A Thousand Tongues er fyrsta verk dönsku listakonunnar Nini Julia Bang. Það var frumsýnt hér á landi í Tjarnarbíói 29. september síðastliðinn. Það var þó upphaflega frumsýnt á Ólympíumóti í leiklist í pólsku borginni Wroclaw, menningarhöfuðborg Evrópu 2016, í samstarfi við hina virtu Grotowski-stofnun.
Verkið er óvenjulegt. Það er ekki beint leikverk, né tónleikar né dansverk en þó allt í senn. Nini flytur tíu söngva á mismunandi tungumálum með sinni einstöku rödd. Söngvarnir eru víðsvegar að úr heiminum og er efniviður þeirra mismunandi, vögguljóð, ástarljóð og saknaðarljóð. Það sem söngvarnir eiga kannski einna helst sameiginlegt er að þeir lýsa nokkru varnarleysi þess sem syngur.
Nina tekur á móti gestum syngjandi seiðandi tóna, spilandi á selló. Gestir ganga inn í rökkvað rýmið og mann grípur örlítið öryggisleysi.
Þá flytur Nina hvern sönginn á fætur öðrum. Einnig grípur hún í eins konar dragspil sem gefur sýningunni framandi blæ.
Leikstjóri verksins er Samantha Shay frá Bandaríkjunum. Hún býr til myrkan, dularfullan heim með listrænum stjórnendum sýningarinnar. Hljóðmynd Paul Evans og Ninu er sterk. Ljósahönnun Nicole Pearce þjónaði dulmögnun verksins vel en lýsing er takmörkuð og einkennist af ljósgeislum, misstórum og missterkum.
Hugmyndin um framandi söngva frá ýmsum löndum saman í einni sýningu er frábær. Ein rödd, þúsund raddir. Rödd Ninu er kraftmikil og tær. Hins vegar er útsetning söngvanna keimlík. Þeir eru of einsleitir fyrir utan tvo til þrjá. Gaman hefði verið að skynja betur muninn á milli ólíkra landa. Lokaatriði sýningarinnar var áhrifamikið þar sem flytjandinn túlkar hálfgerða sturlun.
Sýningin var áhrifamikil en einsleit. Hún var vissulega öðruvísi en við höfum oft séð á fjölunum. En það er ánægjulegt að fá tækifæri til að sjá erlenda og íslenska listamenn leiða saman hesta sína en sýningin er framleidd af Dagnýju Gísladóttur og Hallfríði Þóru Tryggvadóttur.
Nánari upplýsingar um sýninguna á vef Tjarnarbíós.[/cs_text]
Deila