Litasprengjur og eldflæði Ásgríms Jónssonar

Ógnvekjandi náttúra
Safn Ásgríms Jónssonar
2. okt. 2016 – 7. maí 2017
Sýningarstjóri: Rakel Pétursdóttir
Nú stendur yfir haustsýning á Safni Ásgríms Jónssonar (1874-1958). Það var lengi vel lokað almenningi sökum fjárskorts en er nú opið um helgar á vetrartíma og lengur yfir sumartímann. Sýningin ber yfirskriftina Ógnvekjandi náttúra og opnaði nú í október á fyrrum vinnustofu listamannsins og íbúð sem nú hýsir Safn Ásgríms Jónssonar við Bergstaðarstæti 74. Sýningarstjóri er Rakel Pétursdóttir deildarstjóri rannsókna og Safns Ásgríms Jónssonar hjá Listasafni Íslands.

Safn Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti.
Safn Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti. Ljósmynd: Hulda Hlín Magnúsdóttir

Nokkrar sýningar eru haldnar á safninu á ári hverju og veita innsýn í hluta verka Ásgríms. Að þessu sinni eru verk til sýnis frá öllum helstu tímabilum listmálarans. Listsköpun Ásgríms skiptist í grófum dráttum í þrjú megintímabil, fyrst vann hann í anda natúralisma, loks impressjónisma og að lokum litríks expressjónisma. Í eigu Listasafns Íslands eru fjölmörg verk en aðeins fá þeirra eru sýnileg hverju sinni og þá einkum á Safni Ásgríms auk einstaka verka á yfirlitssýningum sem stundum eru haldnar á Listasafni Íslands og víðar. Höfundur þessarar greinar saknar betra aðgengis fyrir almenning að verkum allt árið.

Þess ber að geta að hægt er að skoða ýmis verk rafrænt nú á vef Listasafns Íslands. Vefsýningin bregður upp, í grófum dráttum, mynd af því helsta sem Ásgrímur fékkst við. Að skoða verk rafrænt segir í besta falli hálfa söguna, við sjáum ekki áferð, stærð eða liti í réttu ljósi en vert er að mæla með vefsýningunni til að fá nánari innsýn og upplýsingar. Verkin á vefsíðunni skiptast í þrjá aðalflokka: þjóðsagnamyndir, landslagsmyndir og borgarlandslag. Umsjónarmenn vefsýningarinnar eru Rakel Pétursdóttir og Hlynur Hallsson.

Af sýningunni Ógnvekjandi náttúra á Safni Ásgríms Jónssonar
Málverkið vinstra megin við kistilinn er verkið sem ég fjalla um í textanum; olíumálverk – litríkur expressjónismi. Verkið hægra megin við kistil er meira í anda impressjónisma en þó eru litirnir nokkuð expressífir á neðri hluta myndar – vatnslitaverk. Kistillinn var í eigu Ásgríms.  Ljósmynd: Hulda Hlín Magnúsdóttir

Á Safni Ásgríms má nú sjá ýmis verk, s.s. málverk, teikningar og vatnslitamyndir og eru stærstu verkin tengd eldgosum og náttúru. Að auki má sjá hluta af innbúi listamannsins á safninu, s.s. rúm, borð og stóla, pensla og liti, píanó og sitthvað fleira. Tilvalið er að bregða sér á sýninguna til að kynnast aðeins heimkynnum og sköpun þessa listamanns sem gerði listina að sínu aðalstarfi fyrstur manna hérlendis. Það liggja sannarlega mögnuð verk eftir þann listamann og um að gera að grípa tækifærið og skoða verkin.

Ljósmynd: Hulda Hlín Magnúsdóttir
Málningartúpur listamannsins. Ljósmynd: Hulda Hlín Magnúsdóttir

Á sýningunni Ógnvekjandi náttúra birtast okkur litríkar landslagsmyndir, margar hverjar tengdar eldgosum. Á neðri hæð eru nokkur málverk yfir húsgögnum listamannsins en á efri hæð eru málverk, vatnslitaverk og teikningar á veggjum auk glerkassa sem stendur undir stóra þakglugga rýmisins og hýsir fjölda teikninga Ásgríms. Þar má meðal annars sjá teikningar tengdar eldgosum.

Náttúran er kynngimögnuð, stórbrotin og glæsileg eins og hún birtist í myndum Ásgríms. Verkin eru litrík, sterk, expressíf eða tjáningarrík en virðast ekki lýsa einhverju ógnvekjandi heldur frekar einhverju stórbrotnu og spennandi. Eftir því sem á líður í listsköpun Ásgríms verða litirnir expressífari.

Flótti undan eldgosi. Mynd fengin að láni hér af vef Listasafns Íslands
Flótti undan eldgosi. Mynd birt með góðfúslegu leyfi Listasafns Íslands.Sjá mynd á vef Listasafns Íslands.

Í lykilverki sýningarinnar, á efri hæð safnsins, er olíumálverkið Flótti undan eldgosi málað 1945 sem sjá má hér að ofan. Hér eru menn á hestbaki á ferð og í baksýn má sjá brjálað litasamspil eldgossins. Mennirnir eru þó rólegir, ekki ber á hræðslu. Þeir taka aðstæðum með ró og æðruleysi. Verkin eru full af tilfinningum og minna stundum á dramatíska náttúru sem sjá má í verkum Edvards Munch (1863-1944), svo sem í verkinu Ópið. Í verki Munchs má sjá í baksýn blóðrauðan himinn yfir bláum firði þar sem allt er á iði. Í því verki fylgja fígururnar með, veran sem æpir er í samræmi við landslagið; hvoru tveggja á iði og í tilfinningauppnámi ef svo má segja.  Í verki Ásgríms er himinninn sannarlega á iði og litasprengjur í allar áttir en fígúrur verksins rólegar og yfirvegaðar og umhverfið þeirra kyrrt í neðri hluta myndar.

Djákninn á Myrká eftir Ásgrím. Mynd fengin að láni úr bókinni Íslensk list, Ásgrímur Jónsson. Helgafell 1949
Djákninn á Myrká eftir Ásgrím. Mynd fengin að láni úr bókinni Íslensk list, Ásgrímur Jónsson. Helgafell 1949

Hræðslan birtist hugsanlega frekar í verkum tengdum ævintýrum og þjóðsögum sem Ásgrími voru hugleikin. Þar má gjarnan sjá svipbrigði fólks sem lýsir sterkum tilfinningum (meðal annars hræðslu). Ásgrímur teiknaði og málaði margt úr heimi þessara sagna og má þá nefna Djáknann á Myrká þar sem náttúran umlykur persónurnar og verður að dramatjaldi (dramatísku leiktjaldi eða leikmynd) og umgjörð fyrir söguhetjurnar. Djáknaverkin eru ekki til sýnis að þessu sinni en koma þó vonandi bráðum fram í dagsljósið enda um mögnuð verk að ræða.

Frá sýningunni.
Hverir frá 1908, vatnslitir á pappír. Í vatnslitamyndum sínum taldi Ásgrímur sig vera undir áhrifum frá William Turner sem var rómantískur landslagsmálari, nefndur málari ljóssins “painter of light”; undanfari impressjónismans. Ásgrímur sá verk Turners á námsárum sínum. Birta einkennir flest verk Ásgríms. Ljósmynd: Hulda Hlín Magnúsdóttir

Eins og Rakel Pétursdóttir sýningarstjóri greindi frá og fram kemur meðal annars í skrifum Hrafnhildar Schram listfræðings, taldi Ásgrímur sig hafa upplifað eldgos í æsku. Ekki er þó vitað með vissu hvort svo hafi verið og líklega hefur hann þá verið mjög ungur. Hann var upptekinn af eldgosum á fullorðinsárum eins og sjá má á verkunum á sýningunni. Ásgrímur málaði einnig myndir tengdar fornum eldgosum frá 1311 sem nefnast Sturluhlaup. Slíkar myndir málaði hann á Ítalíu um 1900 þegar hann dvaldi þar og einnig löngu síðar af sama viðfangsefni árið 1957 sbr. vefsýninguna.

Hrafnhildur Schram hefur bent á að þjóðsagnaverkin og eldgosamyndirnar eigi það sameiginlegt að lýsa einhvers konar flótta undan náttúruöflum eða tröllum, draugum eða öðrum ógnverkjandi fígúrum[1]. „Flóttinn” í eldgosamyndunum birtist þó frekar sem rólegt og yfirvegað ferðalag – hér er enginn æsingur, hróp og köll – frekar má greina depurð yfir harðræði náttúrunnar í svipum ferðalanganna og hestarnir eru hinir rólegustu, ekki á hlaupum.

Starry Night eftir Van Gogh
Starry night eftir Van Gogh

Ólgan í himninum minnir einnig á verk Van Gogh (1853-1890), sem var tuttugu árum eldri en Ásgrímur. Á ferðum sínum sá Ásgrímur verk impressjónista í Berlín sem hafa án efa haft mikil áhrif á hann. Van Gogh er gjarnan kenndur við post-impressjónisma eða expressjónisma. Himinninn í verki Ásgríms minnir á málverkið Starry Night eða Stjörnubjört nótt (1888) sem Van Gogh málaði á sínum síðustu árum, orðinn mjög expressífur og í tilfinningalegu uppnámi.

Monet, Sunset in Venice
Sunset in Venice eftir Claude Monet

Speglunin í verki Ásgríms (vatnið sem hestarnir ganga yfir) minnir aftur á móti á impressjónistana og má þar nefna Monet (1840-1926), samanber litspeglunina í vatninu í verkinu Sunset in Venice (málað á árunum 1908-1912). Ásgrímur er hér upptekinn af ljósinu og hvernig það speglast en er um leið expressífur í litum og tryllingi himinsins og má því segja að hér blandist þessir tveir heimar í efri og neðri hluta myndarinnar.

Ég mæli eindregið með að skoða verkin sem til sýnis eru að þessu sinni og njóta litadýrðarinnar áður en þau fara aftur inn í geymslur.

Sýningin stendur til 7. maí 2016. Opið er um helgar á vetrartíma; laugardaga og sunnudaga frá kl. 14 – 17.

[line]

[1] Hrafnhildur Schram. 2011. Íslensk listasaga. Frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Þjóðerni, náttúra og raunveruleiki. Ritstjóri Ólafur Kvaran. Forlagið og Listasafn Íslands, Reykjavík:89-90.

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila