William ShakespeareSimlir konungur eins og leikritið Cymbeline, King of Britain, heitir í íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar er nú á fjölum Barbican leikhússins í Lundúnum. Þetta er eitt þeirra verka sem hvað sjaldnast eru sett upp eftir skáldið stóra, enda kannski um margt erfitt í uppsetningu, ekki síst ef menn hafa metnað til að skera það ekki niður við trog. Í fyrsta lagi er söguþráður verksins flókinn, eða öllu heldur er nokkrum einföldum söguþráðum ofið saman en á svo uppskrúfaðan hátt að það þarf að skýra það fyrir áhorfendum í lokin hvað þeir voru að horfa á.
Cymbeline, King of Britain
Royal Shakespeare Company, 2016
Talið er að þetta sé eitt af síðari verkum Shakespeares, samið 1609, en þá hafði Jakob VI/I áður Skotakonungur og nú konungur Stóra Bretlands setið í 6 ár við völd í Lundúnum. En það var ekki búið að sameina konungsríkin tvö að fullu, skoska þingið sat enn í Edinborg og það ríkti tortryggni gagnvart Skotum í höfuðborginni. Á þessum tíma voru svokallaðir hirðsjónleikir (e. masque) líka komnir í tísku við hirðina, en það voru verk sem byggðu meira á búningum og dansi en hinir hefðbundnu sjónleikir eða leikrit.
Alls þessa má finna stað í verki Shakespeares. Hann leitar til grárrar forneskju breskrar sögu í gegnum eftirlætis sagnabrunn sinn, annála Holinsheds, en hnuplar einnig víða annars staðar, frá Boccaccio og fleirum. Þannig getur hann kannski fjallað óbeint um hið ótrygga pólitíska ástand, jafnvel fengið nokkur stig á velþóknunarreikningi konungs og hirðar. Bygging verksins er því nokkuð snúin og söguþræðirnir virðast koma úr nokkrum áttum, er þetta rómantískur gamanleikur eða harmleikur eða blanda af hvoru tveggja?
[pullquote type=”left”]Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að Posthumus, eðaldrengur og ættlítill munaðarleysingi, er rekinn í útlegð til Rómar frá Bretlandi eftir að hafa gifst prinsessunni Innogen á laun.[/pullquote]Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að Posthumus, eðaldrengur og ættlítill munaðarleysingi, er rekinn í útlegð til Rómar frá Bretlandi eftir að hafa gifst prinsessunni Innogen á laun. Þar í borg veðjar hann við ítalskan flagara að sá geti alls ekki flekað eiginkonuna sem situr í festum heima og bíður þess sem verða vill. Flagarinn fer og kemst að ýmsu nærgöngulu um prinsessuna með brögðum eftir að honum misheppnast ætlunarverk sitt. Hann sannfærir síðan Posthumus um að hann hafi í raun flekað hana og verður hann við það æfur af reiði og biður hann þjón sinn Pisanio um að drepa hana á tilteknum stað þar sem hann hefur sagt henni að hann ætli að vera. Þjónninn veit betur og fer með hana af stað og lætur klæðast karlaklæðum til að komast undan. Samtímis er annar þráður í gangi, en hann snýst um stjúpson kóngsins sem líka vill giftast Innogen prinsessu en hefur verið hafnað þráfaldlega. Hann kemst að því hvert prinsessan átti að fara og eltir með það fyrir augum að ræna henni og giftast, reyndar eftir að hafa nauðgað henni líka. Þriðji þráðurinn snýst um kröfur Rómaveldis á hendur Bretlandi um greiða skatt, ellegar verði ráðist inn í landið. Og enn einn bætist við, gamall lénsmaður kóngsins hafði verið dæmdur í útlegð tuttugu árum áður og hann hafði þá rænt tveimur elstu börnum hans og bjó síðan með þeim sem skógarmaður. „Ringluð?“ eins og Burt spurði í lok sjónvarpsþáttanna Löður hér árum áður?
Ljósmynd/photo: © Ellie Kurttz © RSC.
Royal Shakespeare Company þekkir vitaskuld sinn Shakespeare og tekst af fagmennsku við þetta verk, sem á mjög vel við á tímum Brexits, a.m.k. hvað þráðinn um skattheimtu Rómverja snertir. En leikstjórinn (Melly Still) og hópurinn nýta sér einnig mjög vel sjónleikjaþáttinn í verkinu og blanda inn í það tónlist, dansi og látbragðsleik. Þetta er leikstjóraleikhús að besta þýska sið, kóngurinn er gerður að drottningu, Pisanio verður að Pisaniu og leikendur eru eins og vegfarendur Lundúna í dag, af öllum litum og stærðum. Margmiðlun er nýtt til fulls, myndbandsverk skreyta og það er hljómsveit, eða hljómsveitir ofan við báða vængi sviðsins. Leikararnir tala stundum ítölsku (jú), frönsku og latínu og er enskum texta Shakespeares varpað upp á sviðið á meðan. Ekkert er verið að fela brellur eða leikmyndabreytingar; leikendur sjálfir sjá um leikmuni á sviðinu og koma meira að segja með vind- og reykvélar inn á það þegar þarf.
Leikstjórinn og leikararnir nýta sér til fullnustu þá orðaleiki og kaldhæðni sem fyrir er í textanum og áður en saklaus áhorfandinn veit af er hann farinn að hlæja að harmrænum augnablikum en er um leið alveg gagntekinn af verkinu.Síðan er það flutningurinn sem var óaðfinnanlegur, þessir leikarar kunna að flytja bundið mál og það mörg hundruð ára gamalt, hvert orð heyrist, líka þegar hratt er talað, þannig að þeir sem vilja sitt „búningaleikhús“ (væri það hægt í þessu verki?) fá þó a.m.k. textann tæran og nánast óstyttan. Leikararnir fara líka geysivel með sveiflurnar milli harms og gamans sem er erfitt í svona stykki sem neitar að hlýða hinu klassíska flokkunarkerfi (og fór fínustu taugar klassisista á sínum tíma); stundum hlógu áhorfendur að morðum og ofbeldi af því að textinn og leikurinn íroníseruðu það svo gríðarlega að Brecht hefði verið himinlifandi. Hér er kannski helsta skýringin á því að sýningin tekst svona vel, leikstjórinn og leikararnir nýta sér til fullnustu þá orðaleiki og kaldhæðni sem fyrir er í textanum og áður en saklaus áhorfandinn veit af er hann farinn að hlæja að harmrænum augnablikum en er um leið alveg gagntekinn af verkinu. Lokaatriðið, sem er löng og vandræðaleg endursögn af leikritinu til að greiða úr öllum flækjunum og láta það enda vel (sem sagt kómedía), er meira að segja alveg bráðskemmtilegt og fyndið. Kvöldinu var vel varið Barbican leikhúsinu laugardaginn 5. nóvember.
[fblike]
Deila