Hannes (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og Smári (Halldóra Geirharðsdóttir) eru mættir til leiks á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu og halda þar rokkkonsert við mikinn fögnuð áhorfenda. Verkið er gert i samvinnu þeirra Halldóru og Ólafíu Hrannar og leikstjóra þeirra, Jóns Páls Eyjólfssonar. Tvær aðrar persónur eru í leikritinu, nýi trommarinn Eyjólfur Flóki, 12 ára, (Kolbeinn Orfeus Eiríksson) og draumadísin þeirra beggja, Sirrý (Elma Stefanía Ágústsdóttir).
Drag
Ólafía Hrönn og Halldóra eru báðar framúrskarandi leikarar. Karlarnir sem þær búa til á sviðinu eru staðalmanngerðir, skopmyndir, karlar sem í raun eru að leika karla og einhvers konar hugmyndir um karlmennsku. Það er einkenni „drag“ sýninga sem eru oft gróteskar af því að þær eru að snúa upp á viðteknar hugmyndir um kyn og kyngervi. Hannes og Smári eru tilfinningasamar karlrembur, bæði fyndnir og ofbjóðanlegir. Ef þeir væru amerískir og pólitískir væru þeir áreiðanlega harðir fylgismenn Donald Trump.
Skýrar persónur
Hannes og Smári eru æskuvinir, verkamenn, andstæðir og hliðstæðir, hetjan og skáldið. Þeir hafa hingað til birst í smámyndum en hér hefur þríeykið Jón Páll, Halldóra og Ólafía Hrönn, búið til heilt leikrit með harmrænum bakgrunni persóna, samkeppni þeirra á milli, ágreiningi og blendnum tilfinningum. Það má efast um hversu vel gamnið og alvaran samlagast. Elma Stefanía fær þrjú svipbrigði að moða úr en það samsvarar um það bil hugmyndum Hannesar og Smára um konur og þeir tala oftast um barnið Eyjólf Flóka (Kolbeinn Orfeus), eins og hann sé mállaus. Hann segir heldur ekki margt en reynist nú samt hörkutrommari og senuþjófur.
Fagmennska
Brynja Björnsdóttir gerir leikmynd og búninga en þeir og leikgervi Ásdísar Bjarnþórsdóttur eru afar áhrifamiklir. Leikmynd Brynju er „of stór“ fyrir litla sviðið af því að Smári klúðraði pöntuninni, á hana er varpað skemmtilegum myndböndum Jóns Páls. Niður úr loftinu sígur bátur og það er grillað og grátið og barist – hugmyndaauðgi í sýningunni er gríðarleg.
Skemmst er frá að segja að áhorfendur grétu af hlátri og ég hef enga trú á öðru en að þessi sýning verði ákaflega vinsæl.
[line]
Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Leikarar: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Kolbeinn Orfeus Eiríksson
Lýsing: Magnús Helgi Kristjánsson
Tonlist: Hannes og Smári
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon og Þórður G. Þorvaldsson
Myndband: Jón Páll Eyjólfsson Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir
Sýningarstjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir
Ljósmyndir: Grímur Bjarnason
[fblike]
Deila