Tími fáránleikans

FUBAR
Danshöfundur: Sigríður  Soffía Níelsdóttir
Tónlist: Jónas Sen
Sviðsmynd: Helgi Már Kristinsson
Búningar: Hildur Yeoman
Fréttir af hryðjuverkunum í París í nóvember í fyrra þar sem 130 voru drepnir víðs vegar um borgina, flestir á tónleikastaðnum Bataclan eru flestum okkar í fersku minni. Óhugur læðist að manni við svo voveiflegar fréttir því hugmyndinni um örugg svæði hefur verið ógnað.  Sigríður Soffía Níelsdóttir byggir verkið sitt FUBAR á þessum atburði. Þó ekki sem frétt heldur sem eigin upplifun en hún var stödd í París þegar hryðjuverkin áttu sér stað og upplifði útgöngubannið sem fylgdi í kjölfarið og óttan sem fylgir því að hlaupa sér og sínum til lífs því nokkrum dögum eftir viðburðinn var hún í hópi fólks sem lagði á flótta vegna ótta við mann sem talinn var vopnaður  sprengjuvesti og riffli en kom seinn í ljós að hafði ekki verið. Í viðtali í Fréttablaðinu 22. október sagði Sigríður Soffía frá því hvernig ekki síst upplifun hennar og annarra af tímanum á meðan á hættuástandinu stóð hafi kveikt hjá henni löngun til að nýta þessa reynslu í listsköpun.

Fubar - Gamla bíó

Dansverkið FUBAR á sviðinu í Gamla bíói miðvikudaginn 26. október síðastliðinn hófst með því að höfundur stóð fremst á sviðinu fyrir framan tjöldin í rauðum gammasíum og síðri rauðri peysu með slegið sítt hár og sagði frá nokkrum ólíkum augnablikum úr lífi sínum, meðal annars reynslu sinni af því að vera í París þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar 2015. Byrjunin var óvænt vegna þess að mikil hreyfing er það fyrsta sem manni dettur í hug þegar minnst er á Siggu Soffíu sem dansara. Frásögnin var hnitmiðuð og einlæg og færði mann nær sögumanninum, höfundi verksins, þar sem hún gaf áhorfandanum innsýn inn í líf, lífreynslu, upplifanir og tilfinningar sínar.

Margar af þeim upplifunum sem hún sagði frá lýstu aðstæðum sem undirstrikuðu hvað fáránleikinn getur hitt okkur á ólíklegustu stöðum í lífinu.
Það var notalegt að hlusta á Siggu Soffíu (eins og hún er venjulega kölluð) segja frá sjálfri sér og ekki hægt annað en hrífast með. Frásögnin og lýsingarnar af upplifunum hennar og reynslu af mismunandi atburðum í lífi hennar var lifandi og gamansöm en einnig alvöruþrungin ekki síst þegar hún talaði um áðurnefnda reynslu.  Margar af þeim upplifunum sem hún sagði frá lýstu aðstæðum sem undirstrikuðu hvað fáránleikinn getur hitt okkur á ólíklegustu stöðum í lífinu.

En hið talaða mál hafði aðeins hlutverk í upphaf verksins. Dansarinn krafðist þess að fá að tjá sig, líkaminn kallaði á útrás. Þegar dansinn byrjaði var tjaldið dregið frá því hreyfingar þurfa miklu meira rými en orð. Þegar tjaldið hafði dregið sig í hlé kom í ljós einföld og falleg sviðsmynd samansett úr silfurlitum flekum sem héngu niður úr loftinu aftast á sviðinu og  hljómborði og tölvu og öðru því sem til þarf til að flytja raftónlist  „life“ á sviði.

Tónlistin í verkinu, sem var samin og flutt af Jónasi Sen, hæfði verkinu fullkomlega. Endurtekningarsöm raftónlist í bland við heldur hefðbundnari píanóleik  hélt áhorfandanum fast í fangi sér og beindi athygli hans að því sem var að gerast á sviðinu. Tengsl dansins og tónlistarinnar voru sterk eins og um dúett væri að ræða. Dansinn var ekki dansaður við tónlistina eða tónlistin spiluð undir dansinum heldur flæddu þau saman í einni heild.  Jónas gerði einnig einstaklega fallega hljóðmynd fyrir verk Siggu Soffíu Svartar Fjaðrir sem sýnt var á Listahátíð Reykjavíkur vorið 2015. Samspil þeirra í listsköpun virkar greinilega einkar vel.

Fubar - Gamla bíó

Á 6. og 7. áratug síðustu aldar gerðu ungir dansarar sem aldir höfðu verið upp við formfestu klassíska ballettsins eða sterka tilfinningatjáningu módern dansins uppreisn gegn fagurfræði þessara forma og vildu færa dansinn til frummyndar sinnar, hins einfalda. Áhersla var lögð á einfaldleika, naumhyggju og haldið fram að allir gætu dansað, allar hreyfingar ættu erindi í danssköpun og allir líkamar ættu heima á danssviðinu. Listamenn sem höfðu sérhæfingu í öðru en dansi hófu að semja dansverk og danshöfundar leituðu í að semja dansverk fyrir fólk sem ekki hafði neina dansþjálfun (non-dancers). Hugmyndin um „non-dancers“ varð þó aldrei „mainstream“ enda komu flestir áhorfendur til þess að sjá vel þjálfaða dansara og dansararnir sjálfir vildu fá að njóta, nýta og sýna þá líkamlega getu sem þeir höfðu lagt mikið á sig til að öðlast. Hugmyndin varð því ekki langlíf sem slík en hún átti eftir að hafa áhrif á hugmyndir manna um hvað væri dans og opnaði nýjar víddir  í danssköpun fyrir þá danshöfunda  sem á eftir komu.

Þessi fyrsti hluti hreyfihluta verksins var einkar eftirminnilegur. Samspilið á milli þeirra sem einkenndist ekki síst af andstæðum var einstaklega fallegt og vakti upp hugsun um mismunandi karakter listgreinanna.
Í FUBAR nýtir Sigga Soffía þessa hugmynd með því að Jónas tekur þátt í dansinum auk þess að vera sýnilegur í tónlistarflutninginum. Þegar tjaldið var dregið frá að frásögninni lokinni standa þau hlið við hlið á sviðinu. Hann stór og þrekinn í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi. Hún lítil og nett í rauðum buxum og peysu. Hann hægur þar sem hann gerði mjög einfalda hreyfisamsetningu með höndum og handleggjum, hún hröð og full af orku. Hann hélt sínum fasa á meðan hún skreytti hann og fyllti upp í tímann og rýmið með stærri og stærri hreyfingum á milli þess sem hún gerði það sama og hann. Þessi fyrsti hluti hreyfihluta verksins var einkar eftirminnilegur. Samspilið á milli þeirra sem einkenndist ekki síst af andstæðum var einstaklega fallegt og vakti upp hugsun um mismunandi karakter listgreinanna.

En smátt og smátt hurfu þau hvert til síns heima, hann að hljómborðinu, tölvunni og píanóinu, hún lengra og lengra inn í líkamlegan veruleika dansins. Í dansverkinu FUBAR sagði Sigga Soffía okkur frá lífi sínu fyrst með orðum en síðan í hreyfingum. Lífi sínu sem ungur dansari sem upplifir mörk líkamlegar nautnar á ögrandi börum og hápunkta ferilsins í hverju því verki sem hún tekur þátt í. Lífi sínu sem verðandi og verandi móður þar sem öfgafull reynslan af því að vera barnshafandi tengist öfgafullum líkamlegum afleiðingum listrænna fæðinga og öfgafullum tilfinningum gagnvart barni í hættu. En við kynnumst henni ekki síst sem dansara. Manneskju sem lifir í líkamanum og tjáir sig og nálgast heiminn með hann að vopni. Vissulega voru orðin nýtt til að koma framvindu verksins af stað en líkaminn var aldrei langt undan, tilbúinn að fylgja hljóði orðanna eftir með hreyfingu. Ástríðan fyrir listforminu skein í gegn í frásögninni og líkamnaðist svo í danssenunni í seinni hlutanum. Ástríðan sem ekkert fær stöðvað, hvorki líkamlegt niðurbrot í formi hastarlegra ofnæmisviðbragða í lok hvers sköpunarferils né líkamleg meiðsli sem fylgja því álagi sem dansarar leggja á sig í þjálfun og sýningum dansverka.

 

Dansinnverkið flæddi áfram umvafið tónlistinni. Ekkert truflaði framvindu verksins heldur rann það áfram með sífellt meiri hraða og meiri krafti. Í upphafi voru orðin en síðan tók hreyfingin við og endurtók og endurspeglaði það sem orðin höfðu sagt. Krafturinn jókst með hverri mínútunni sem leið, það var eins og hreyfiþorstinn yrði ekki slökktur. [pullquote]FUBAR var áhugavert, skemmtilegt og áhrifamikið verk. Það er því gleðilegt að vita að það mun ekki aðeins vera sýnt í Gamla bíó heldur fer Sigríður Soffía með verkið í sýningarferð út á land til Egilsstaða, Patreksfjarðar, Rifs, Akureyrar og Ísafjarðar. [/pullquote]Það var mjög sterkt að sjá hvernig sögurnar sem sagðar voru í upphafi verksins með orðum birtust áhorfandanum aftur en nú í gegnum hreyfingar og kóreógrafíu.  Þannig varð frásögnin um konuna sem fylgdist með umheiminum í gegnum símann sinn falin í verslun ásamt öðru fólki á meðan meintur hryðjuverkamaður gekk um göturnar ekki síður áhrifarík í endurgerðri útgáfu á sviðinu.

FUBAR var áhugavert, skemmtilegt og áhrifamikið verk. Það er því gleðilegt að vita að það mun ekki aðeins vera sýnt í Gamla bíó heldur fer Sigríður Soffía með verkið í sýningarferð út á land til Egilsstaða, Patreksfjarðar, Rifs, Akureyrar og Ísafjarðar. Það er mjög sjaldgæft að danssýningar séu sýndar annarstaðar en í Reykjavík. Það er því frábært framtak að gera þar bót á og óskandi að áhorfendur fyrir vestan, norðan og austan nýti sér þetta einstaka tækifæri. Það er ekki hægt annað en mæla með því að fara á verkið. Það er einfalt, aðgengilegt og mannlegt. Auk þess að vera fallegt.

Ljósmyndir: Marino Thorlacius

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila