Ljóðræn yfirlýsing Bolaños

Nýlega kom bókin Verndargripur (Amuleto, 1999) út í íslenskri þýðingu Ófeigs Sigurðssonar, rithöfundar. Skáldsagan er eftir síleska rithöfundinn og ljóðskáldið Roberto Bolaño (1953-2003), og kom út hjá Sæmundi á Selfossi.

roberto_bolanoHöfundi skáldsögunnar, Roberto Bolaño, skaut upp á stjörnuhimin bókmennta á níunda áratug síðustu aldar en það var þó fyrst eftir ótímabært fráfall hans aðeins fimmtugan að aldri að verk hans voru þýdd á fjölda tungumála og vöktu heimsathygli. Af mörgum er hann talinn einn athyglisverðasti rithöfundur Rómönsku Ameríku um þessar mundir. Þekktustu ritverk hans eru skáldsögurnar Fjarlæg stjarna (Estrella distante, 1986), Bókmenntir Nasista í Ameríku (Literatura Nazi en las Américas, 1996), Villtu spæjararnir (Detectives salvajes, 1999), Kvöld í Síle (Nocturno de Chile, 2000), og síðast en ekki síst ritverkið 2666, sem fyrst birtist á prenti nokkrum árum eftir fráfall Bolaño, árið 2006. Auk þess skrifaði hann fjölda smásagna, ljóða[1] og pistla sem birtust í blöðum og tímaritum víða um hinn spænskumælandi heim.

Af mörgum er Bolaño talinn einn athyglisverðasti rithöfundur Rómönsku Ameríku um þessar mundir.
Bolaño fæddist í Síle og bjó þar fram á unglingsár þegar hann flutti með fjölskyldu sinni til Mexíkó. Þar tók hann virkan þátt í hreyfingum ungskálda, m.a. hópi „infrarealista“ og McOndo hópnum. Hvarvetna vakti hann athygli fyrir ögrandi viðhorf og umsagnir m.a. um hina rómuðu bókmenntahefð álfunnar sem kennd er við töfraraunsæi og rithöfunda boom kynslóðarinnar svokölluðu, með Gabriel García Márquez í broddi fylkingar.[2] Bolaño ferðaðist mikið og bjó víða en settist loks að í Katalúníu á Spáni þar sem hann lést ofarlega á biðlista eftir nýrri lifur.

Sögusvið skáldsögunnar Verndargripur, eða Amuleto á spænsku,[3] er Mexíkóborg árið 1968, nánar tiltekið svæðið nærri UNAM háskólanum (Universidad Nacional Autónoma de México), Tlateloclo torgi og strætin þar nærri. Söguna segir Auxilio. Hún kemur frá Úrúgvæ en við fáum aldrei að vita hvers vegna eða til hvers hún er komin til Mexíkóborgar. Hún er ein á ferð, flækist á milli staða, heimila, húsa, bygginga, öldurhúsa. Hún er engum háð, en um leið óvarin. Hún þraukar (bls. 175). Hún situr á æfingum í leiklistardeildinni, hangir á kaffistofu Hugvísindadeildar og kaffihúsum eða börum þar sem háskólastúdentar og menntamenn, ásamt listamönnum og ljóðskáldum, eyða dögunum yfir kaffibollum og vínglösum í pólitískum og heimspekilegum samræðum. Það er hún sem leiðir okkur milli atburða og áfengið er eins konar farartæki sem höfundur notar til að aðskilja veruleika og hugarheim eða „minningarnar sem svífa í reiðuleysi og óreglu“ (bls. 114), en einnig til að skapa svigrúm til að setja fram skopskyn á mörkum kaldhæðni oft á tíðum, staðhæfingar sem „gætu hafa verið lygi“ (bls. 121). Þar sem ekki skiptir máli „hvort ég sé stödd á árinu 68 eða 74 eða árinu 80 eða hvort ég sigli í eitt skipti fyrir öll eins og skugginn af sokknu skipi að hinu lánsama ári 2000 sem ég mun ekki sjá“ (bls. 125). Sjálf kynnir Auxilio sig með eftirfarandi hætti:

„Ég er móðir skáldanna í Mexíkó. Ég er sú eina sem hélt það út háskólanum árið 1968, þegar óeirðalögreglan og herinn brutust þar inn. Ég var ein eftir í háskólanum, lokuð inni á klósetti, án þess að borða í meira en tíu daga, í meira en fimmtán daga, frá 18. september til 30. september, minnir mig“ (bls. 168-169).

15-07-20-plaza-de-las-tres-culturas-ralfr-n3s_9336
Minnismerki um Tlatelolco fjöldamorðin á Plaza de las Tres Culturas í Mexíkó. Ljósmynd: Ralf Roletschek, sjá mynd hér.

Hér vísar Axilio til þess að árið 1968 gerðu stúdentar ekki einungis uppreisnir í París eða við Berkley háskólann í Bandaríkjunum heldur líka í Tlatelolco hverfinu í Mexíkóborg. Nýr forseti hafði tekið við völdum og það var róstursamt í landinu. Kalda stríðið var í algleymi, staða Mexíkó viðkvæm gagnvart nágrönnum sínum í norðri, öll gagnrýni var tekin sem tákn um að kommúnisminn væri að brjóta sér leið til fleiri landa en Kúbu og brugðist var við með offorsi. Þannig var það líka í Mexíkó, 2. október árið 1968. Þegar óvopnaðir stúdentar söfnuðust saman á Þriggja menninga torginu (Plaza de las Tres Culturas) lokaði herinn útgönguleiðum og hóf skotárás. Setja átti Ólympíuleikana í Mexíkóborg þann 12. október og sumir samfélagsrýnar hafa leitt að því getum að mikilvægt hafi verið að gestirnir væru vissir um að yfirvöld réðu landinu en ekki múgurinn.[4] Formlegar tölur um það hversu margir féllu í umræddu fyrirsáti hafa aldrei verið gefnar út. Yfirvöld sögðu fljótlega að þeir hefðu verið 40 til 50 en aðrar heimildir hafa tilgreint 200 til 300 manns (sjá bls. 50).

Atburðurinn hafði gríðarleg áhrif á umræðu og viðhorf um álfuna alla. Bolaño var 15 ára menntaskólanemi þegar þetta gerðist og bjó í Mexíkóborg. Í Verndargrip hverfist frásögnin um 1968 – fyrir / eftir! Og þótt atburðunum sé aldrei lýst með beinum hætti eru þeir alltumlykjandi. Eins konar leit-motiv sem færir atburði og athygli lesanda aftur og aftur á einhverskonar núllpunkt. Það er Axilio sem vísar síendurtekið til ártalsins og aðstæðna sinna í felum inni á kvennaklósetti á 4. hæð byggingarinnar sem þá hýsti Heimspeki- og hugvísindasvið UNAM – í fyrstu skjálfandi af ótta og með brækurnar á hælunum!

Hér má sjá stutt myndskeið um atburðinn:


Hér, eins og gjarnan í verkum sínum, fjallar Bolaño um samtímann, borgarumhverfið og áföll, því persónur Bolaño hafa flestar orðið fyrir áföllum, skaða eða ofbeldi.
Hér, eins og gjarnan í verkum sínum, fjallar Bolaño um samtímann, borgarumhverfið og áföll, því persónur Bolaño hafa flestar orðið fyrir áföllum, skaða eða ofbeldi. Það á líka við um sögupersónuna Arturito Belano sem Auxilio tekur sérstöku ástfóstri við. Um er að ræða 17 ára ungskáld frá Síle sem trúir á möguleika byltingarinnar og heldur til baka til heimalandsins til að taka þátt í uppbyggingu eftir að Salvador Allende kemst þar til valda sem forseti árið 1970. En Belano er tekinn til fanga og verður vitni að atburðum sem hafa djúpstæð áhrif og valda því að hann, eins og gjarnt er um sögupersónur Bolaños, er sífellt á varðbergi og forðast tengsl. Persónurnar eru jaðarsettar, „aðraðar“, þær verða hinir (sp. el otro), en Bolaño tekst með þessu að gera þær forvitnilegar, athyglisverðar en ekki brjóstumkennanlegar.

Auðvelt er að færa rök fyrir því að um sjálfsævisögulegar tilvísanir sé að ræða, jafnvel þótt höfundur hafi síendurtekið haldið því fram í viðtölum að í verkum hans væri ekki að finna sjálfsmyndir hans, heldur eins konar dæmisögur (sp. fábulas). Að skrifa, sagði hann, er að leika sér. Það felur í sér að spila af fingrum fram, aðhafast eitthvað sem er andstæða þess að bíða eða halda kyrru fyrir. Bolaño aflagar þann veruleika sem hann skapar, togar hann í tilteknar áttir og leikur sér með ráðandi ímyndir um töfraraunsæið. Á einum stað lætur hann Auxilio segja að hún hafi komið „út úr einni hlið spegilsins en hinir komu út úr hinni hliðinni“ (bls. 178) og annars staðar að hugur hennar hafi verið „á röngunni“ (bls. 179). Athyglisverðastur er þó kaflinn þar sem Auxilio deilir framtíðarsýn sinni um örlög helstu skálda vestrænnar bókmenntasögu (bls. 156-158). Og víst er að Bolaño vísar ekki einungis til sögulegra atburða í Mexíkó á sjöunda áratugnum, því í Verndargrip er að finna þéttriðið net tilvísana í önnur bókmenntaverk. Þessi textatengsl (eða intertextualidad skv. Genette),[5] færa lesandanum beinar tilvísanir í fjölda bókmenntaverka, m.a. verk úrúgvæsku skáldkonunnar Juana de Ibarabourou (1892–1979)[6]  og svokölluð „andljóð“ Nicanor Parra (1914-) sem hann útskýrði að væru ljóð með „kríólsku súrrealísku yfirbragði“.[7] Auk þess er í skáldsögunni að finna það sem Umberto Eco talar um sem intertexto eða flæði milli texta sem verður að eins konar samkvæmisleik milli höfundar og lesanda.[8] Þessu flæði er í senn ætlað að dýpka og bæta við en sá sem ekki þekkir til tapar heldur engu. Þetta á m.a. við um óbeinar tilvísanir í söngvaskáld álfunnar, eins og Silvio Rodríguez, León Giego, Víctor Heredia o.fl.[9] Auk þess sem finna má óbeinar tilvitnanir í verk síleska ljóðskáldsins Pablo Neruda, t.d. í ljóðasafnið Hæðir Machu Picchu (bls. 165) og tilvitnun sem felst í lokaorðum Verndargrips, en þar lýkur höfundur frásögn sinni á orðunum: „Og þessi söngur er okkar verndargripur“ (bls. 181, skáletrun mín). En þau má skilja sem tilvísun í ljóðabálkinn Canto general (1950) eftir Neruda, sem er lofsöngur um náttúru og íbúa Rómönsku Ameríku. Enda segir Auxilio í málsgreininni á undan:

Og þótt söngurinn sem ég heyrði fjallaði um stríðið, hetjudáðir heillar kynslóðar af rómansk-amerískum ungmennum sem var fórnað, vissi ég að umfram allt fjallaði hann um hugrekkið og um speglana, um þrána og um gleðina. Og þessi söngur er okkar vendargripur (bls. 181).

Því má halda fram að í Verndargrip sé að finna flest þau höfundareinkenni sem vakið hafa athygli á ritverkum Robertos Bolaño, s.s. tilvísanir í atburði sem allir þekkja, þar á meðal Síle um 1970, Mexíkó 1968, og síðar umfjöllun um kvennamorðin í norður-Mexíkó í verkinu 2666.[10] Bolaño fjallar um þessi hápólitísku málefni án þess að setja sig í dómarasæti. Rétt eins og hann fletti frá gluggatjöldum og veiti innsýn í tiltekinn veruleika en ætli lesandanum að túlka ástæður og áhrif atburðanna frekar. Efnistök Bolaños hér, eins og víðast hvar í höfundarverki hans, hverfast gjarnan um dimma skopstælingu, gagnrýni á viðtekin viðhorf, illsku, örvæntingu, dauðleika og sjálfseyðingarhvöt mannsins. Enn fremur er hér að finna enn annað höfundareinkenni Bolaños sem er hlykkjóttur en flæðandi stíll, þar sem útúrdúrar – stundum að því er virðist órökréttir – leiða lesandann frá einum stað til annars.

Verndargripur kemst nærri því að vera eins konar ljóðræn yfirlýsing Bolaños. Þar sem fjarlæg en hlý tilfinningasemi auðveldar samsömun með sögupersónunum.
Verndargripur kemst nærri því að vera eins konar ljóðræn yfirlýsing Bolaños. Þar sem fjarlæg en hlý tilfinningasemi auðveldar samsömun með sögupersónunum, þessum jaðarsetta hópi sem lifir frá degi til dags. Hrærist í tilveru þar sem vímugjafar og áfengi verða verkfæri til að skipta um tilverustig, færa sig frá raunsæinu og lesandinn skilur þau umskipti. Skipulögð óreiðan verður viðráðanleg! Mexíkóski rithöfundurinn Carmen Bullosa hefur sagt að Suður-Ameríka sé vagga fantasíunnar en að norðrið sé raunsætt og að verk Bolaños séu blanda af hvoru tveggja. Bolaño, segir hún í viðtali, „was a cultural nomad whose fiction takes place all over the globe, forestalling the ´transatlantic writer´, a label used to define his generation and the one immediately following”.[11] Bókmenntarýnirinn Francine Prose finnur hins vegar í verkum hans „a seamless blending of “surrealism, lyricism, wit, invention and political and psychological analysis”. […] He [Bolaño] demonstrated an avid pursuit to be his generation´s most independent writer”.[12] Juliet Lynd heldur því svo fram að:

Critics have examined his enigmatic narrative through the lenses of genre theory and trauma theory, memory and mourning, and changing theories of avant-garde aesthetics. Central to all of these is the complex intertextuality of history, fiction and literature created by the deferral of authorship and narrative authority through playful literary games of doubles, alter egos, and biographical references.[13]

Víst er að Bolaño leiðir lesendur sína eftir þröngum stígum milli þess þess sem Franklin Rodríguez kallar; „familiar, (heimlich, belonging to home, familiar, tame, friendly)“ og þess sem er; „unfamiliar (unheimlich, strange, dreadful, demonic, uncanny).“[14] Um stíl höfundarins segir hann enn fremur:

Bolaño changes names, adds places, provides details, and incorporates events and characters to a story that at the level of theme and plot remains guided by the pre-text but gains in complexity. Most important, however, the characters, and especially the narrator, are reworked and inserted into a process of doubling that allows for a more challenging exploration. Consequently, the concept of doubling is connected to self-criticism, an operation that makes characters visible to themselves and their meditations visible to the reader… characters with parallel lives, role models, shadows, mirror images, stream of consciousness, self-observation, the evil double or herald of impending destruction, double personality, ghosts, and nightmares (204).

Af framansögðu má ljóst vera að vel heppnuð þýðing Ófeigs Sigurðssonar á Verndargrip er happafengur öllum þeim sem unna heimsbókmenntum og þá sérstaklega athyglisverðum alvöru ritverkum þar sem virkrar þátttöku lesandans er krafist.

[line]
[1] Ljóðasafnið Rómantísku hundarnir: Ljóð 1980-1998 (Los perros románticos: Poemas 1980-1998) kom t.d. út árið 2006. Verk Bolaño skiluðu honum fjölda bókmenntaverðlauna, m.a. frá La Casa de las Americas og Rómulo Gallegos verðlaununum.
[2] Corral, Will H. „Roberto Bolaño. Portrait of the Writer as Noble Savage“. World Literature Today (2006), bls. 47-50.
[3] Sem einnig mætti þýða sem „fetiche“, galdra eða hjátrú.
[4] Mexíkóska skáldkonan Elena Poniatovska, sem var stödd á torginu umræddan dag og missti þar bróður sinn, hófst fljótlega handa við að safna frásögnum af því sem gerðist og gaf út í bókinni La noche de Tlatelolco: Testimonios de historia oral, árið 1971, eða Nótt Tlatelolco: Vitnisburður munnmælasagna.
[5] Genette, Gérard. Palimpsestos. La literatura en segundo grado. Madrid:Taurus, 1989. Sjá einnig: Bajtín, Mijail. Teoría y estética de la novela. Madrid: Taurus, 1989.
[6] Bolaño vísar til ljóðasafna hennar La rosa de los vientos (Rós vindanna, frá 1930) og Las lenguas de diamante (Demantstungurnar, frá 1934) (bls. 170).
[7]Sjá umfjölun Pedro Lastra í „Introducción a la poesía de Nicanor Parra“. http://nicanorparra.uchile.cl/ Skoðað 20. nóvember, 2016.
[8] Eco, Umberto. Sobre literatura. Barcelona: R que R, 2002.
[9] Fandiño, Laura. “El poeta-investigador y el poeta-enfermo: voces para narrar el horror en la obra de Roberto Bolaño.” Revista de Crítica Literaria Latinoamericana (2010): 391-413. En þar seguir hún: „el discurso plagado de tropos, imágenes eminentemente poéticas así como de alusiones al mundo literario, cinematográfico o a zonas específicas tanto de la llamada cultura popular como de la denominada culta”(404).
[10] Sjá enn ítarlegri umfjöllun í: Manzoni, Celina. Roberto Bolaño. Buenos Aires: Corregidor, 2002.
[11] New York Times Book Review. 9. júlí, 2006, bls. 47.
[12] Sama rit, bls. 47 og 48.
[13] Lynd, Juliet. “The politics of performance and the performance of narrative in Roberto Bolaño’s Estrella distante.” Chasqui (2011): 170-188. Hér af bls. 170.
[14] Rodríguez, Franklin. “Unsettledness and Doublings in Roberto Bolaño´s Estrella distante.” Revista Hispánica Moderna 63.2 (2010): 203-218. Hér af bls. 205.

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila