1.
Árið er nýbyrjað. Ég er að hlusta á útvarpið. Tveir bókmenntafræðingar tala um dauða bókmenntafræðinnar. Tilefnið er að annar þeirra, Gunnar Þorri Pétursson, hefur birt grein um efnið í Ritinu en hún byggir á MA ritgerð hans í almennri bókmenntafræði. Hinn, Eiríkur Guðmundsson, er spyrill.
Blómatími hennar sé á síðari hluta níunda áratugarins og í upphafi þess tíundaGunnar Þorri segist hafa verið að kortleggja sögu nútímabókmenntafræði hérlendis, hann segir upphaf hennar vera í kringum 1983, blómatími hennar sé á síðari hluta níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda, en síðan hafi komið upplausnartímabil, „smám saman fjarar undan bókmenntafræðinni og núna finnst mér hún vera í afar vondum málum, og það er í raun bara komið að endalokum ákveðins tímabils, endalok ákveðsins viðmiðs sem hefur stjórnað bókmenntafræðinni“.
Af orðum Gunnars að dæma markaðist blómatíminn af því að erlendum straumum var veitt inn í bókmenntafræðinna, m.a. með útgáfu bókanna Hugtök og heiti í bókmenntafræði (1983) í ritstjórn Jakobs Benediktssonar og Spor í bókmenntafræði 20. aldar (1991) í ritstjórn Garðars Baldvinssonar, Kristínar Birgisdóttur og Kristínar Viðarsdóttur. Í framhaldi hafi sprottið upp frjó umræða um einstakar skáldsögur, svo sem Tímaþjófinn (1986) og Gunnlaðar sögu (1990).
Gunnar Þorri: „Það eru ofsalega fallegar fléttur, margir fræðimenn sem koma þarna að og það verður til mjög flókinn þráður og oft þykir höfundunum nóg um, að bókmenntafræðingarnir séu að taka sér of mikið vald, og séu komnir eiginlega með of mikið rykti. Og þetta er eiginlega eitthvað sem ekki myndi gerast í dag. og þegar ég fór að skoða þetta þá hugsaði ég bara til nútímans. Þetta er ekki til staðar í dag.“
Eiríkur: „Þetta er búið.“
Gunnar Þorri: „Þetta er búið. Og svo semsagt tekur við ákveðið upplausnartímabil og það er ekki síður heillandi heldur en þetta uppgangstímabil og margir fallegir molar í því og mjög fróðlegt að fylgja því áfram eftir en nú tel ég að við séum komin á ákveðna endastöð.“
2.
Árið er næstum liðið. Ég er að fletta nokkrum meistara- og doktorsritgerðum af vettvangi Íslensku- og menningardeildar sem hafa ratað hingað á skrifborðið til mín á liðnum árum.
Ein fjallar um sköpun og endurritanir sagnasafnsins The Palace of Pleasure (1556-57) eftir William Painter, önnur um frásagnaraðferð í verkum Jakobínu Sigurðardóttur, þriðja um vald og virkni ritdóma á íslenskum bókmenntavettvangi, fjórða um höfundarvirkni Jane Austin, fimmta um fagurfræði Braga Ólafssonar, sjötta um erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. sjöunda um þversagnakennt hlutverk Gríms Thomsen í íslenskri menningu, áttunda um ástsýki í Egils sögu, níunda um höfundarverk Þórbergs Þórðarsonar, tíunda um tímaritið Birting og íslenskan módernisma, ellefta um sveitasöguþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, tólfta um síðustu skáldsögur Halldórs Laxness, þrettánda um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar og fjórtánda um barokkskáldið Hallgrím Pétursson.
Bera þessar rannsóknir vott um að bókmenntafræðin sé í vondum málum?
3.
Ég stend upp og tek fram úr bókahillunum á suðurveggnum nokkur nýleg rit um bókmenntir eftir samkennara mína við Íslensku- og menningardeild sem og rit sem komið hafa út undir þeirra ritstjórn frá aldamótum.
Eitt þeirra fjallar um nútímabókmenntir og hugræn fræði, annað um tilurð íslenskra barnabókmennta, þriðja um náttúrusýn og umhverfisvitund í íslenskri ljóðagerð, fjórða um mörk sjálfsævisagna og skáldskapar, fimmta um skáldskap Steinunnar Sigurðardóttur, sjötta um þróunarsögu raunsæisins í bókmenntum Vesturlanda, sjöunda um orðlist skáldsögunnar, áttunda um hlutverk sorgar og þunglyndis í listsköpun, níunda um skrif við núllpunkt, tíunda um þýðingar og endurritanir, ellefta um aðferðir við greiningu á miðaldatextum, tólfta um konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu, þrettánda um Egils sögu og Snorra Sturluson, fjórtánda um hlutverk þýðinga við mótun þjóðarbókmennta Breta og Þjóðverja.
Kannski bera þessi verk vott um að fjarað hafi undan nútímabókmenntafræði hér á landi í seinni tíð?
4.
Ég sný mér við og geng yfir að staka bókaskápnum norðanmegin í skrifstofunni minni. Hann hefur að geyma ævisöguleg eða bókmenntasöguleg verk og greinasöfn sem helguð eru einstökum rithöfundum. Fyrrnefndu ritin hafa flest komið út á almennum markaði en hluti greinasafnanna tilheyrir ritröð sem Bókmennta- og listfræðastofnun gefur út. Sem fyrr dreg ég bara fram bækur sem komið hafa út á þessari öld, fáeinar eru frá allra síðustu misserum.
Eitt ritið er helgað Svövu Jakobsdóttur, annað Stephan G. Stephanssyni, þriðja Pétri Gunnarssyni, fjórða Sjón, fimmta Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, sjötta Gunnari Gunnarssyni, sjöunda Þórbergi Þórðarsyni, áttunda Guðbergi Bergssyni, níunda Guðrúnu Helgadóttur, tíunda Sigfúsi Daðasyni, ellefta Steinari Sigurjónssyni, tólfta Jóhanni Sigurjónssyni, þrettánda Guðmundi Kamban, fjórtánda Thor Vilhjálmssyni.
Eru þetta verkin sem vekja ugg um að blómatími bókmenntafræðinnar sé að baki?
5.
Á skrifstofunni minni ríkir upplausnarástand, hún minnir á konfektkassa sem einhver hefur verið að gramsa í. Á skrifborðinu, í hægindastólunum og á gólfinu eru bækur af ýmsum stærðum og gerðum. Þetta er æði fjölbreytt úrval rita, sum eru á íslensku, önnur á ensku og sum á ég jafnvæl bæði á íslensku og ensku. Ég hef lesið þau flest að hluta til eða heild og fullyrði að allmargir hinna mörgu og ólíku bókmenntafræðinga sem hér um ræðir styðjist við nútímalegar alþjóðlegar bókmenntafræðikenningar í skrifum sínum, þó að ekki sé endilega um þær fjallað í Hugtökum og heitum eða Sporum. Fjölmörg bókmenntafræðileg rit frá síðustu áru árum eru enn ónefnd og ég hef látið hilluna með tímaritunum algjörlega í friði.
Þegar ég lít í kringum mig á ég bágt með sjá að bókmenntafræðin sé komin á endastöð, hvað þá að bókmenntafræðingar hafi hætt „í miklum mæli að fjalla um bókmenntir“, eins og Gunnar Þorri Pétursson gaf í skyn í lok samtals þeirra Eiríks Guðmundssonar. Nei, fjandakornið. Er ekki, þvert á móti, hugsanlegt að síðustu tíu til fimmtán ár hafi verið blómatími á þessu fræðasviði?
[fblike]
Deila