Það sem er einna áhugaverðast við verk Karls Ove Knausgård er hvernig bækurnar sjálfar og raunveruleikinn sem stendur utan við verkin blandast svo mikið saman að ógerlegt verður að greina þarna á milli, sagði Guðrún Baldvinsdóttir á hádegisspjalli undir yfirskriftinni „Er allt leyfilegt í listum?“ Hugrás birtir erindi sem þar voru flutt af því tilefni að undanfarin ár hafa mörkin milli veruleika og skáldskapar orðið æ óljósari í listalífi landsmanna og í framhaldi af því hafa vaknað spurningar um hvort allt sé í raun leyfilegt eða hvort einhvers konar siðferðileg mörk verði og ætti að draga.
Karl Ove Knausgård er norskur rithöfundur, fæddur árið 1968. Hann gaf út sjálfsævisögu sína á árunum 2009-2011 í sex bindum, 3600 blaðsíðum. Verk hans, Min kamp, hefur vakið gríðarlega athygli – og þá sérstaklega fyrir hversu nákvæmlega hann lýsir sínu einkalífi sem og annarra. Bækur Knausgårds hafa verið þýddar á yfir tuttugu tungumál og kemur nafn hans reglulega upp í samhengi við Nóbelsverðlaunin.
Í verkum sínum hefur Knausgård unnið með mörk veruleika og skáldskapar og í raun hafa öll deilumál sem koma upp í kringum hann snúist um hvernig höfundurinn notar veruleikann í bókum sínum.
Fyrsta málið sem kom upp tengdist fjölskyldu höfundarins.
Föðurfjölskylda hans var ævareið yfir því hvernig Knausgård notaði ævi þeirra í bókum sínum. Þau sökuðu hann um lygar og að hafa nýtt sér vitneskju sína til þess að öðlast frægð og fé.
Í árslok 2009 birtist síðan harðorð grein rithöfundarins Jans Kjærstads en hann gagnrýndi aðdáendur Knausgårds fyrir að lesa of mikið í raunveruleikann í verkunum og telja hann þannig ósjálfrátt góðar bókmenntir. Lesendur ættu að lesa verkið eins og um hefðbundna skáldsögu væri að ræða, þar sem að það skipti engu máli að Knausgård væri að byggja textann á sínum eigin minningum.
Þetta er krafa sem ómögulegt er að verða við, þar sem við getum ekki hætt að vita það sem við vitum um t.d. líf höfundarins.Sú krafa sem Kjærstad setti fram er ef til vill frekar dæmigerð fyrir deilur slíkra verka. Þetta er krafa sem ómögulegt er að verða við, þar sem við getum ekki hætt að vita það sem við vitum um t.d. líf höfundarins. Þá skiptir einnig miklu máli hvernig bókin er markaðsett og flokkuð sem bókmenntagrein. Um leið og búið er að segja lesandanum að hér sé á ferð sjálfsævisögulegt verk þá gengst hann við því að höfundurinn noti sínar eigin minningar og sé að segja sannleikann – eða að minnsta kosti einhverja útgáfu af honum.
Árið 2015 lenti Knausgård síðan í hörðum deilum við sænska rithöfundinn og bókmenntafræðinginn Ebbu Witt-Brattström, en hún setti spurningamerki við hvernig Knausgård fjallar um unglingsstelpur sem kynferðisleg viðföng í bókum sínum. Knausgård svaraði Witt-Brattström svo að um skáldskap væri að ræða og ekki væri hægt að saka hann um neitt þar sem skáldskapurinn gæfi honum leyfi til þess að skapa nýjan raunveruleika.
Nýjasta deilan snerist síðan um sjötta og síðasta bindið – en í því er 400 blaðsíðna ritgerð um Adolf Hitler þar sem Knausgård gerir tilraun til þess að skoða mannkynssöguna með öðrum hætti en vanalegt er. Nú á síðasta ári skrifaði þingmaðurinn og sagnfræðingurinn Sten Reinhard Helland grein í tímaritið Vinduet þar sem hann sakaði Knausgård um að gefa sér ýmislegt er varðar sögu og staðreyndir seinni heimsstyrjaldarinnar. Knausgård svaraði þessari gagnrýni með þeim orðum að ekki væri um sagnfræðirit að ræða heldur skáldskap og því hefði hann leyfi til þess að túlka mannkynssöguna á þann hátt sem hann kysi.
Þessi dæmi gefa okkur örlitla innsýn í hvað það er sem fer fyrir brjóstið á lesendum bókanna.
Sjálfsævisögulegir textar eru alltaf á einhvern hátt skáldaðir – þar sem við sköpum okkar eigin frásögn af lífi okkar.Viðtökur verksins Min kampsýna einnig hversu miklu máli greinaflokkun skiptir í þessu samhengi. Miklar umræður hafa sprottið hvort að bókin sé skáldskapur EÐA sjálfsævisaga, á meðan raunin er að hún getur verið hvort tveggja. Sjálfsævisögulegir textar eru alltaf á einhvern hátt skáldaðir – þar sem við sköpum okkar eigin frásögn af lífi okkar.
Þeir fjölskyldumeðlimir sem töldu hann hafa nýtt líf þeirra til þess að hagnast á því gátu ekki skapað sér eins sterka opinbera rödd og höfundurinn hafði gert.Vald Knausgårds sem listamaður með áhrifaríka rödd í samfélaginu skiptir einnig höfuðmáli þegar skoðaðar eru þær ásakanir sem beindust gegn höfundinum. Þeir fjölskyldumeðlimir sem töldu hann hafa nýtt líf þeirra til þess að hagnast á því gátu ekki skapað sér eins sterka opinbera rödd og höfundurinn hafði gert. Ef þau vildu vekja máls á þessu vandamáli undir eigin nafni áttu þau á hættu að gera einungis illt verra og tengja nafn sitt enn frekar við þann skáldskap sem er að finna í bókinni. Þannig birtist raunverulegt vald Knausgårds einna skýrast og vekur upp spurningar um hvaða siðferðislegu stöðu höfundurinn hefur gagnvart viðföngum sínum sem og skáldskapnum sjálfum.
Það sem er einna áhugaverðast við verk Karls Ove Knausgård er hvernig bækurnar sjálfar og raunveruleikinn sem stendur utan við verkin blandast svo mikið saman að ógerlegt verður að greina þarna á milli.
Besta og nýlegasta dæmið um þetta eru líklega nýjustu fréttirnar af einaklífi Knausgårds en hann stendur um þessar mundir í skilnaði við konu sína. Sjónvarpsstöðin NRK í Noregi fékk til sín menningarrýninn Agnesi Moxnæs til þess að fjalla um þetta mál, og þá sérstaklega hvaða áhrif skilnaðurinn hefði á bækurnar sjálfar. Þannig sjáum við hvernig mörkin hafa algjörlega strokast út, lesendurnir halda áfram að lesa bækurnar, löngu eftir að þeir hafa lokið lestri á síðasta bindinu.
Erindi þetta var fyrst flutt á opnum hádegisfundi í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Er allt leyfilegt í listum? – hádegisspjall um siðferði í listum þann 20. janúar 2017. Hér fyrir neðan má sjá upptöku frá fundinum.
[fblike]
Deila