómantískur sveimhugi sem er uppteknari af því að dreyma um bónorð og giftingu og máta nýju klæðin sín en af því að elta uppi lögbrjóta og liggja með vændiskonum.

Rómantíkin um fjarlæga ást er þó fljótlega afhjúpuð sem grunnhygginn losti og kristallast afhjúpunin í atriði sem sýnir Samuel líta löngunaraugum á ljósmynd af Penelope í hálsfesti sínu. Í fyrstu virðist Samuel horfa dreyminn á myndina og áhorfandi ímyndar sér að hann sé að hugsa um það indæla líf sem þau gætu átt saman. Þá víkkar skotið og í ljós kemur að Samuel er að fróa sér yfir myndinni. Í hinu nýja samhengi reynist hálfestið tákna hlutgervingu konunnar og ástríkt augnaráðið umbreytist í hið karllæga sjónmál. Samuel er heltekinn af ímynd Penelope en sambandið sem hann ímyndar sér að sé til staðar er ekki til, það samanstendur alfarið af óendurgoldnum losta hans. Hann hefur talið sér trú um að ást hans á Penelope sé gagnkvæm en aldrei fengið staðfestingu frá henni um að svo sé. Hér er bent á það litla vægi sem konan hefur í klassíska vestranum þar sem hvorki er hlustað á vilja hennar né væri hann virtur ef svo væri.
Eftir ákveðin kaflaskil er Samuel skipt út fyrir Penelope sem aðalpersónu sögunnar. Nú er það hún sem leggur af stað í leiðangur með Henry sem áheyranda sinn og vitni. Penelope hafnar Samuel, með látum og öskrum og áhorfandi kynnist henni loks sem öðru en glansmynd í hálsfesti eða draumi í huga Samuel. Penelope er viljasterk kona sem kann greinilega að sjá um sig sjálf og hefur aldrei óskað eftir bjargvætti. Þetta eru þó einu skilaboðin sem persóna hennar kemur áleiðis til áhorfanda þar sem persónusköpunin ristir ekki mikið dýpra. Bakgrunnur hennar, langanir eða vilji eru aldrei tíunduð og er persóna hennar sem „konan sem vill ekki láta bjarga sér“ í raun jafngrunn og andhverfa hennar, „kona í klípu“. Penelope er of upptekin við að hafna hinum fjölmörgu vonbiðlum sínum til að fá tækifæri til að melta eigin tilfinningar og komast að því hvað hún vill gera, hvert hún vill fara. Hún ráfar því um stefnulaust. Það heyrir til undantekninga að frásögnin beini sjónum að sálarlífi hennar, en eitt dæmi um slíkt er þegar hún minnist látins eiginmanns. En það þýðir jafnframt að persónuleiki hennar virðist gjörsamlega háður karlmönnunum sem umkringja hana. Atgervi hennar birtist fyrst og fremst í höfnun á þeim, og tilfinningalífið í gegnum ást á þeim sem hún hefur misst. Síðari hluti myndarinnar veldur vonbrigðum og nýtir illa áhugaverðar forsendur fyrri hlutans.
David og Nathan Zellner leika báðir hlutverk í myndinni ásamt því að deila leikstjóra- og handritshöfundatitli. Nathan leikur aukahlutverk sem virðist nánast hafa verið bætt inn til þess eins að lauma honum inn í söguheiminn, en það er mágur Penelope, enn einn hrottinn sem vill eigna sér hana. Hlutverk hins bróðursins, Davids, er stærra og segja má að hann leiki leynda aðalpersónu myndarinnar, prestinn Henry, en persóna hans gerir lítið til að fleyta sögunni áfram en er þó sú eina sem er viðstödd frá upphafi til enda. Persónusköpun Davids er þó fjarri því gallalaus og í raun má ganga svo langt að segja hana nær óskiljanlega. David virðist vera að flýja slæma fortíð og leitar skjóls í flöskunnni, en er jafnframt heillaður af frumbyggjamenningu, sem hann hefur þó lítinn skilning á. Það sama mætti segja um höfundana sem þröngva persónu af frumbyggjaættum inn í frásögnina, persónu sem hvorki bætir við né afbyggir „indjána“ staðalímyndina úr vestranum, og er ennönnur karlpersónan sem vill eigna sér Penelope. Slík atriði afhjúpa Damsel fyrir það sem hún er: Einföld skopstæling á vestranum, sköpuð til að leyfa þeim bræðrum að sýna leikhæfileika sína, í stað þess að vera sú háfleyga gagnrýni á myndbirtingar samfélagsvandamála í kvikmyndagreininni sem vonir standa til framan af frásögninni. Áhugaleysi Zellner bræðrana á þeim minnihlutahópum sem þeir vilja varpa ljósi á gerir það að verkum að áhorfið verður eins og löng hrútskýring á göllum vestrans í stað þess að gefa nýja sýn á hann.
Vefsvæði Engra stjarna er hér.[/cs_text]
Deila