Um sársauka

Eiríkur Guðmundsson: Ritgerð mín um sársaukann, Reykjavík: Benedikt bókaútgáfa, 2018, 270. bls.

Ég las ritgerð Eiríks Guðmundssonar um sársaukann um jólin. Strax á fyrstu blaðsíðunum tók ágengt óöruggi að grafa um sig. Mín biðu 270 síður af þéttum texta sem teygðu sig út í aðsteðjandi myrkur, líkt og óupplýstur vegur á vetrarkvöldi. Ég var orðinn farþegi í aftursæti. Frammí sat Eiríkur dottandi en Klara undir stýri. Það var ekki mikið sagt eða spjallað. Út um framrúðuna sá ég hvít og gul strik þjóta inn undir húddið  „Nei, þau eru bara hvít. Við erum á Íslandi.“ (Ritgerð mín…, bls. 11). Upphafskafli bókarinnar greip mig strax frá byrjun og hreif mig með.

Textinn kippti um leið undan mér fótunum. Hann skapaði sömu tilfinningu og gerir vart við sig hjá flestum sem hafa bílpróf þegar þeir sitja aftur í smábíl sem ekið er greitt af ókunnum bílstjóra í myrkri að vetri. Ætli sé hált? Er farið að hríða? Fer hún ekki of hratt? Skyldi eitthvað gerast? Er eitthvað til að halda sér í? Það var einmitt þetta síðasttalda sem skapaði öryggisleysið. Í texta Eiríks er fátt til að styðjast við ólíkt því sem gerist í hefðbundnu íslensku skáldsögunni. Þar myndar epískur söguþráður öruggt rið meðfram veginum svo hangið sé í upphafssenu bókarinnar.

Svo tók að grípa um sig einhvers konar svimi líkt og bílveiki. Ég vissi ekki þá af hverju hann stafaði en ég sé það núna. Í upphafi er höfundurinn ekki á leið inn í sögu sína með lesandann í slagtogi heldur út úr henni. Bílferðin stefnir ekki þangað sem sagan gerist heldur til baka, heim, þegar öllu er lokið.

Öryggisleysið sem þessi sterka lesupplifun af fyrstu köflum ritgerðarinnar skapaði fólst nákvæmlega í þessu: Kem ég til með að halda þræði út í gegnum bókina? Hvað gerist ef ég man ekki hvar ég hætti síðast? Kem ég til með að halda þetta ferðalag út? Hætti ég þessu ekki bara? Í því sambandi skiptir máli að ég er af þeirri kynslóð lesenda sem ólst upp við að það væri bæði ódyggð og vesalmennska að nota bókamerki og að gefast upp á bók í miðju kafi. Hann var harður norðlenski skólinn í lestrarmálum á öldinni sem leið.

Svo hafði ég líka áhyggjur af Eiríki. Ég þekki hann betur sem rödd en rithöfund. Hann er óskorðaður meistari hins snarpa pistils. Enginn stendur honum á sporði í hvössum, efnismiklum, ádeiluþrungnum útvarpspistlum. Flutningurinn er líka öruggur og óborganlegur, ótrúlega mörg atkvæði á mínútu. Hver man ekki Eirík í Gufunni í miðju Hruninu? Ætli Jón Vídalín hafi verið einhvern veginn þannig í stólnum, til dæmis þegar hann úthelti sér yfir reiðinni? Efasemdir mínar í garð Eiríks þarna á jólanóttina fólust í að ég óttaðist að hann missti stjórnina á textamassanum. Það er ábyrgðarhluti að leggja upp með hátt í þrjú hundruð blaðsíðna bók og róa henni í land án „sögu“. Það er jú ótúlega ríkt í okkur Íslendingum að í öllu þurfi að felast samfelld „saga“ eins og hryggsúla í hrossi. Hvernig var ekki talað um Thor? Færi Eiríkur yfir strikið? Það gæti orðið pínlegt og í öllu falli stjörnuhrap í mínum huga.

Eftir því sem leið á hátíðin og lesturinn varð mér stöðugt ljósar að Eiríki mundi ekki bregðast bogalistin. Við mundum báðir komast heilir heim. Í ritgerðinni um sársaukann leynast nefnilega ótalmörg leiðarhnoð sem fylgja lesendunum í síbreytilegum myndum og mynda misrauða þræði gegnum verkið. Eitt þeirra er tónlistin. Vísanirnar eru ótrúlega margar í lög og tónverk af ýmsu tagi. Sum þekkti ég en mörg alls ekki. Næst þegar ég les bókina ætla ég að liggja á Jútúb og láta músíkina mynda undirtón við lesturinn. Ég hef gert tilraun. Textinn og tónarnir falla ótrúlega saman og skapa oft ágenga heild.

Á sama hátt mynda heimsbókmenntirnar annað leiðarhnoð. Þar kemur græna rósin t.a.m. til sögunnar. Þessir þættir verksins sköpuðu hjá mér grun um að með hjálp ritgerðarinnar megi lesa og hlusta sig inn í menningarsögu sem skiptir raunverulegu máli og eykur þekkingu lesandans á samtímanum á alveg nýjan hátt, a.m.k. fyrir mig sem kem úr annarri átt að þessu öllu en Eiríkur.

En svo eru allt annars konar leiðarstef sem smám saman raðast saman í „sögu“ sem er samt rökkri og móðu hulin. Þetta er ættar- eða fjölskyldusaga þar sem lesandann grunar meira en hann skilur. Þar sem fleira er hálfsagt en fullsagt og þagað er yfir mörgu eins og í öllum fjölskyldum sem ganga gegnum súrt og sætt — eða kannski sárt.

Skýrasta leiðarhnoðið er þó kenndin sem nær tökum á lesandanum og heldur honum föstum, teymir hann síðu af síðu uns lestrinum er lokið og söknuðurinn tekinn við. Í seinni tíð hef ég sannfærst um það betur og betur að tilfinning eða kennd er mun traustari burðarbiti í listaverki, skáldsögu, kvikmynd eða líklega hverju sem er en „saga“. Sögunni hættir til að vera öll á yfirborðinu og hún gleymist hratt. Tilfinningin grefur hins vegar um sig í sálardjúpinu og fylgir lesandanum lengi. A.m.k. held ég að það verði nokkuð í að ég jafni mig af sársaukanum og hætti að velta honum fyrir mér eftir að hafa lesið ritgerð Eiríks Guðmundssonar um hann. Ég verð að segja alveg eins og mér finnst: Það er eitthvað ótrúlega heróískt yfir því að landa verki af þessu tagi á svona trúverðugan máta. Eríkur er mikill galdramaður hins ritaða ekki síður en talaða orðs.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila