Katrín GunnarsdóttirVið lifum í hversdagsleikanum. Hver dagur ber með sér endurtekningu á því sem dagurinn á undan hafði upp á að bjóða og þannig líða vikurnar og mánuðirnir og kannski árin án þess að nokkuð markvert gerist. Þó hefur eitthvað gerst. Þegar við lítum til baka uppgötvum við að ekkert er eins og það var. Við erum önnur, umhverfi okkar er annað. En hvernig komumst við þangað? Lífið flæðir áfram án hvíldar. Það er ekki hægt að stoppa tímann. Það er ekki hægt að gera ekkert.
Shades of History
Tjarnarbíó, 2016
Í dansverkinu Shades of History skapar Katrín Gunnarsdóttir þessa upplifun af flæðandi framvindu lífsins. Verkið hefst þar sem hún stendur með bakið í áhorfendur og hreyfir handleggina út og að líkamanum. Hreyfingin er lítil í fyrstu en stækkar smátt og smátt og þróast yfir í nýja hreyfingu og svo nýja og nýja og svo enn aðra þar til 40 mínútur sem upplifðust frekar sem 10 höfðu liðið í stanslausu flæði. Engar pásur, engin uppbrot, engir hápunktar, upphaf eða endir, aðeins stanslaus straumur hreyfinga sem eiga rætur að rekja til „innri þrá[r] dansarans að hverfa á bak við hreyfingarnar sjálfar“.
Ljósmynd: Hörður Sveinsson.
Tilfinningin fyrir hinu ósýnilega flæði skapaðist ekki aðeins með því að horfa á síendurteknar en síbreytilegar hreyfingar dansarans heldur einnig vegna allrar umgjarðar sýningarinnar. Sviðsmyndin og lýsingin létu lítið yfir sér, einfaldar, bjartar og elegant en komu á óvart. Við fyrstu sýn virtist sem flæði sýningarinnar færi eingöngu fram í hreyfingunum en þegar betur var að gáð skapaði lýsingin smávægilegar breytingar á umhverfinu, breytingar sem varla var hægt að nema þegar þær gerðust en voru allt í einu þarna áhorfandanum til undrunar og gleði.
Katrínu tekst að halda hrynjandinni ein og óstudd og komast í gegnum 40 mínúturnar nánast algjörlega án hnökra, sem er merki um hugrekki og færni.Katrín tekur þá áhættu að flytja verkið nánast án hljóðmyndar. Hennar eigin andardráttur heyrist öðru hvoru en annars ekkert. Hljóðleysið í verkinu gerði það að verkum að áhorfandinn þorði varla að anda eða hreyfa sig til að rjúfa ekki töfra þagnarinnar. Það veit hver sem reynt hefur að dansa langar samsetningar án stuðnings tónlistar að það reynir verulega á. Það er tilhneiging til að herða á hrynjandinni og skauta yfir endurtekningarnar án þess að gefa sér tíma til að fara inn í þær. Katrínu tekst að halda hrynjandinni ein og óstudd og komast í gegnum 40 mínúturnar nánast algjörlega án hnökra, sem er merki um hugrekki og færni.
Það tók hugann smá stund að kyrrast og ná einbeitingu en þegar ró hafði náðst sogaðist vitundin inn í straum verksins.Þeir sem stundað hafa hugleiðslu vita að það tekur oft nokkra stund eftir að maður hefur komið sér fyrir á púðanum að kyrra hugann og ná einbeitingu. Það sama var upp á teningnum þegar sest var inn í salinn í Tjarnarbíói til að horfa á Shades of History. Það tók hugann smá stund að kyrrast og ná einbeitingu en þegar ró hafði náðst sogaðist vitundin inn í straum verksins og var ekki tilbúin að sleppa upplifuninni þegar verkinu lauk.
Shades of History var ótrúlega fallegt og áhrifaríkt rétt eins og verkin Fubar og Da Da Dans sem fjallað hefur verið um hér í Hugrás á síðustu vikum. Mikil gæfa er það fyrir okkur hér á þessu landi að eiga þessa sterku danshöfunda sem opna fyrir áhorfandanum nýjar víddir í upplifunum og skynjunum.
[line]Höfundur og dansari: Katrín Gunnarsdóttir.
Leikmynd og búningur: Eva Signý Berger.
Ljósahönnun: Magnús Arnar Sigurðarson
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon
Dramatúrgísk ráðgjöf og texti: Alexander Roberts og Ásgerður G. Gunnarsdóttir
Aðstoðardanshöfundur Védís Kjartansdóttir
Myndband ofan við grein framleitt af Eventa Films.
[fblike]
Deila