Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í ár og voru þau afhent við hátíðlega athöfn á Höfn í Hornafirði á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Eftirfarandi grein er að mestu samhljóða þakkarávarpi sem Eiríkur flutti við það tækifæri.
Við minnumst þess um þessar mundir að öld er liðin síðan Íslendingar öðluðust fullveldi. En til er annars konar og engu ómerkara fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við fengum 1918. Það er menningarlegt fullveldi þar sem tungumálið er grunnþáttur og meginforsenda. Tungumál smáþjóðar skapar sérstakan menningarheim sem bægir frá áhrifum annarra menningarheima og torveldar jafnframt aðgang okkar að þeim.
En á síðustu árum hafa orðið gífurlegar samfélags- og tæknibreytingar sem valda því að Íslendingar komast nú í nánari og víðtækari snertingu en áður við aðra menningu og menningarheima. Það er gott, því það eykur okkur víðsýni og auðgar okkar eigin menningu. En stærsta áskorunin sem við stöndum nú frammi fyrir á sviði íslenskrar menningar er að tryggja að leiðir milli íslensks menningarheims og annarra menningarheima haldist greiðar – í báðar áttir – án þess að það verði á kostnað íslenskunnar.
Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að þjóðfélagsbreytingar síðustu 10 ára eða svo valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum. Við því þarf að bregðast, því þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir okkur sem eigum hana að móðurmáli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við leiðum kannski hugann að í fljótu bragði.
Í hverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merkingarblæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er, verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.
Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setningagerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.
Íslenskan er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Við njótum þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auðveldlega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kaldaljós, og meira að segja Ungfrú Ísland og Sextíu kíló af sólskini. Þar með væri hið margrómaða samhengi í íslenskum bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.
Vitanlega er íslenskan ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikilvægasta samskiptatæki okkar við annað fólk. Þess vegna má hún ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í framburði, beygingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar. Við þurfum að styðja þau sem vilja lifa og starfa í íslensku samfélagi til að ná góðu valdi á þessu mikilvæga samskiptatæki en megum ekki láta takmarkaða íslenskukunnáttu fólks bitna á því á nokkurn hátt.
En síðast en ekki síst er íslenskan útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móðurmál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sameign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll hlutverk þess séu höfð í heiðri.
Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera – með umburðarlyndi, virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist íslenskan ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Íslenskan er nefnilega alls konar. Íslenska með hreim er líka íslenska. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Vissulega ekki nákvæmlega sú íslenska sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum, en það gefur mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana.
Viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst viðhorf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kynslóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.
Með nýsamþykktri aðgerðaáætlun í máltækni er því stigið stórt skref til að tryggja að við getum notað íslenskuna áfram – ekki bara í þeim mikilvægu hlutverkum sem ég nefndi áðan, heldur einnig í nýju hlutverki í samskiptum okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í. En fleira þarf að koma til. Við þurfum líka að sjá til þess að þjóðin eigi greiðan aðgang að margs kyns afþreyingu, fræðslu og list á íslensku, bæði á bók og í stafrænu formi.
Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Ekkert er jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það. Það er mikilvægasta fullveldismálið.
[fblike]
Deila