Richard MosseHólmlendan er myndbandsverk eftir írska listamanninn Richard Mosse (f. 1980). Verkið var fyrst sýnt á Feneyjartvíæringnum árið 2013 og var þá Mosse fulltrúi Írlands. Verkið er nú staðsett á annarri hæð Listasafns Reykjavíkur við Hafnarstræti og tekur undir sig tvö rými: hvítan sal á hægri hönd þegar gengið er upp stigann og í framhaldi af því myrkvað mun stærra rými með fjölda risaskjáa sem kviknar á og slokknar á, sitt á hvað, í koldimmu rýminu. Alls er myndbandsverkið 40 mínútur að lengd en hefst svo á ný að þeim tíma loknum, á opnunartíma safnsins. Í hvíta rýminu eru stórar ljósmyndir úr verkinu til sýnis innrammaðar með textaskýringum á vegg.
Hólmlendan – The Enclave
Listasafn Reykjavíkur við Hafnarstræti
26.9.2016 – 1.1. 2017
Um leið og brugðið er upp alvarlegu ástandi í stríðshrjáðu landi er upplifunin sem úr annarri veröld eða ævintýraheimi.Það fyrsta sem vakti athygli mína, enda ekki við öðru að búast, er hinn yfirþyrmandi bleiki litur á öllum verkunum. Fyrst spyr maður sig, er til svona landslag, svo fagurbleikt, fjólublátt, rautt … bleikur gróður? Yndisfagrar hlíðar og fjöll með bleikum blæ. Nei, það er ekki alveg svo því Mosse hefur notast við sérstaka infrarauða filmu sem breytir hinum græna gróðri í bleikan eða rauðan ævintýragróður. Slík filma hefur verið notuð í hernaði til að koma auga á menn íklædda felulitum. Um leið og brugðið er upp alvarlegu ástandi í stríðshrjáðu landi er upplifunin sem úr annarri veröld eða ævintýraheimi.
Það er sterk upplifun að ganga inn í myrkvað rýmið og að auki tekur á móti áhorfendum og áheyrendum tónlist sem eykur á upplifunina. Tónskáldið Ben Frost á heiðurinn af tónhluta verksins. Kvikmyndatökumaðurinn Trevor Tweeten kom að vinnu verksins með Richard Mosse. Kvikmyndavélin virðist svífa um landið og eltir stundum hlaupandi börn eða hermenn og svífur inn í samkomuhús og fleira. Við skynjendur verðum hluti af þessu rými og meðtökum á margan hátt. Okkur er hér boðið inn í annan heim; myrkvað rýmið og stærð skjáanna soga okkur inn í þessa veröld.
Gestir sýningarinnar geta gengið um milli skjáanna sem kviknar og slokknar á sitt á hvað. Skjáirnir eru örþunnir og sama mynd er beggja vegna á þeim samtímis. Sumir gestanna staðnæmast við einn skjá í lengri tíma, aðrir ganga um salinn og skoða hinar ýmsu myndir sem spilaðar eru samtímis hér og þar í salnum. Skjáunum er dreift óreglulega um hið stóra, svarta rými. Sumir eru andspænis hvor öðrum, aðrir á ská og hægt er að standa inn á milli nokkurra skjáa, stundum er kveikt á þeim öllum samtímis, stundum aðeins einum eða tveimur.
Hér erum við komin í enn afskekktari svæði en vanalega eru sýnd í fjölmiðlum og oft nær fólkinu.Í fjölmiðlum sjáum við oft myndir frá stríðshrjáðum svæðum, jafnvel of oft og gjarnan er því haldið fram að við séum orðin ónæm fyrir þessum myndum; finnum ekki lengur til með þolendum heldur sé þetta orðinn óraunveruleiki sem býr í fjölmiðlum. Verk Mosses er á vissan hátt enn fjarlægra og furðulegra þegar litum hefur verið breytt svo mjög að um fauvisma virðist næstum vera að ræða en á vissan hátt vekur það okkur til umhugsunar, vekur forvitni og undrun. Hér erum við komin í enn afskekktari svæði en vanalega eru sýnd í fjölmiðlum og oft nær fólkinu. Mosse dvaldi fjölda ára á stríðshrjáðum svæðum Afríku og hafði myndavélina með sér að vopni. Verkið sem hér um ræðir er tekið í Kongó. Þess má geta að orðið enclave eða hólmlenda merkir „land eða landsvæði umlukt svæðum sem tilheyra öðru ríki eða eru frábrugðin að tungu eða menningu“ skv. Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi og er skylt franska orðinu enclaver (að girða af) og latneska orðinu clavis (lykill). Orðið esclave (fr.) og schiavo (it.) merkja þræll enda eru þrælar ekki frjálsir heldur tilheyra einmitt öðrum og eru gjarnan innlimaðir í afgirt rými (s.s. fangelsi eða annað afmarkað rými). Titillinn er því sterkur og táknrænn og vel við hæfi. Ekki er ég þó viss um að íslenska orðið hólmlenda sé gegnsætt orð fyrir hinn almenna sýningargest, en þess þá heldur fagurt og dulmagnað.
Ljósmyndirnar sem til sýnis eru í hvíta rýminu eru settar fram í hefðbundnu „white cube“ sýningarrými. Á sumum veggjum eru textar sem leiða gesti um sýninguna og fræða um innihald sem myndhöfundurinn vill koma til skila. Hvít sýningarumgjörðin rammar inn hinar litsterku ljósmyndir með ráðandi bleikum og/eða rauðum lit. Eitt ljósmyndaverkanna heitir Vítahringur (2015) og sýnir fjallalandslag í fjarska (Mukungwe-fjöllin), gróðursælan rauðan/bleikan dal og á sem rennur þarna í gegn (Kadubu áin). BANRO-gullnáman er þarna skammt frá og því er leitað að gulli í ánni. Fram kemur í texta á veggnum að BANRO er háþróuð iðnvædd gullnáma sem framleiðir tæp fjögur tonn af gulli á ári og sjá má verkamenn vinna að endurbótum á erfiðum vegaslóðanum sem liggur að námunni.
Hið ævintýralega landslag Richards Mosse með alvarlegum boðskap, sem lesa má á textanum sem fylgir verkinu og er stækkaður hér til hliðar við verkið.
Ef litið er framhjá textaskýringum á vegg er sjónræna afurðin töfralandslag. Verkin eru mörg hver ljóðræn, falleg, hugljúf. Þegar við förum að rýna í textann kemur í ljós að ekki er allt jafn yndislegt sem gerist í þessari undurfögru veröld eins og blær margra myndanna gæti gefið til kynna við fyrstu sýn.
Sýningin er sterk og áhrifarík. Það er upplifun að sjá verk Richards Mosse. Fagurt og tragískt í senn. Látið ekki þessa sýningu fram hjá ykkur fara. Verkin verða til sýnis til 1. janúar 2017.
Hér má sjá umfjöllun og fleiri myndir af verkinu.Hér að neðan er myndskeið með viðtali við listamanninn:
[fblike]
Deila